Erasmus+ dagar

0
928

Þann 11. október síðastliðinn stóð Rannís fyrir ráðstefnu í Menntaskólanum í Kópavogi þar sem yfirskriftin var jöfn tækifæri í Erasmus+, en í Erasmus+ er hægt að sækja um styrki til að vinna að alls kyns verkefnum. Öll skólastig geta sótt um styrki til Erasmus+. Að auki styrkir Erasmus+ starfsmenntun og fullorðinsfræðslu annars vegar og æskulýðsmál hins vegar. Að lokinni setningu var ráðstefnugestum skipt í vinnustofur þar sem reynslu af verkefnum var miðlað og rætt um ávinning af því að taka þátt í alþjóðlegum verkefnum.
FAS var boðið að senda þátttakendur á ráðstefnuna en skólinn hefur á undanförnum árum tekið þátt í fjölmörgum verkefnum sem hafa verið styrkt frá Erasmus+. Fulltrúar af FAS tóku þátt í tveimur málstofum. Annars vegar í málstofu fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla þar sem sérstök áhersla var lögð á skóla á landsbyggðinni sem eru langt í burtu frá alþjóðaflugvelli. Þar var bæði fjallað þau vandamál sem verkefnastjórar úti á landi standa frammi fyrir og eins hve mikla þýðingu það getur haft fyrir skóla á þessum stöðum að taka þátt í alþjóðlegum verkefnum.
Hins vegar tók FAS þátt í málstofu um starfsmenntun þar sem áherslan var á starfsþjálfun nemenda í starfs- og iðngreinum hjá fyrirtækjum og skólum í viðtökulöndunum. Sérstaklega var fjallað um leiðir til að hvetja og styrkja nemendur sem tilheyra minnihlutahópum s.s. innflytjendur, og nemendur með námsörðugleika eða fatlanir. ADVENT verkefnið sem er í gangi núna í FAS er einmitt gott dæmi um samstarfsverkefni á sviði starfsmenntunar.
Það er frábært að hafa aðgang Erasmus+ styrkjunum. Það að taka þátt í alþjóðlegum verkefnum skapar ný tækifæri til að auðga skólastarfið og víkkar um leið sjóndeildarhring og reynsluheim allra þátttakenda.