Félag eldri Hornfirðinga

0
1305

Stutt yfirlit yfir starf þess árið 2019

Félagsstarf eldri Hornfirðinga var blómlegt á árinu 2019.
Nokkrir toppar standa þar uppúr að áliti undirritaðra.
Má þar fyrst telja Þorrablótið sem haldið var í Sindrabæ 1. febrúar. Er þetta í þriðja skipti sem blótið er haldið í Sindrabæ og hefur nánast verið fullt hús í öll skiptin enda er Sindrabær mjög kær mörgu fólki á þessum aldri. Vonandi fáum við að vera þar áfram í framtíðinni.
Málþingið „Er gott að eldast? – staða eldri borgara í nútíð og framtíð“ var haldið í Nýheimum 22. maí. Málþingið var að frumkvæði Félags eldri Hornfirðinga í samstarfi við sveitarfélagið. Þarna fengu málþingsgestir innsýn í starf félagsins okkar, stöðu eldri borgara í Sveitarfélaginu Hornafirði og húsnæðismál. Gestafyrirlesarar fræddu um velferðartækni, starf Gráa hersins og Landsambands eldri borgara. Ánægjulegt er hvað málþingið var vel sótt og vonandi skilar það einhverju góðu fyrir framtíð eldra fólks í sveitarfélaginu því gott má alltaf bæta.

Haustferðin 23. September

Ferðanefndin góða sem var endurkjörin eftir gott starf í fyrra skipulagði þessa eftirminnilegu ferð, nú suður á bóginn. Gist var á Hótel Örk í Hveragerði þrjár nætur og farið þaðan í tvær dags skoðunarferðir. Fyrri daginn var ekið um Árnessýslu allt frá sjó til uppsveita. Leiðsögumaður var Guðni Ágústsson og var skemmtilegur að vanda.
Seinni daginn var farið Suðurstrandarveg og hring um Reykjanesið undir góðri leiðsögn Harðar Gíslasonar.

Jólatónleikar„Undir Vatnajökli“ voru haldnir 1. desember

Félagið réðist í að fá Guðrúnu Árnýju Karlsdóttur söngkonu og afa hennar Jón Hilmar Gunnarsson til að skemmta en þau eru ættuð frá Hornafirði. Gleðigjafar sungu nokkur lög og nutu aðstoðar Guðrúnar Árnýjar og einnig sungu hornfirsku systurnar Dagmar Lilja og Elín Ósk Óskarsdætur. Ekrubandið lék jólalög í upphafi tónleikanna. Fjölmennt var á tónleikunum og listamönnunum vel fagnað. Ákveðið var að ágóði af tónleikunum rynni til góðs málefnis í sveitarfélaginu eins og fram kemur í annarri grein hér í blaðinu.

Frá jólasamverunni að Smyrlabjörgum

Jólasamveran fór að þessu sinni fram á Smyrlabjörgum 7. desember. Jólasamvera hefur verið haldin árlega árum saman í Ekru, utan einu sinni á Hótel Höfn. Að þessu sinni var ákveðið að breyta til og leggja land undir fót (eða hjól) að Hótel Smyrlabjörgum þar sem beið dýrindis jólahlaðborð. Ung söngkona úr Öræfum, Steinunn Björg Ólafsdóttir frá Svínafelli skemmti við undirleik Guðlaugar Hestnes. Var gerður góður rómur að flutningi þeirra og greinilega eigum við þarna upprennandi söngstjörnu. Allir fóru saddir og sælir heim.
Þá er að geta hinna hefðbundnu liða sem hafa verið á dagskrá félagsins árum saman og yfirleitt vel sóttir. Samverustundin er á tveggja mánaða fresti frá október fram í maí. Þá eru oft fengnir gestir í heimsókn í Ekru með allskonar fróðleik og skemmtun. Síðasta samverustund síðasta vetrar var gerð sú tilbreyting að farin var rútuferð um Höfn undir leiðsögn Huldu Laxdal og endað í Íshúsinu þar sem snædd var pítsa í boði hússins.
Alltaf er jafn vinsælt að taka spilaslag, sérstaklega eru félagsvistirnar vinælar og fer þátttakendum í þeim fjölgandi frekar en hitt.
Mánaðarlega yfir veturinn eru haldin „vöffluböll“ í Ekru, þá er dansað við undirleik Ekrubandsins eða Hilmars og fuglanna og borðaðar rjómavöfflur. Karlar mega vera duglegri að sækja þessi böll.
Alltaf er fastur kjarni sem stundar snóker, það eru eingöngu karlar, einnig er möguleiki að spila þythokkí og pílukast en það er því miður lítið notað. Ekki má gleyma boccia sem er reglulega í Ekrusalnum.
Hópur kvenna kemur saman vikulega til að prjóna, ekki hefur ennþá tekist að draga karlana í þá iðju þó konurnar hafi boðist til að kenna þeim.
Leikfimi er stunduð reglulega svo og sundleikfimi og við höfum fengið aðgang að íþróttahúsinu klukkutíma í viku til að spila badminton o.fl. en sá tími mætti vera betur nýttur.
Þann 29. desember næstkomandi verður spilað um Hornafjarðarmeistaratitilinn í Hornafjarðarmanna í Nýheimum, en Albert Eymundsson sem endurvakti þetta skemmtilega spil hefur arfleitt Félag eldri Hornfirðinga að þessari skemmtilegu keppni.
Undanfarin þrjú ár hefur félagið látið útbúa viðburðadagatöl með myndum þar sem hægt er að sjá viðburði á vegum félagsins allt árið um kring. Að þessu sinni prýða dagatalið glæsilegar myndir af listaverkum eftir hornfirska áhugalistamenn.
Í haust var ráðist í að hefja smíði á minigolfi sem vonandi verður sett upp með vorinu.
Smíðastofan í Ekru hefur verið tekin í gegn, máluð og hreinsuð. Er þar góð aðstaða til allskonar smíðavinnu t.d. rennismíði.
Gleðigjafar, kór eldri borgara er sérstakur félagsskapur með sjálfstæða stjórn og fjárhag en þó nátengdur Félagi eldri Hornfirðinga og kemur oft fram á viðburðum á vegum félagsins. Stjórnandi kórsins til margra ára er Guðlaug Hestnes og undirleikari Gunnar Ásgeirsson yngri.
Félag eldri Hornfirðinga sendir félagsmönnum sínum, svo og velunnurum, bestu jóla og nýársóskir með von um góða samveru og gott samstarf á næsta ári.

Sigurður Örn og Haukur Helgi tóku saman.