Fab Lab í vetur

0
656
Almar Páll vinnur að róbóta - Lokaverkefni í 10 bekk GH.

Starfið í Fab Lab smiðju Hornafjarðar hefur á síðustu mánuðum komist í eðlilegt horf eftir langt framkvæmdatímabil og auðvitað heimsfaraldur sem hefur sett svip sinn á líf okkar allra. Fab Lab kennsla í grunnskólanum hefur gengið mjög vel sérstaklega sem kemur að þrívíddarteikningu og þrívíddarprentun. Guðjón Magnússon hefur tengt saman kennslu í Fab Lab og Dungeons & Dragons (D&D) vali þar sem nemendur læra um hlutverkaleiki. Þrívíddarprentun er mikið notuð til að prenta út persónur og byggingar í spilinu til þess að gera það sjónrænna fyrir þátttakendur. Það hefur gert það að verkum að sprenging hefur orðið í þrívíddarprentun hjá þessum nemendum.
Hjá FAS hefur Aida séð um kennslu í smiðjunni en Aida kláraði Diplóma í Stafrænni framleiðslutækni á síðasta ári. Nemendur hafa verið að tengja smiðjuna við sitt nám með þrívíddarhönnun, þrívíddarprentun, límmiðagerð og gera tilraunir með textíl í laser. Hópur í vöruhönnun bjó til svokallaðan Camera Slider sem er notaður til að fá ákveðin effekt í videó myndatökur.

Verkefni unnið af nemendum FAS í Fab Lab

Boðið var upp á ýmis námskeið í vetur eins og tvö Fab Lab byrjenda námskeið, námskeið í Sjálfbærri ræktun, námskeið fyrir fólk í atvinnuleit í samvinnu við Fræðslunetið—símenntun á Suðurlandi, róbótasmíði námskeið o.s.frv.
Verkefnið Sjálfbær ræktun hefur verið í undirbúningi lengi í Fab Lab smiðju Hornafjarðar. Verkefnið er fjölþætt kennsluverkefni um sjálfbærni, ræktun og tækni. Markhópur verkefnisins er áhugaræktendur, smærri matvæla­framleiðendur í héraði og einnig nemendur grunnskóla og framhaldsskóla. Þetta verkefni verður kynnt frekar en sameiginlega er búið að sækja um styrki með Grósku og öðrum góðum samstarfsaðilum.

Þann 26. til 29. maí var haldið Fab Lab Bootcamp á Höfn þar sem allir Fab Lab stjórar og starfsmenn Fab Lab smiðja landsins komu saman, 15 manna hópur frá 8 smiðjum. Tilgangur hittingsins voru stefnumál fyrir Fab Lab Ísland, deila þekkingu okkar á milli og síðast en ekki síst hópefli. Farið var í gönguferð, haldin Karaoke keppni í Hlöðunni á Hala í Suðursveit, Fab Lab lag samið og tekið upp í Vöruhúsinu og borðaður góður matur á veitingastöðum bæjarins. Við viljum þakka öllum þeim sem tóku á móti okkur, frábærir dagar.
Eftir að hafa gert samning við ríkið til næstu þriggja ára höfum við hafið tækja uppbyggingu í Fab Lab smiðjunni. Búið er að kaupa nýjar öflugar tölvur í tölvuverið og nýjan 120 watta stóran laser. Einnig annan búnað sem tengist rafeindaverkstæðinu og róbótasmíðinni.
Það eru skemmtilegir tímar framundan í Fab Lab og höldum við áfram að þróast í takt við nýja tíma.
Verið ávallt velkomin í Vöruhúsið.