Ég kýs Eystrahorn

0
425

Um daginn var ég að taka til og fletta samansafni af ýmsum blöðum, bréfum o.fl. til að losa mig við það sem ekki er ástæða til að halda uppá. Rekst ég þá á kynningarblaðið sem ég dreifði í héraðinu þegar hugmyndin um að endurvekja Eystrahorn var í umræðu haustið 2009. Auðvitað fór ég að lesa þetta blað og rifja upp aðdragandann og hvers vegna ég sló til og lét reyna á útgáfu blaðsins. Blaðið kemur ennþá út tólf árum síðar, með nýjum eiganda, en ég þekki af reynslunni að það er örugglega barningur.
Hugmyndin gekk upp því viðhorf íbúa héraðsins var jákvætt og sömuleiðs stofnana og fyrirtækja sem auglýstu í blaðinu. Svokölluð vildaráskrift/styrktaráskrift sem fólk var tilbúið að greiða skipti sköpum.
Undanfarið hef ég tekið eftir að Eystrahorn birtir auglýsingar frá útgefanda með ábendingu um að styrktaráskriftina. Í samtali við Tjörva, útgefanda og ritsjóra, upplýsti hann mig um að vildaráskrifendum hafi fækkað töluvert. Svo mikið veit ég um rekstrarmöguleika blaðsins að það lifir ekki lengi ef þróunin verður áfram með sama hætti.
Mér rennur svolítið blóðið til skyldunnar og hvet fólk til að lesa vel auglýsinguna og styðja við blaðið, margt smátt gerir eitt stór, á hér svo sannarleg við. Sama gildir um auglýsendur þ.e.a.s. fyrirtæki, stofnanir og aðra sem þurfa að auglýsa eða koma upplýsingum á framfæri.

Albert Eymundsson
Fyrrverandi útgefandi og ritstjóri