Djöfullegur leiklestur í Svavarssafni

0
1448

Síðan árið 1996 hefur Dagur íslenskrar tungu verið haldin hátíðlegur með ýmsum hætti um allt land. Á þessum degi eru verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, sem átti afmæli þennan dag, veitt einhverjum sem þykir hafa unnið góð störf í þágu íslenskrar tungu, en Jónas sem fæddist 16 nóvember er sennilega afkastamesti nýyrðasmiður Íslandssögunnar. Meðal orða sem Jónas fann upp á má nefna rafmagn, páfagaukur, skjaldbaka, stjörnuþoka, æðakerfi, líffæri, jarðfræði, sjóveiki, sjónauki og ýmislegt annað, svo óhætt er að segja að íslensk tunga væri töluvert öðruvísi án hans framlags.

Um það leyti sem Jónas Hallgrímsson samdi nýyrði sín var öflugt leiklistarlíf á Íslandi, sem oftar en ekki fór fram á dönsku, og voru kómedíur eftir dönsku leikskáldin Heiberg og Holberg vinsælar. Hér er óþarfi að rekja helstu frumkvöðla íslenskrar leikritunar, heldur skal látið duga að skrifa að eftir að hafa rætt það sín á milli að halda leiklestur á klassísku íslensku leikriti í tilefni íslenskrar tungu milli safnvarðar og formanns leikfélags var ákveðið að halda leiklestur á Gullna hliðinu eftir Davíð Stefánsson.

Davíð er rétt eins og Jónas eitt ástsælasta skáld þjóðarinnar, en Gullna hliðið byggir á þekktri þjóðsögu um trygglynda og frekar þrjóska eiginkonu sem ákveður að koma karli sínum til himnaríkis hvað sem tautar og raular, þrátt fyrir að maðurinn sé að mati flestra algjör ónytjungur. En til að vita hvort að kerlingu lukkist að koma sálinni hans Jóns inn fyrir Gullna hliðið þarf að mæta í Svavarssafn næsta miðvikudag og hlusta á leikara úr Leikfélagi Hornafjarðar flytja textann.

Verið öll velkomin.

Emil Morávek og Snæbjörn Brynjarsson