Börn eru mikilvægust!

0
254

Almennt er fólk sammála um að það mikilvægasta í lífinu sé fjölskyldan, börnin og ástvinir. Ekki tekst þó alltaf að manna þau störf sem snúa að því að vinna með börnum eða ástvinum okkar sem þarfnast umönnunar. Eins og glöggir notendur heimasíðu sveitarfélagsins hafa tekið eftir þá er stöðugt verið að auglýsa eftir starfsfólki í leikskólann Sjónarhól. Leikskólinn Sjónarhóll er nýr mjög vel búinn 7 deilda leikskóli sem stendur til að byggja við því sem betur fer er börnum heldur að fjölga í sveitarfélaginu. En þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar hefur ekki tekist að ráða inn nægilegan fjölda af starfsmönnum og nú lítur út fyrir að ekki verði hægt að opna allar deildir skólans í haust. Það þýðir í flestum tilfellum að foreldrar þurfa að skiptast á að vera heima og hugsa um börnin og það hefur ekki bara áhrif á fjárhag fjölskyldunnar heldur líka á fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélaginu.

Starf á leikskóla gefandi og skemmtilegt
Hver vill ekki vinna á líflegum vinnustað þar sem alltaf er nóg um að vera og enginn dagur eins? Þar sem þú færð faðmlög, bros og ósvikna gleði allan daginn en þarft líka að takast á við áskoranir sem eru bæði þroskandi og skemmtilegar? Þar sem þú ert mikilvæg fyrirmynd og getur skipt sköpum í lífi annarrar manneskju? Fólk sem starfar á leikskóla uppgötva nefnilega fljótt að hver dagur þar er einstakur líkt og hvert og eitt barn. Og ekki má gleyma starfsfólkinu sem vinnur á leikskólanum. Það er skemmtilegt fólk sem nýtur samskipta við börn og fullorðna og tilbúið að gefa af sér í leik og starfi.

Hvenær byrja börn á leikskóla?
Leikskólinn er fyrsta skólastig barnsins og mikilvægt skref á skólagöngunni sem ber að hlúa að. Skiptar skoðanir eru á því hvenær börn eiga að byrja á leikskóla en Sveitarfélagið Hornafjörður hefur sett sér það markmið að börn komist inn í leikskóla við 12 mánaða aldur. Það er ekki vegna þess að við 12 mánaða aldur sé leikskólinn nauðsynlegur fyrir barnið (þá eru foreldrarnir og öryggið innan fjölskyldunnar sennilega mikilvægast) heldur lýkur þá fæðingarorlofi. Fyrir foreldra er pláss á leikskóla mikilvægur þáttur í að tryggja fjárhagslega afkomu og öryggi fjölskyldunnar því í flestum tilfellum þurfa báðir aðilar að vinna úti til að standa straum af þeim kostnaði sem fylgir rekstri heimilis. Til að ná því markmiði að öll börn komist að á leikskóla við 12 mánaða aldur stendur nú til að byggja við leikskólann Sjónarhól á Höfn og vonandi fer sú framkvæmd af stað í haust.

Það vantar starfsfólk
Því miður verður það vandi alls samfélagsins ef ekki tekst að manna leikskólann og á sama hátt er líka verkefni alls samfélagsins að leikskólanum vegni vel. Við þurfum heilt þorp til að ala upp eitt barn. Þorp sem hlúir að börnunum okkar og foreldrum þeirra en líka þeim sem starfa með börnunum því fyrir foreldra skiptir það gríðarlega miklu máli að horfa á eftir barninu sínu skottast inn á deild til starfsfólks sem gerir allt sem í þeirra valdi stendur til að barnið dafni, þroskist og eigi góðan dag. Hjálpumst þess vegna að við að tala upp störf í leikskóla, við viljum nefnilega besta fólkið til að hugsa um börnin okkar.

Sveitarfélagið leggur sitt lóð á vogarskálina
Að sjálfsögðu ræður hver og einn því hvar hann vill vinna og sumir vinnustaðir eru vinsælli en aðrir. Það fer eftir ýmsu svo sem vinnutíma og hlunnindum sem geta bæði verið í formi launakjara, sveigjanleika en einnig annarra þátta. Sveitarfélagið vill umfram allt leggja sitt lóð á vogarskálina til að gera leikskólann að eftirsóknarverðum vinnustað. Í haust stendur til að taka upp fulla styttingu vinnuvikunnar í leikskólanum og auka þannig sveigjanleika hjá starfsfólki. Í því sambandi hefur foreldrum verið kynnt áform um svokallaða skráningardaga í leikskóla. Í haust heldur síðan áfram vinna við að efla leikskólann bæði á vegum sveitarfélagsins en einnig innan leikskólans.

Vilt þú vinna í leikskóla eða veistu um einhvern sem vill vinna þar?
Núna bráðvantar okkur gott starfsfólk í leikskólann og eru allir sem áhuga hafa hvattir til að sækja um starf þar. Því hvað er betra, skemmtilegra og mikilvægara en að leggja upprennandi kynslóðum hjálparhönd á fyrstu skrefum sínum inn í lífinu. Njóta í leiðinni félagsskapar frábærra starfsfélaga og vera fyrirmynd fyrir mikilvægasta fólkið okkar.
Kíktu á auglýsingarnar frá okkur og athugaðu hvort þetta er ekki eitthvað fyrir þig.

https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/sveitarfelagid/laus-storf/matradur-a-leikskolann-sjonarhol

https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/sveitarfelagid/laus-storf/matradur-a-leikskolann-sjonarhol

Þórgunnur Torfadóttir
Sviðsstjóri fræðslu- og frístundasviðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar