Sveitarfélagið Hornafjörður er víðfemt, hér eru mörg tækifæri en uppbygging sveitarfélagsins hefur ekki verið í takt við atvinnuþróun og fjölgun íbúa í Öræfum.
Í Öræfum hefur íbúafjölgun innan sveitarfélagsins hlutfallslega verið mest, árið 1998 voru hér 109 íbúar en árið 2022 vorum við 228, þá eru ótalin þau sem búa hér en hafa ekki skráð lögheimili sitt í póstnúmerið. Samhliða þessu hafa milli 15-20 hús verið byggð hér á síðustu 7 árum. Ungt fólk hefur flust aftur heim og nýir Öræfingar hafa orðið til þegar aðkomufólk hefur sest hér að. Öll þessi uppbygging og íbúafjölgun sýnir það að hér vill fólk búa.
Árið 1985 byggði þáverandi Hofshreppur nýtt félagsheimili, Hofgarð. Hann gegnir því mikilvæga hlutverki að vera leik- og grunnskóli Öræfa. Vegna þess eru takmörk á því hvaða önnur starfsemi getur farið fram á meðan skólastarfi stendur. Sem dæmi má nefna að salurinn er notaður sem matsalur og því er ekki hlaupið að því að breyta rýminu í íþróttasal fyrir börn eða fullorðna. Eins eru gluggar og ljós í salnum sem ekki má brjóta og því er takmarkað hægt að spila boltaleiki í húsinu. Lofthæðin er of lág til að hægt sé að spila badminton með góðu móti. Og svona mætti lengi telja.
Í dag er Klifurfélag Öræfa eina starfandi íþróttafélagið í Öræfum. Sem stendur hefur félagið aðstöðu í húsnæði Björgunarsveitarinnar Kára í Káraskjóli. Þar fékk félagið leyfi til þess að byggja klifurvegg en aðstaðan er að öllu leyti tímabundin. Í klifurveggnum í Káraskjóli hafa farið fram skipulagðar æfingar fyrir börn en öll geta verið sammála um að húsið er ekki viðunandi íþróttaaðstaða, hvorki fyrir börn né fullorðna.
Í FAS hefur byggst upp öflug deild fjallamennsku á síðastliðnum 10 árum og eru nemendur í fjallamennskunáminu um þriðjungur allra nemenda í FAS. Skólinn hefur skapað sér sérstöðu í námsframboði og sækja nemendur alls staðar af landinu til okkar í faðm fjallanna undir Vatnajökli. Stærstur hluti vettvangskennslu fjallamennskunáms FAS fer fram í Öræfum þar sem að hér er besta aðgengi að klettum, skriðjöklum og snæviþöktum jöklum á öllu landinu. Oft á tíðum mæta kennarar í náminu þó ýmsum áskornum þar sem að hvergi er innanhúss aðstaða fyrir námið.
Til að mæta uppbyggingunni og fólksfjölguninni sem hefur orðið í Öræfum ætti Sveitarfélagið Hornafjörður að byggja upp fjölnotahús fyrir íþróttir og samkomur við Hofgarð en þar er nægt pláss á lóðinni sem sveitarfélagið hefur til umráða. Bygging á slíku mannvirki myndi breyta miklu fyrir íbúa á öllum aldri í Öræfum. Börnin í skólanum fengu viðeigandi aðstöðu til íþróttaiðkunnar, fullorðnir fengu íþróttaaðstöðu og þar væri hægt að hafa skipulagðar íþróttaæfingar sem bætir lýðheilsu og félagslíf allra. Í húsinu væri hægt að útbúa skrifstofurými, svipað því sem er í Nýheimum, þar sem fyrirtæki og stofnanir gætu leigt pláss og þannig væri hægt að útbúa fjölbreyttan vinnustað fyrir fyrirtæki á svæðinu, þjóðgarðinn, lögregluna, náttúrustofur og fleiri. Vitað er til þess að Vatnajökulsþjóðgarði skorti skrifstofurými sem og Lögregluembættinu en skrifstofugangurinn myndi nýtast öllum þeim sem vinna störf sem eru óháð staðsetningu. Mikill skortur er á ráðstefnurými í Öræfum en húsið gæti einnig gagnast sem ráðstefnu- og fundarsalur.
Fjölnotahús í Öræfum myndi reynast kennslunni í fjallamennskunáminu lyftistöng og myndi færa námið upp á hærra þrep. Húsið gæti gagnast sem kennslurými fyrir fyrirlestra en einnig til klifurs og fyrir línuvinnu. Þá gæti húsið mögulega nýst sem gistirými fyrir nemendur og kennara en afar erfitt er að fá gistingu á svæðinu með skömmum fyrirvara. Í húsinu væri einnig rými fyrir aðstöðu fyrir sjúkraþjálfara og nuddara sem gætu leigt sér pláss í húsinu fyrir farandþjónustu.
Umfangsmiklar rannsóknir á náttúrufari eru unnar í Öræfum enda á sér stað sérstakt samspil náttúruafla en húsnæðið myndi einnig gagnast í slíku t.d. hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og háskólum landsins.
Sveitarfélagið Hornafjörður ætti að byggja upp grunninnviði og hugsa stórt þegar litið er til framtíðar varðandi byggð í Öræfum. Svæðið er einstakt og býður upp á fjölda tækifæra og það er einkar mikilvægt að íbúar Öræfa finni fyrir því að stjórnsýslan láti sig málin varða varðandi aukin lífsgæði í Öræfum. Fordæmi eru fyrir því í öðrum sveitarfélögum að stofnaðar séu sjálfseignarstofnanir í kringum ríkisreknar stofnanir sem eru að mestu leyti í eigu sveitarfélagsins sem leigir svo út aðstöðu til ríkisins. Aukum þjónustustigið við íbúa í Öræfum og hefjum þarfagreiningu og grunnhönnun fyrir fjölnotahús fyrir íþróttir, samkomur og vinnustaði í Öræfum.
Íris Ragnarsdóttir Pedersen,
Höfundur er Öræfingur, kennari í FAS og skipar 9. sæti Kex.