Er sértæk matarhefð á þínu svæði?

0
643

Matarhefðir er mikilvægur hluti af ímynd okkar, tengjast sögu okkar, menningu, veðurfari og því landslagi sem Íslendingar hafa búið við í aldanna rás. Þróun og breytingar eru af hinu góða en það er einnig mikilvægt að varðveita þekkinguna og hefðir. Við getum öll tilgreint þjóðlega íslenska rétti en það getur verið erfiðara að benda á svæðisbundna rétti og matarhefðir.
Suðurlandið er stórt og fjölbreytt landsvæði þar sem má finna svæði þar sem hefðir og venjur sem ekki finnast annarsstaðar á landinu. Sem dæmi var kúmen notað í rabbarabarasultu í Fljótshlíð á tyllidögum og fýllinn er enn borðaður undir Eyjafjöllum og í Mýrdal.
Með því að draga enn betur fram þær matarhefðir sem eru og hafa verið á Suðurlandi ásamt því að kortleggja þá matvælaframleiðslu sem á sér stað á Suðurlandi fáum við heildræna mynd yfir þann fjölbreytta matarauð sem þessi stóri landshluti hefur upp á að bjóða. Því köllum við hjá Markaðsstofu Suðurlands eftir áhugaverðum staðreyndum og skemmtilegum sögum um matarhefðir og venjum á Suðurlandi, hvort sem þær tengjast fornri tíð eða eru nýstárlegri og enn við lýði. Sögurnar munu nýtast við markaðssetningu sunnlenskra matvæla og veita innblástur í vöruþróun fyrir veitingastaði og matvælaframleiðendur.
Sögurnar má senda á helga@south.is fyrir 5. júní.
Þrír heppnir verða dregnir út og fá gjafabréf frá sunnlenskum veitingastöðum.

  • Þriggja rétta máltíð fyrir tvo í Pakkhúsinu á Höfn
  • Rifið lamb og bjór fyrir tvo hjá Midgard Base Camp á Hvolsvelli
  • Gjafaaskja frá Friðheimum með grillsósu, gúrkusalsa og grænni tómatsultu.