Draumarnir rætast á tímum Covid

0
1967
Haukur Ingi og Berglind

Hvernig vísir að Jökla-og fjallasetri varð til

Löngu áður en Haukur Ingi og Berglind stofnuðu Glacier Adventure áttu þau sér draum.
Draumurinn var að opna lítið kaffihús og leiðsegja ferðamönnum um fjalllendi í nálægð við Hala í Suðursveit þar sem Berglind er fædd og uppalin.  Haukur er fæddur í Reykjavík en alinn upp á Hornafirði. Þeim líður best úti í náttúrunni með börnunum sínum Tómasi Nóa, Arneyju og Steinþóri, fjölskyldu og vinum. 
Draumurinn um lítið kaffihús og ferðaleiðsögn um fjalllendi Suðursveitar hefur síðan þróast í hugmynd um Jökla- og fjallasetur. Þau eru ákveðin í að láta drauminn rætast með því að koma á fót hringiðu af allskonar þar sem hægt verður að sækja fjölbreyttar ferðir á vegum Glacier Adventure, njóta veitinga, fræðast, halda ráðstefnur, setja upp sýningar, sinna rannsóknum, taka á móti skóla- og gönguhópum og halda námskeið svo eitthvað sé nefnt.  Setrið verður staðsett í húsnæði sem Glacier Adventure hefur unnið að breytingum á undanfarin ár og samanstendur af Hlöðu, Mjaltarbási, Mjólkurhúsi og Fjósi sem foreldrar Berglindar ráku um áratuga skeið.
Berglind og Haukur eru heilluð af hugtakinu sjálfbærni, og telja það eitt af grundvallar hugtökum til að takast á við framtíðina á farsælan hátt.  Berglind heillast af öllu sem viðkemur útikennslu og Haukur er mjög áhugasamur um allt sem viðkemur því að hámarka gæði heildarinnar til langs tíma. 
Með Jökla- og fjallasetrinu vonast þau til að koma sínum skilaboðum og hugsjónum til gesta sem vilja sækja setrið heim, njóta útivistar og fræðast um nær- og fjærsamfélagið á margvíslegan hátt.  Það felast ákveðin tækifæri í því að lifa við rætur stærsta jökuls í Evrópu og vilja þau miðla reynslu sinni og þekkingu til allra þeirra sem vilja heimsækja Jökla- og fjallasetrið.

Nemendahópurinn sem nýtir sér aðstöðu Glacier Adventure

Um miðjan september kom skólahópur í ferð hjá Glacier Adventure frá SIT skiptinámi sem er skipulagt af Háskólasetri Vestfjarða. Skiptinámið heitir Loftslags­breytingar á norðurslóðum og dvelja krakkarnir á Íslandi frá byrjun september fram í byrjun desember.
Ferðin í september dró heldur betur dilk á eftir sér, en þá lenti Haukur á spjalli við nemendurna og eitt leiddi af öðru. Einn nemandinn (Nick) sagði honum frá því að þau ættu að finna sér rannsóknarverkefni einhversstaðar á Íslandi að eigin vali og verkefnið tæki um 4 – 5 vikur.  Haukur sagði Nick frá hugmyndinni að Jökla- og fjallasetrinu og að honum væri velkomið að nota aðstöðu og búnað Glacier Adventure til að vinna að verkefni sínu án endurgjalds. Hugmyndin var að gefa Glacier Adventure betri innsýn inn í hvort og hvernig setrið getur þjónað vísindamönnum sem  hafa áhuga á að koma og sinna rannsóknum á svæðinu.
Við komuna lét Nick okkur vita að sjö aðrir nemendur vildu nýta sér aðstöðuna sem Glacier Adventure bauð til afnota. Það var kærkomið tækifæri að fá þennan hóp nemenda og fá sem víðtækasta reynslu að hugmyndinni um setrið.
Verkefnin sem krakkarnir vinna að eru mjög áhugaverð og verðmæt fyrir starfsemi Glacier Advenure, en með niðurstöðum þeirra verður hægt að fræða gesti félagsins um áhugaverðar rannsóknir sem gerðar hafa verið í Ríki Vatnajökuls.
Fyrir áhugasama munu nemendurnir kynna verkefni sín í Fjóshlöðunni í lok nóvember en þá verður áhugasömum boðið að koma og hlutsta á nemendurna að því gefnu að samkomutakmarkanir verði rýmkaðar.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir hvern og einn nemanda og hvaða verkefni þau ákváðu að vinna að.

Owen Baley, er frá Concord, MA, USA.  Hann stundar nám í efnafræði frá Bates Háskólanum.
Owen ætlar að greina styrk snefilefna úr ösku sem fallið hefur á Breiðamerkurjökul og skolast út í Jökulsárlón.
“Þegar eldfjallaaskan sem sest hefur á jökulinn skolast af honum leysast snefilmálmar úr öskunni sem skila sér með bræðsluvatni út í Jökulsárlón. Margir þessara snefilmálma geta haft skaðleg áhrif á vistkerfi. Með því að taka sýnishorn úr Jökulsárlóni á 6 stöðum samtals 36 sýni vona ég að ég fái hugmynd um staðbundinn styrk Al, Mn, Fe, Co, Ni, Cu, Zn og Pb, og ef til vill get ég fylgst með hvernig þróun staðbundinna svæða innan lónsins geta haft áhrif styrk snefilefnanna.”

Celine Nour Smith, er frá Beirut, Lebanon og stundar nám í  Carleton Háskólanum í Northfield.  Verkefnið hennar heitir, “Mögulegt berghrun úr Miðaftanstind í Breiðamerkurfjalli.”
“Þegar jöklar hörfa standa óstöðugar fjallshlíðar eftir sem hafa tilhneigingu til að falla fram. Þetta gæti verið raunin nálægt Fjallsjökli. Á gervihnattamyndum fundust vísbendingar um óstöðuga fjallshlíð sunnan megin við Miðaftanstind. Mikilvægt er að fylgjast með þessari hlíð, þar sem hún getur valdið berghruni á Fjallsjökul. Ég mun taka drónamyndir af Miðaftanstindi til að búa til stafrænt hæðarmódel og meta þann massa og rúmmál sem er óstöðugur. Þetta mun hjálpa til við tryggja öryggi almennings á svæðinu og veita innsýn í hvernig loftslagsbreytingar og hörfun jökla hefur áhrif á stöðugleika fjallshlíða á Suðausturlandi.”

Lila Roginski, er frá Menlo Park, CA, USA.  Hún stundar nám í umhverfisfræðum við Háskólann, California Santa Cruz.  Meginverkefni þessarar rannsóknar er að rannsaka 5 stærstu fléttur sem finnast á jökulgörðum á Breiðamerkursandi, og bera kennsl á hvernig virkni fléttustofna innan svæðisins getur hjálpað til við að meta jökulhopun.
“Rannsóknin mun svara tveimur megin spurningum: „Eru 5 stærstu fléttu nálgunin raunhæf aðferð til að mæla jökulhopun Breiðamerkurjökuls?“ og, “Hvernig getur virkni fléttustofna í jökulruðningnum hjálpað okkur að skilja hopunarhraða jökla heimsins?” Rannsókn mín verður gerð meðfram austurströnd Breiðárlóns. Hér mun ég mæla Rhizocarpon agg skófir sem vaxa á basaltgrjóti meðfram og ofan á jökulöldum sem hafa myndast eftir 1880. Ég mun búa til vaxtarferil fléttna/skóva og skoða sambandið milli vaxtarhraða og tíma frá hopun jöklanna. Að lokum mun ég gera prófanir og fjalla um möguleg skekkjumörk í fléttufræðum til að greina hvort fléttufræðin séu nákvæm rannsóknaraðferð.”

Nicolas Bakken-French, er frá San Franscisco, CA, USA.  Hans aðalfag er umhverfisvísindi og stefnumótun, með jöklafræði sem aukafag frá Whittier Háskólanum. Nafnið á verkefninu hans er “Jökullón: hvað getur þróun og stækkun jökullóna við Suðaustanverðan Vatnajökli sagt okkur um fortíð, nútíð og framtíð jökla á Íslandi.”
“Þessi rannsókn mun endurskapa tímalínu jökulhopunar frá lokum litlu ísaldar og skilgreina muninn á náttúrulegri hopun og hopun af mannavöldum sérstaklega með áherslu á myndun jökullóna fyrir framan jökla. Jökullón eru að stækka og myndast þegar jöklar bráðna vegna loftslagsbreytinga, þetta á sérstaklega við um skriðjökla sunnan Vatnajökuls sem steypast fram af ísbreyðunni niður á suð-austurströnd Íslands. Þessi rannsókn mun einnig kanna hvernig mismunandi jökuljaðrar geta haft mismunandi áhrif á jökulhopunar hraða. Rannsóknirnar munu beinast að mestu leiti að Fjallsjökli, Heinabergsjökli og Hoffellsjökli og viðkomandi jökullóna.”

Julia Sokolowska, er frá Bielsko-Biala, Poland.  Hún stundar nám við Wellesley Háskólann.  Nafnið á verkefninu hennar er:  “Hvernig ætlar Ísland að ná kolefnishlutleysi samgangna á landi.”
“Markmið verkefnisins er að ákvarða hagkvæmustu leið Íslands til að ná kolefnishlutleysi samgangna á landi á sem skynsamlegastan hátt til samræmis við áform stjórnvalda um að ná fram kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Ég mun rannsaka þrjá mismunandi enurnýjanlega orkugjafa í því samhengi: rafmagn, metan og vetni og bera þau saman við einstök landflutningsskilyrði á Íslandi, og kynna þann hentugasta af þessum þremur kostum.”

Camille Row, er frá San Fransisco, CA, USA. Hennar námsbraut er Umhverfisfræði og skapandi skrif frá Háskólanum í Oregon.  Verkefnið hennar heitir “Breiðamerkurjökull: Jarðvegsheilsa & framleiðni við Breiðamerkurjökul.”
“Þetta verkefni mun kanna framleiðni jarðvegs í kringum Breiðamerkurjökul. Framleiðni jarðvegs getur verið mikilvæg vísbending um heilsu vistkerfa og sagt okkur hvort örverur séu að brjóta niður lífrænt efni með þeim hraða sem þarf til að styðja við vistkerfið. Ég hef í hyggju að taka jarðvegssýni úr jökul ruðningum fyrir framan Breiðamerkurjökul, byrja við rætur jökulsins og færast fjær og fjær jöklinum um 2 km. Ég mun prófa magn uppleysts súrefnis frá hverju sýnishorni og niðurstöðurnar munu leiða í ljós hver vikni örverurnar er þegar þú færir þig lengra frá jöklinum. Ég vona að niðurstöðurnar veiti innsýn í hvernig jökuljarðvegur umbreytist þegar jöklar halda áfram að hopa.”
 
Koharu Aoki, er frá Tokyo Japan.  Hún stundar nám við Umhverfisfræði og alþjóða stjórnmál frá Bates Háskólanum.  Nafnið á verkefninu hennar er:  “Að kanna andstæður er tengjast náttúrutengdri ferðaþjónustu: Hvernig á að jafna efnahagslegan ágóða og náttúruverndarviðleitni á svæðum eins og í Vatnajökulsþjóðgarði.”
“Þessi rannsókn mun fjalla um stjórnunarstefnu Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir ferðaþjónustu í Vatnajökulsþjóðgarði og tengsl þeirra við leiðsögumenn á svæðinu. Þessi rannsókn mun fela í sér viðtöl við stjórnendahóp þjóðgarðsins og leiðsögumenn sem ræða reynslu sína og skoðanir á því hvað og hvernig hægt er að gera sjálfbæra starfshætti fyrir fyrirtæki sín og hvort þeir forgangsraða ágóða umfram friðun og náttúruvernd, eða öfugt. Einnig mun þessi grein fjalla um samskipti sveitarfélaganna og eftirlitsaðila er varðar stefnumótun og fyrirtækja á staðnum og hvernig tveir mismunandi og ólíkir aðilar skiptast á hugmyndum og skapa samtal.”

Dewi Henry, er frá Allentown, PA, USA. Hún stundar nám frá Bates Háskólann.  Nafnið á hennar verkefni er “Tölfræðilegt líkan fyrir jafnvægi jökla.”
“Ég mun rannsaka þvingunaraðferðir sem hafa áhrif á massajafnvægi jökla. Þvingunarferli inniheldur úrkomu, lofthita, skýjaþekju og staðsetningu frá sjó. Ég er að kanna þessar aðferðir með því að búa til tölfræðilegt tölvulíkan í python. Líkön sem þessi eru gagnleg til að líkja eftir því hvernig jöklar bregðast við breytingum á mismunandi streituvöldum sem valda loftslagsbreytingum.”