Efldar almennavarnir – aukið öryggi

0
709

Sum okkar muna, á árum Kalda stríðsins, Almannavarnir ríkisns sem nefnd er gekkst fyrir viðvörunarflautuprófunum tvisvar til þrisvar á ári og safnaði teppum og varnargrímum, svo eitthvað sé nefnt. Meginframfarir í skipulagi almannavarna, sem tóku brátt að snúast fyrst og fremst um náttúruvá, fólust í Samhæfingarstöðinni (2003) í Reykjavík og sérlögum um almannavarnir 2008. Umræður um skipurit/stjórnun leiddu til þess að stjórnunarábyrgð lögreglu við aðgerðir í héraði kristallaðist í embætti ríkislögregustjóra (í umboði ráðherra), með ríkislögreglustjóra sem meginstjórnanda en hann hverfur senn sem embætti. Nú er unnt að meta reynsluna af framkvæmd og gæðum laganna að rúmum áratug liðnum.
Ég hef fylgst sem jarðvísindamaður og fjallamaður, afskiptasamur af umhverfismálum, með þróun Almannavarna í yfir 40 ár. Samhæfing, m.a. í björgunar- og aðstoðarstörfum (og gott hlutverk lögreglu í héraði) hefur þróast alllangt í rétta átt, líkt og samstarfið við sérfræðinga á mörgum sviðum. Fleira má nefna. Engu að síður blasir við að mörgum verkefnum, t.d. viðbragðsáætlunum, áhættumati, eflingu viðbragðsaðila, og þjálfun og menntun, hefur ekki verið nægilega sinnt. Einnig blasir við að skipta þarf litlum hluta björgunarliðsins úr sjálfboðamennsku yfir í launuð störf. Verkefnum fjölgar vegna þess að náttúrvá eykst með loftslagsbreytingum og fjölda ferðamanna. Samtímis er hafin endurskoðunar allra kerfa síma- og talstöðvasambands, raforkunnar og tölvusamskipta. Nýlegt fárviðri ýtti undir það.
Stórviðri, snjóflóð, skriðuföll og sjávarflóð á land verða væntanlega bæði öflugari og algengari en undanfarna, marga áratugi. Einnig veður að taka tillit til þess hlutlæga mats á hættu af öflugum eldgosum, eldgosum nærri byggð og stórum jarðskjálftum, í öllum tilvikum miðað við endurkomutíma, sem vísindi leggja okkur til. Aðeins dæmin Öræfajökull, Katla, Bárðarbunga, Reykjanesskagi og Tjörnesbrotabeltið á Norðausturlandi eru til marks um það.
Aðlögun að loftslagsbreytingum krefst líka traustrar starfsemi Almannavarna og viðbragðsaðila. Inn í rammann tengjast svo beinar rannsóknir á náttúruvá, vöktun hennar rekstur eða og myndun sjóða, svo sem Ofanflóðasjóðs, Hamfarasjóðs og Þjóðarsjóðs. Þarna, alls staðar, eru brýn verk að vinna.
Ég hef hvatt til þess að unnið verði af meira afli við endurskoðun á almannavörnum landsins en hingað til. Markmiðið á að vera að auka öryggi okkar allra með því að tryggja enn betri samhæfingu, meira fé til þátta sem efla skilvirkni, þekkingu, forvarnir og áætlanir. Mikilvægt er að Almannavarnir verði sjálfstæð stofnun og viðbragðsaðilar, allt frá lögreglu og Landhelgisgæslu til heilbrigðiskerfisins og björgunarsveita, virki sem samhæfð eining. Einnig er brýnt að haldið verði áfram að þróa og styrkja starfshætti og skipulag Samhæfingarmiðstöðvarinnar og miðstöðva á landsbyggðinni. Loks verður að kanna vel og meta gagnsemi þess að færa almannavarnir landsins undir forsætisráðuneytið.

Ari Trausti Guðmundsson