Finnur Torfason – Framsókn og stuðningsmenn þeirra

0
1653

Samgöngur og Vatnajökulsþjóðgarður

Oft er talað um að maður verði samdauna umhverfinu sínu. Ætli það séu ekki að nálgast 10 ár síðan frænka mín sem búsett er í Hveragerði kom í heimsókn og það fyrsta sem hún nefnir þegar hún labbar inn er hversu lélegir vegirnir hingað séu. Fyrir þann tíma hafði ég í raun aldrei pælt í því hversu slæmur vegurinn um Þjóðveg 1 hér í sýslunni var og fannst hann í raun og veru bara fínn. En síðan eru liðin allmörg ár og lítið hefur breyst, þrátt fyrir fögur fyrirheit. Enn eru vegirnir jafn bugðóttir og einbreiðu brúnum hefur (næstum) ekkert fækkað.

Umferðaröryggi

Áframhald á veg yfir Hornafjarðarfljótin, skipulagsvinna fyrir vegstyttingar og vegabætur í Öræfum og Lóni eru nokkur af þeim verkefnum sem koma strax uppí hugann. Þessi verkefni og að Lónsheiðagöng komist á samgönguáætlun eru verkefni sem við verðum að þrýsta á stjórnvöld með að setja í gang sem fyrst. Það er mikilvægt að bæði sveitarstjórn sem og ríkisstjórn tryggi fjármagn í framgang þessara verkefna til að auka umferðaröryggi í sýslunni. Þar skiptir miklu að hafa öfluga stjórnsýslu sem þekkir sitt hlutverk.

Vatnajökulsþjóðgarður

Vatnajökulsþjóðgarður er lykilstofnun í sveitarfélaginu. Hann var stofnaður útfrá þremur megin markmiðum; að tryggja vernd einstakrar náttúru, byggja upp útivistarmöguleika á svæðum innan garðsins og styðja við þróun atvinnulífs á nærsvæði garðsins. Sérstaða þjóðgarðsins í Austur-Skaftafellssýslu er nálægð hans við byggð. Það eru því mikil tækifæri fyrir íbúa sveitarfélagsins að byggja upp atvinnu í tengslum við náttúruskoðun og útivist. Þjóðgarðurinn þarf jafnframt fjármagn, hvort sem er í formi beinna fjárframlaga frá ríkinu eða gjaldtöku á hans vegum, til að standa undir uppbyggingu innviða á svæðum innan garðsins. Lykillinn að uppfyllingu meginmarkmiða þjóðgarðsins og þar með eflingu byggðar er fólginn í markvissu og víðtæku samstarfi við alla hagsmunaaðila.

Tökum frumkvæðið

Jökulsárlón er lykilsvæði innan þjóðgarðsins og þar er deiliskipulag í mótun. Í því felst einstakt tækifæri til að styðja þróun atvinnulífs í sveitarfélaginu með því að byggja upp aðstöðu fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í ferðaþjónustu og veitingageiranum. Þó svo að ný svæði komi inn í þjóðgarðinn, má ekki gleyma þeim svæðum sem fyrir voru. Þjóðgarðurinn í Skaftafelli varð 50 ára á síðasta ári og aðstaða á svæðinu hefur ekki haldið í við fjölda gesta. Sveitarstjórnin þarf að taka frumkvæði í þessum mikilvægu málefnum og beita áhrifum sínum innan svæðisráðs suðursvæðis og stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðar.

Finnur Torfason
7. sæti á lista Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra