Kolbrún Ingólfsdóttir afhenti sveitarfélaginu einstakt eintak af ferðabók Eggerts og Bjarna. Kolbrún S. Ingólfsdóttir og eiginmaður hennar Ágúst Einarsson komu að Hala þann 13. október sl. þar sem Kolbrún færði sveitarfélaginu til varðveislu frumútgáfu af ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar en bókin er gefin út á dönsku árið 1772 mun bókin vera eitt af sex eintökum sem til eru í heiminum.
Björn Ingi Jónsson bæjarstóri og Þorbjörg Arnórsdóttir framkvæmdastjóri Þórbergsseturs veittu bókinni viðtöku við formlega athöfn á Þórbergssetri.
Ferðabókin kom út í tveimur bindum á dönsku í Sórey árið 1772 og var þýtt á þýsku árið 1774 og var ekki þýdd á íslensku fyrr en árið 1943. Eggert og Bjarni fengu styrk frá dönsku stjórninni til ferðalaga um Ísland árin 1752-1757 og áttu að skrá niður búsetuhætti, steina, fugla og jurtir til lyfjanota. Dagbækur þeirra og fræðiathuganir eru í ferðabókinni.
Eggert Ólafsson var náttúrufræðingur, rithöfundur og skáld hann fæddist í Svefneyjum í Breiðafirði 1. desember 1726. Hann nam við Skálholtskóla og fór utan til náms í Kaupmannahöfn árið 1745 og nam náttúruvísindi, fornfræði, málfræði, lögfræði, lögspeki og búfræði. Hann var skipaður varalögmaður og hélt til Íslands og valdi vetralangt hjá mági sínum. Eggert og eiginkona hans Ingibjörg Guðmundsdóttir hurfu þegar þau sigldu frá Skor ásamt föruneyti 20. maí 1768, ekkert spurðist til þeirra eftir það.
Bjarni Pálsson fæddist á Upsum á Upsaströnd í Eyjafirði 12. maí 1719. Hann gekk í Hólaskóla 1734-1745 og fór síðan til Kaupmannahafnar í framhaldsnám til að nema læknisfræði og náttúruvísindi. Þann 1. júní 1748 luku hann og Eggert Ólafsson Ph. Baccalaureus prófi frá Hafnarháskóla. Bjarni lauk embættisprófi í læknisfræði 24. september 1759 þá fertugur að aldri og var skipaður landlæknir 18. mars 1760. Bjarni fékk fjárveitingu frá Danakonungi Kristjáni VII 1766-1808 fyrir tækjum og tólum. Hann mátti velja sér bústað og valdi Nes við Seltjörn og var Nesstofa byggð árunum 1760 til 1763 og á meðan bjó Bjarni ásamt fjölskyldu sinni á Bessastöðum.. Kona Bjarna var Rannveig Skúladóttir, dóttir Skúla Magnússonar landfógeta. Bjarni var eini læknir landsmanna til ársins 1766.
Kolbrún gaf bókina til minningar um foreldra hennar og fósturafa- og ömmu sem bjuggu á Höfn 1922-1943 og verður ferðabókin varðveitt á Hala í Suðursveit að hennar ósk. Kolbrún er fædd á Höfn, dóttir Guðlaugar Huldu Guðlaugsdóttur fósturdóttur Jóns Ívarssonar kaugpfélagsstjóra og Guðríðar Jónsdóttur konu hans og kallar hún þau fósturafa og ömmu. Kolbrún var í sveit á Skálafelli í Suðursveit hjá þeim hjónum Ragnari Sigfússyni og Þorbjörgu Jónsdóttur í tvö sumur, Það var því einkar skemmtilegt að Þorbjörg á Skálafelli var viðstödd afhendingu bókarinnar.