Eldfjallaleiðin vekur eftirtekt

0
808

Mótun Eldfjallaleiðarinnar, nýrrar ferðaleiðar á Suðurlandi og Reykjanesi, hefur vakið mikla eftirtekt en hátt á hundrað manns lögðu orð í belg á vinnustofum um leiðina í vetur. Ferðaleiðin er eitt áhersluverkefna Sóknaráætlunar Suðurlands á árinu 2023.
Eldfjallaleiðin er ný ferðaleið á milli Keflavíkur og Hafnar í Hornafirði, með áherslu á eldvirkni. Átta eldfjöll vísa veginn og draga fram sögur og áfangastaði á sínu áhrifasvæði:
• Fagradalsfjall
• Hengill
• Hekla
• Eldfell
• Eyjafjallajökull
• Katla
• Laki
• Öræfajökull
Eldfjöllin vísa ferðamönnum veginn um Reykjanes og þaðan inn á Suðurland og austur, með viðkomu á mikilvægum eldfjallasvæðum utan hringvegarins, svo sem í Vestmannaeyjum, Þjórsárdal og Skaftárhreppi. Svartir sandar og víðfeðmar hraunbreiður setja svip á leiðina að jökulklæddum Eldfjöllunum ógleymdum. Þegar komið er austur til Hornafjarðar blasa að lokum við ævaforn eldfjöll, alls ólík hinu nýja hrauni á Reykjanesi.

Markvisst hægt á ferðinni
Í dag sjáum við aukna áherslu á áhugasvið ferðamanna í stað lýðfræðilegra markaðsþátta á borð við aldur, kyn og stöðu. Með það í huga viljum við draga áfangastaðinn Suðurland fram með fjölbreyttum þemaleiðum. Vitaleiðin, ferðaleið á milli Selvogsvita og Knarrarósvita var opnuð árið 2021 og nú er unnið að Eldfjallaleiðinni. Þemaleiðirnar draga fram fjölbreytina sem í boði er með það að markmiði að laða að ferðamenn sem dvelja lengur og ferðast hægar yfir.

Gagnlegar vinnustofur
Opnar vinnustofur um Eldfjallaleiðina fóru fram á fimm stöðum á Suðurlandi ásamt einni á Reykjanesi og einni fjarvinnustofu. Að lokinni kynningu unnu þátttakendur fjölbreytt verkefni þar sem miklar umræður sköpuðust undantekningalaust. Fyrsta verkefni þátttakenda var þankahríð út frá spurningunni: „Hvernig tengist okkar nærsvæði eldvirkni?“ Útkoman var vel yfir 300 ólík atriði og því augljóst að hagaðilar eiga auðvelt með að tengja sig við þema ferðaleiðarinnar á einhvern hátt. Í næstu verkefnum var farið meira á dýptina og smám saman skapaðist góður gagnabanki yfir það hvað Eldfjallaleiðin skyldi standa fyrir. Þessi gögn hafa nýst Markaðsstofunni við að ramma leiðina betur inn.

Vilja fróðleiksfúsa ferðamenn
Á hverri vinnustofu fengu þátttakendur nokkrar mínútur til að hugsa inn á við og svara spurningunni: „Hvaða jákvæðu áhrif vil ég að Eldfjallaleiðin hafi?“ Yfir 200 svörum var skilað inn og sú áhersla sem stendur upp úr er að fræðsla verði aukin og að Eldfjallaleiðin laði til sín fróðleiksfúsa ferðamenn. Margir nefndu einnig bætta dreifingu ferðamanna, þá sérstaklega að fjölga áfangastöðum og byggja upp innviði á minna sóttum stöðum. Þá er þess óskað að Eldfjallaleiðin skapi grundvöll fyrir nýsköpun og vöruþróun. Það kom skýrt fram á vinnustofunum að hagaðilar vonast til að Eldfjallaleiðin tengi ferðamenn meira við sögu, menningu og mannlíf svæðisins.
Eftirfarandi tilvitnanir eru gott dæmi um það sem fólki var ofarlega í huga.
„Að fyrirtæki og íbúar tengi sig betur við nærumhverfið og geti þannig skapað tækifæri byggð á því. Sérstaðan á þessu svæði skíni í gegn.“
„Ferðamaðurinn kynnist okkur betur“
„Ég vona að ferðamenn stoppi lengur og að það takist að markaðsetja Slow Travel. Það er svo mikilvægt að fólk nái að hægja á, tengjast náttúrunni og læra af henni. Ég vona að þetta geri ferðaþjónustuna sjálfbærari hvað varðar náttúruvernd, samfélagið og auðvitað efnahagslega líka. Það er því mín von að þessi leið nái að gera ferðaþjónustuna jafnari allan ársins hring. Náttúrutenging, virðing fyrir náttúrunni, samkennd, traust samvinna er allt lykilþættir að sjálfbærni og það er hægt að [byggja] undir allt þetta með ferðaþjónustu.“
„Ég vil auðvitað að fólk stoppi lengur og fræðist. En á sama tíma vil ég að við sjálf fræðumst meira – höfum meira og betra aðgengi að upplýsingum sem við “nennum” annars ekki að sækja okkur eða hlusta á í skólastofu. Upplifun á staðnum fyrir okkur og ferðamennina.“
„Sagan okkar fái að njóta sín. Saga okkar Íslendinga er svo mikilvæg og hvernig við lifum með eldfjöllunum.“
„Að gestir dreifist á mjög breitt svæði meðfram “leiðinni” s.s. Keyri ekki endilega þjóðveg 1 heldur meðfram honum og upplifi það sem þeir vilja sem tengist eldfjöllum, sumir vilja sýningar, sumir bara ganga á vikri og á fjöll.“
„Meðvitaða ferðamenn sem tefla ekki á tvær hættur og sem bera virðingu fyrir því afli sem náttúra Íslands er“

Svörin eru í samræmi við umræðuna sem fór fram á vinnustofunum sem sýnir að fólk var almennt ófeimið við að orða skoðanir sínar á þessum vetvangi. Niðurstöðurnar sýna okkur að Eldfjallaleiðin ætti að vera miðuð að fróðleiksfúsum ferðamönnum sem vilja kynnast íslenskri menningu, bera virðingu fyrir náttúru og versla við heimamenn.

Kynnt í vor
Verkefnið hlýtur nú styrk sem áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurlands annað árið í röð og vonast er eftir að leiðin verði klár til kynningar fyrir sumarið. Ferðaþjónustan og aðrir hagaðilar munu geta tengt sig við Eldfjallaleiðina og nýtt til kynningar á sínu svæði líkt og aðilar gera nú þegar á Gullna hringnum og öðrum þekktum ferðaleiðum landsins. Drög að Eldfjallaleiðinni verða kynnt í vor og gefst áhugasömum þá tækifæri til að koma með ábendingar og hugmyndir að framhaldinu.
Stefán Friðrik Friðriksson
Verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Suðurlands