FAS í 30 ár

0
2715
Frá uppsetningu FAS á leikritinu Grease árið 2013

Eins og kom fram í upprifjun á fésbókarsíðu Eystra­horns í september­mánuði síðastliðnum þá eru 30 ár síðan Framhaldsskólinn í Austur­-Skaftafellssýslu var stofnaður. Í tilefni af þessum tímamótum verða hinir árlegu Vísindadagar í skólanum sem standa yfir þessa dagana tileinkaðir þrítugsafmælinu. Lesendur Eystrahorns og íbúar á Suðausturlandi eru því minntir á afmælið með ýmsum hætti og eru beðnir að fylgjast með auglýsingum og viðburðum af þessu tilefni.
Það var í maí 1987 að formleg tilkynning barst frá menntamálaráðuneytinu um stofnun skólans, en fyrsta skólasetning Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu var 14. september og hefur skapast hefð fyrir því að miða afmælið við þann dag. Í byrjun var venjan að nota FASK við að skammstafa nafn skólans en þegar merki skólans birtist á bréfsefni og gögnum frá skólanum fyrir um 25 árum þá var skammstöfunin FAS endanlega staðfest.
Skólinn var frá stofnun og fram til 2002 til húsa í Nesjaskóla og þar á staðnum var grunnskóli einnig starfandi öll þessi ár og reyndar lengur. Í dag er rekið þar Hótel Jökull. Undirbúningur um að byggja nýtt skólahús á Höfn hófst um miðjan tíunda áratuginn og árið 2000 var undirritaður samningur um byggingu Nýheima og flutt í nýja húsnæðið í byrjun skólaárs 2002. Þannig að á þessum 30 árum má sjá að skólinn hefur starfað jafnlengi, eða 15 ár á hvorum stað. FAS var og er stærsti einstaki aðilinn í starfi og rekstri Nýheima og er í nánu samstarfi við aðra aðila í húsinu.
Á skólasetningunni 1987 kom fram að nemendur voru 52 talsins og kennarar alls 9 og þar af 4 í fullu starfi. Nemendum fjölgaði jafnt og þétt næstu árin og á 5 ára afmælinu 1992 hafði fjöldinn komist í eitt hundrað og voru flestir staðnemendur sem sóttu skólann reglulega. Nemendum hélt áfram að fjölga og við upphaf skólaárs 2000-2001 voru þeir orðnir 200 og eru þá fjarnemendur taldir með. Fjarnám við skólann var í boði frá því 1998, og þá sem tilraun, en jókst mjög hratt næstu árin og var samstarf við aðra framhaldsskóla á Austurlandi með fjarkennslu. Skólinn hefur síðan þróað sitt eigið fjarkennsluumhverfi með hjálp nýrrar tækni og fjölbreyttari lausnum og fjarnemendur eru enn í dag mikilvægur hluti af skólastarfinu og þeim fer fjölgandi á nýjan leik eftir dálitla fækkun á undanförnum árum.
Eitt af stefnumálum skólans sem hefur einkennt starf hans í gegnum tíðina er að leita eftir samstarfi við aðila í umhverfinu og þjóna því fólki sem býr hér og koma til móts við óskir og eftirspurn íbúa, fyrirtæki og stofnana hverju sinni. Þrátt fyrir ýmsar hindranir og tímabundna erfiðleika þá hafa langflest markmiðin náðst og nú síðustu árin hafa bæst við ný námssvið eins og nám í fjallamennsku, frumkvöðlafræði, kynjafræði, fab-lab verkefnastöð, nám í ferðaþjónustugreinum, erlent samstarf og fleira. Ekki má gleyma samstarfinu við Leikhóp Mána og Leikfélag Hornafjarðar um uppsetningu á leikritum með nemendum því það hefur verið mjög gefandi og lærdómsríkt og gefið skólalífinu lit.
Í þessari stuttu yfirferð er einungis verið að minna á fáein aðalatriði. Vakin er athygli á því að ítarlegri upprifjun á annál skólans í þessi 30 ár verður uppfærð á heimasíðu FAS fljótlega og þar gefst tækifæri til að kynnast betur því sem skólinn hefur staðið fyrir og nemendurnir hafa verið að fást við á þessum tíma.
Opið hús verður í skólanum fös. 27. okt. eins og fram kemur hér í blaðinu og á samfélagsmiðlum. Þar verður verkefnavinna nemenda á Vísindadögunum kynnt og 30 ára starf FAS er þar aðalviðfangsefnið. Til hamingju Hornfirðingar með afmælisbarnið!

Hjördís Skírnisdóttir og Zophonías Torfason tóku saman.

Í tilefni 30 ára afmælis FAS, verður á föstudaginn þann 27. október kl. 12
opnuð sýning í Nýheimum um starfsemi skólans.

Við opnun sýningarinnar verður boðið upp á veitingar til klukkan 14.
Sýningin í Nýheimum verður opin til 3. nóvember.