Ferðaþjónustan okkar á Covid árinu 2020

0
981
Siggi og Anna María í Húsafelli

Komið þið öll sæl og megið þið njóta aðventunnar árið 2020. Okkur langar að færa í rit hugrenningar okkar um þetta ár 2020 og skrifa um hvernig þetta ár, ár covid hefur litið út fyrir okkur Önnu Maríu og okkar fyrirtæki South East ehf / South East Iceland. En áður en við komum að því langar okkur að segja aðeins frá uppruna okkar. Anna María er fædd í Reykjavík 1972 og flutti fyrst til Hornafjarðar með foreldrum sínum og systkinum sem barn tímabundið og gekk hér í barnaskóla, hún kom svo hér í vertíðarvinnu í humarvinnslu frá 14 ára aldri og var þá hjá Einari bróður sínum, sem ákvað að verða hér eftir á Höfn þegar fjölskyldan flutti til Reykjavíkur. Anna María fór svo alltaf til Reykjavíkur á haustin þangað til hún var kyrrsett hér fyrir um 30 árum síðan. Ég er fæddur í Keflavík árið 1972 og bjó þar til þriggja ára aldurs en þá flutti fjölskyldan hingað til Hafnar og hefur búið hér síðan, en pabbi var Hornfirðingur en mamma er Ísfirðingur/Keflvíkingur en rætur og hjarta hennar eru frá Ísafirði.

Heimsfaraldurinn

En aftur að Covid árinu og stöðu okkar ferðaþjónustu í covidinu. Covid krísan byrjar hjá okkar fyrirtæki í lok janúar þessa árs 2020 því þá taka kínversk yfirvöld ákvörðun um að loka fyrir hópaferðir frá Kína. Á þessum tíma, lok janúar til miðs febrúar, þá er mest um gesti frá Kína í heimsóknum til okkar fyrirtækis, þetta er um kínversku áramótin og Kínverjar ferðast mikið á þeim tíma. Það verður töluvert tekjufall hjá okkur vegna þessa en við erum bjartsýn og teljum að þetta sé bara eitthvað sem gerist og ekkert við því að gera, og ítölsku vinir okkar komi til með að koma til okkar eins og undanfarin ár seinni hluta febrúar og í mars. Svo koma fréttir um útbreiðslu til Evrópu og víðar, þá hugsum við: „ja þetta er ekki gott, en ekkert annað að gera en að klára veturinn og passa okkur og svo verður sumarið gott“ þá yrði þetta yfirgengið héldum við, en það var ekki svo. Sá hópur sem hefur mest komið til okkar í lok febrúar og út mars eru Ítalir og ljósmyndahópar frá Ítalíu, en eins og allir vita þá var Ítalía sú Evrópuþjóð sem lenti verst í Covidinu í vetur/vor svo miklar afbókanir voru hjá okkur í lok febrúar og mars. Um miðjan mars sendir starfandi þjóðgarðsvörður Vatnajökulsþjóðgarðs frá sér hvatningu um að öllum íshellaferðum verði hætt frá og með mánudeginum 16. mars svo við Anna María settumst niður til að vega og meta aðstæðurnar og stöðu fyrirtækisins og hvort við ættum að stöðva íshellaferðirnar það sem eftir væri þennan veturinn, útlitið var ekki bjart, mest allar tekjur farnar frá seinnihuta janúar, en við komumst að þeirri niðurstöðu að það sé samfélagslega ábyrgt að hætta ferðum og loka tímabundið fyrir ferðir, þá töldum við líka að þetta yrði afstaðið með sumrinu og okkar aðal tekjutímabil myndi koma okkur áfram sem er sumarið og farþegaskipaferðir okkar frá Djúpavogi og Lónsöræfaferðirnar okkar sem við höfum verið í síðan við stofnuðum fyrirtækið árið 2015. Til að gera langa sögu stutta þá varð ekkert úr neinum farþegaskipakomum sumarið 2020 og tekjufall því tengdu hafði áhrif á okkur og marga aðila hér innan okkar sveitarfélags, við höfum ráðið bæði fyrirtæki og einstaklinga til að fara í þesssar ferðir með okkur frá upphafi og þær verið helstu tekjur okkar og annarra á sumrin síðustu ár, ég tala nú ekki um það mikla tekjufall sem varð hjá Djúpavogshöfn og ferðaþjónustuaðilum á Djúpavogi líka. Olga á Brekku hefur séð okkur fyrir salernisaðstöðu fyrir okkar gesti í þessum ferðum og það er vel og ekki sjálfgefið. Við viljum þakka Sigurði í Stafafelli og Olgu á Brekku fyrir góð samskipti og samvinnu vegna þessara ferða.

Að leið með hóp inn á Lónsöræfi

Góðar breytingar

Það voru líka jákvæðar breytingar á árinu því ferðir okkar og trúss með göngufólk sem ætlaði að ganga um Lónsöræfi jukust, hvort sem var með fólk til og frá Illakambi við Kollumúla eða upp á og frá Eyjabökkum. Þetta voru Íslendingar að nánast öllu leyti með örfáum undantekningum og það er vel.
Þessar ferðir krefjast mikillar vinnu og fara illa með farartæki, en jú þetta er þjónusta og hún krefst þess að það þarf að vakta Skyndidalsá, þegar blautasti tími sumarsins var þá var ég að fara í allt að fimm daga til að vakta Skyndidalsá morgna og seinnipart, nánast alla daga sem farið var með fólk inneftir eða fólk sótt fór ég um 5 leytið til að sjá stöðuna á ánni því þá gat ég sagt gestunum okkar hvernig staðan var, því eins og þeir sem ferðast um þetta svæði þekkja þá breytist áin á nokkurra klukkutíma fresti ef miklir vatnavextir eru, og vöðin færast um tugi metra jafnvel hverfa svo finna verður nýtt vað til að fara yfir. Það er okkar áhersla að það má ekkert koma upp á í þessum ferðum, því líf og heilsa eru að veði og ef eitt slys verður þá er það ekki aftur tekið sama hvernig á það er litið. Undanfarin ár þá hefur Skyndidalsá ekki verið ófær þegar við höfum verið á ferðini, það er meiri lukka en eitthvað annað, en í sumar kom það fyrir í þrígang að við þurftum að sækja eða skila af okkur við göngubrú við Hellisskóga/Eskifell, við tókum þó á það ráð í eitt skipti að skilja eftir bíl innan við á til að ferja fólk frá göngubrú og inn á Illakamb vegna þess að við treystum því ekki að það yrði fært yfir að morgni trúss dags, en það var svo fært.
Við höfum átt gott samstarf við Ferðafélag Austur-Skaftafellssýslu um þessar ferðir sem og Ferðafélag Íslands ásamt fleirum og við viljum þakka fyrir það samstarf undanfarin ár. Við erum þegar farin að undirbúa næsta sumar og erum í reglulegum samskiptum og undirbúningi vegna þeirra ferða. Við fengum styrk á árinu 2020 frá SASS í gegnum Sóknarfæri í ferðaþjónustu vegna þessara ferða og Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir var okkur mikil hjálparhella í þeirri umsókn og úthlutun og þökkum við fyrir það.

Að þjónusta kvikmyndaiðnaðinn

Frá því við stofnuðum fyritækið okkar höfum við verið að vinna öðru hvoru í framleiðslu verkefnum í kvikmyndagerð, auglýsingagerð, tónlistarmynböndum og annarri framleiðslu fyrir sjónvarp og það hefur verið gaman að vinna í því, vil ég nefna þá sem við höfum unnið mest með. Búa og Þóru í Hero production, Þóri Kjartanssyni í True North, Jean Michel og Kiljan hjá Comrade films, Sindra Páli hjá Reykjavík studios og fleirum. Mikil vinna og mikið lagt á sig til að verkefnin gangi upp, þar höfum við haft það að leiðarljósi að dreifa verkefnunum og samvinnunni á aðila heima í héraði sem við höfum verið í samvinnu við í gegnum árin, og segjum stolt frá því að við höfum skapað tekjur fyrir mörg fyrirtæki hér í þessum iðnaði, við höfum sem betur fer reynt að gera okkar hlutverk vel og því fengið það hlutverk að útvega bíla, mannskap og aðrar þarfir sem við treystum í þessi verkefni og höfum haft góða samstarfsaðila hér heima í þessu, þakkir til ykkar allra.

Með ferðamenn við Breiðárlón í sólsetrinu

Hvað er framundan ?

Það sem af er hausti höfum við farið í nokkrar íshellaferðir, í október fórum við með 44 gesti í íshelli í Breiðamerkurjökli, í nóvember fórum við með 12 gesti í íshelli í Breiðamerkurjökli, við höfum ekki farið með neinn gest það sem af er desember, en erum þó með bókanir fyrir 6 manns og eitt verkefni í tónlist. Við gerum ekki ráð fyrir að veturinn verði annasamur, íshellatímabili líkur í síðasta lagi um miðjan apríl teljum við, og jafnvel fyrr.
Það eru komnar fleiri bókanir í skipasumarið okkar en áður, en við sjáum ekki hvernig það kemur til með að klárast.

Mikið tekjufall

Tekjur okkar árið 2020 verða um 20% af tekjum ársins 2019 eins og ber að skilja þá er það allmikill skellur fyrir fyritæki og eru flestir ferðaþjónustu aðilar sveitarfélagsins í svipaðri stöðu, einn kollegi okkar segir tekjusamdrátt síns fyrirtækis vera 95% á árinu miðað við 2019. Ég dáist að baráttuanda þessa duglega fólks sem stendur að baki þessum fyrirtækjum. Áfram við!.
Til að draga úr kostnaði höfum við skorið allt niður, við höfum tekið bílana okkar af skrá og tryggingum tímabundið til að minnka kostnað, en sett á skrá aftur ef verkefni eru framundan, við höfum fengið frystingu lána og framlengingu á því, við höfum getað nýtt okkur hlutabótaleið stjórnvalda í launakostnaði til að þurfa ekki að loka fyrirtækinu, þannig getum við tekið verkefni sem bjóðast, við höfum boðið upp á loftmyndatöku með dróna til að auka tekjur, og það kom á óvart hversu vel það gekk og margir vildu þá þjónustu, sem er frábært, þakkir til allra sem leituðu til okkar.
Við fórum í samstarf við sveitarfélagið með tilboð til starfsfólks vegna árshátíðar sveitarfélagsins sem var aflýst en í staðinn þá ákvað sveitarfélagið að gefa starfsfólki sínu gjafabréf til að nýta í ferðaþjónustu á svæðinu sem styrk og viðspyrna vegna covid ástandsins, það var mjög vel gert af sveitarfélaginu, við þökkum fyrir þessa framsýni og stuðning. Við höfum tekið á móti einhverjum gjafabréfum og sjáum fram á að geta farið með þá gesti í íshella á nýju ári, við hlakkar til þess. Við Anna María ákváðum að gera tilboð til íbúa sveitarfélagsins og höfum við fengið nokkrar pantanir í gengum það tilboð sem er frábært og við viljum þakka sveitungum okkar fyrir góðar viðtökur og hlökkum til að fara með ykkur í íshellaferð.

Ríki Vatnajökuls

Ég tók að sér stjórnarstörf í Ríki Vatnajökuls á aðalfundi í vor að ýtinni og þá meinum við mjög ýtinni tillögu Dúdda í Hoffelli. 😊Það er krefjandi starf en á sama tíma gefandi að vera í stjórn þar sem mikill niðurskurður er, en með samhentu átaki stjórnar og hluthafa þá hefur tekist að halda starfseminni áfram. Það verður að halda áfram því þar er stórt markaðs- og kynningarstarf fyrir ferðaþjónustuna hér heima. Ég er afar stoltur af meðstjórnendum mínum á þessu erfiða ári og með þessar erfiðu ákvarðanir til að halda lífi í félaginu en með samhentu átaki að koma Ríkinu vel út úr þessu ári. Takk meðstjórnendur mínir fyrir vel unnin en erfið störf og sárar ákvarðanir. Olga Ingólfsdóttir takk fyrir allt.

Þakkir

Hvað þarf til að komast út úr svona ástandi ? Jú það eru góðir vinir, samstarfsaðilar og íbúar, og þar langar okkur að koma þökkum að.
Reynir Arnarson, takk fyrir að standa með okkur, koma þegar þörf er á, sama hvaða tími sólarhringsins er. Siggi Gunnar, okkar Icefix maður takk fyrir að koma þegar við höfum klúðrað málunum og bílar bila 24/7. Brandó fyrir að gera allt fyrir okkur, hleypa okkur í gryfju, þvottaaðstöðu eða bara hlýja aðstöðu þegar þarf. Boggi og Helga, Ingólfur og Kristín, Eiður og Bergþóra takk fyrir að standa með okkur þegar vonleysið kemur yfir. Starfsfólk Landsbankans á Hornafirði takk fyrir að leiðbeina okkur og standa með okkur. Kiddi, Katý og Axel, veggurinn að baki okkar.
Við viljum segja við alla okkar kollega í ferðaþjónustu, standið sperrt við komumst í gegnum þetta, það hyllir undir lok, en við öll megum ekki gleyma því að baráttan er enn í gangi. Kæru vinir og félagar, íbúar sveitarfélagsins gætum okkar áfram, pössum sóttvarnir, þreyjum þorrann og komum eins heil út úr þessu og við getum, árið 2021 verður frábært.
Við óskum ykkur öllum íbúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar gleðilegra jóla og frábærs árs 2021 og segjum farvell 2020.