Bráðskemmtilegur fjölskylduvænn söngleikur

0
272

Nú styttist óðum í frumsýningu á hinum sívinsæla fjölskyldusöngleik Galdrakarlinum í Oz. Verkið er sett upp í Mánagarði í samstarfi leikfélags Hornafjarðar við FAS. Flestir ættu nú að kannast við hinar ýmsu sögupersónur sem eru á kreik í Oz og nágrenni en sem dæmi má nefna Dórótheu, hundinn Tótó, fuglahræðuna, járnkarlinn, ljónið, góðu norðannornina, vondu vestannornina og galdrakarlinn sjálfan.Verkið er bæði hugljúft og boðskapurinn fallegur en einnig stútfullt af kímni, gleði, söng og dansi.

Æfingar hófust fljótlega eftir áramót og hefur ferlið verið skrautlegt og skemmtilegt.
Hópurinn samanstendur af nemendum FAS, áhugaleikurum á öllum aldri og áhugasömu fólki víðsvegar úr samfélaginu sem vilja leggja leikfélaginu lið. Það er þó einstakt í verkinu í ár að í hópnum eru nokkrir mun yngri leikarar en tíðkast hefur áður í uppsetningum leikfélagsins.
Opnar áheyrnarprufur voru haldnar í Sindrabæ í byrjun árs fyrir áhugasöm börn á aldrinum 10 ára og eldri.

Það að setja upp svona stórt og skemmtilegt verk krefst aðkomu fjölbreyttra aðila úr samfélaginu. Við erum ósköp þakklát þeim sem taka þátt í verkinu á einhvern hátt, hvort sem er á sviði eða á bakvið tjöldin.

Leikstjóri verksins er Vala Höskuldsdóttir og erum við í leikfélaginu mjög þakklát að hafa fengið hana til okkar. Vala hefur sinnt starfi sínu af mikilli álúð og hefur náð vel til leikaranna okkar. Áhersla hefur verið lögð á leikgleðina og hefur Vala hvatt leikarana til að opna á sér ævintýrahjartað. Vala er leikstjóri og sviðslistastjóri fædd og uppalin á Akureyri. Hún hefur meistaragráðu í sviðlistum frá Listaháskóla Íslands og er að ljúka kennsluréttindum þaðan.

Sýningin er fyrir fólk á öllum aldri og því tilvalið að bjóða börnum sem og öfum og ömmum. Miðasala verður auglýst þegar nær dregur. Við vonum að sem allflestir Hornfirðingar komi í leikhúsið og opni ævintýrahjörtun sín fyrir þessu margslunga og stórbrotna verki sem Galdrakarlinn í Oz er.
Það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi hvort sem það er leikurinn, tónlistin, litríkir og skemmtilegir búningar eða sviðsmyndin.

Leikfélag Hornafjarðar