Byggjum upp

0
1558

Jökulsárlón

Jökulsárlón er lykilstaður fyrir ferðaþjónustu í okkar sveitarfélagi og eitt helsta aðdráttarafl þess. Það er nú komið undir mörk Vatnajökulsþjóðgarðs sem þýðir ekki að við eigum að skila auðu um skipulagsmálin þar. Þvert á móti gerir stjórnfyrirkomulag garðsins okkur kleift að forsvarsmenn sveitarfélagsins taki frumkvæðið.  Ferlið verður hins vegar að vera opið sem fer víðsfjarri hjá þeim sem nú koma að þessum málum.  Fyrsta sem hafa ber í huga við gerð skipulagsins er hvert markmið þess á að vera.
Við viljum að uppbygging við lónið miði að því að nokkur lítil og meðalstór fyrirtæki sem hafa sterk tengsl við nærsamfélagið fái að koma þar upp aðstöðu, hvort sem um er að ræða afþreyingarfyrirtæki eða veitingafólk.  Sanngjörn leiga þarf að sjálfsögðu að koma fyrir aðstöðuna en það má hins vegar ekki gerast að vegna ásóknar fjársterkra aðila að vaxtarsprotum í ferðaþjónustu á svæðinu verði ýtt úr vegi.

Skipulagsmál á Höfn

Fyrir liggur þörf í uppbyggingu íbúða í bæði dreifbýli og þéttbýli. Fjölbreytt framboð á lóðum innan Hafnar er mikilvægt sem aldrei fyrr og að huga vel að uppbyggingu grænna svæða. Við gerð skipulags er framtíðarsýn mikilvæg og fólk verður að hafa hugmynd um hvernig samfélagið á að þróast en dansa ekki eftir geðþótta ákvörðunum á hverjum tíma. Á Höfn þarf að halda áfram uppbyggingu strandstígs og grænna svæða.

Skipulagsmál til sveita

Það er ánægjulegt að núverandi meirihluta hefur tekist á fjórum árum, að ljúka því sem var nánast komið í höfn fyrir fimm árum – að klára skipulag í kringum félagsheimilin í sveitunum. Félagsheimilunum okkar þarf að sýna meiri sóma með bættu viðhaldi og snyrtilegri aðkomu. Nú hljóta menn að laga planið við Mánagarð í vor! Í dreifbýlinu er mikilvægt að íbúar og gestir upplifi ekki þrengsli. Sú sérstaða sem Ísland hefur, víðerni og andrými, verður að viðhalda.

Skipulagsmál og lýðræði

Íbúalýðræði hefur ekkert verið að flækjast fyrir okkur síðustu árin. Það er því mikilvægt að kjósendur vegi og meti hvort þeir vilji að vinnubrögð breytist við stjórn sveitarfélagsins. Leiðarljós okkar Framsóknarmanna í þeim efnum er betra upplýsingaflæði, meira samráð og gott viðmót í samskiptum sveitarfélags og íbúa þess.
Verkefnin eru mörg og sum brýn og krefjandi en ekkert þeirra óleysanlegt. Við Framsóknarmenn og stuðningsmenn þeirra bjóðum ykkur starfskrafta okkar næstu fjögur árin til þess að gera samfélag okkar allra enn sterkara.

Ásgrímur Ingólfsson
2. sæti á lista Framsóknar og stuðningsmanna þeirra