Bókakvöld á Hafinu

0
823
Soffía Auður annar af umræðustjórum bókakvöldsins

Tíðkast hefir að snarpar bókmenntaumræður fari fram að sófastæði bókasafns Hafnarbúa og eiga þar hlut að málum, oftar en önnur, sérlegur bókmenntafræðingur Nýheima, Soffía Auður Birgisdóttir og Barði Barðason sem er nýr rekstaraðili Hafsins ásamt Arndísi Láru Kolbrúnardóttur. Eru umræður þessar einkum takmarkaðar af opnunartíma safnsins og jafnvel óskrifuðum reglum um háreysti og hávaða. Varð því úr að prófa að flytja umræðurnar á nýjan stað og í leiðinni reyna að draga að fleiri þátttakendur. Inn í þetta framtak spilar ekki síst sú staðreynd að bókaútgáfa á seinasta fjórðungi síðasta árs sló öll möguleg met og rötuðu býsna margar nýjar bækur beinustu leið á staðarsafnið. Í janúarbyrjun einni hafa svo ennfremur bæst á bókasafnið fjöldamargar bækur. Hafnarbúar hafa jafnan verið ötulir að taka út bækur og alls ekki fráleitt að ætla að mörg hafi mörgu frá að segja og má búast við skemmtilegum skoðanaskiptum. Hafið ætlar því, í samvinnu við Menningar­miðstöð Hornafjarðar, að hafa Bókaumræðukvöld fimmtudaginn 30. janúar og hefst það klukkan 20:00.
Vertinn mun sjá fyrir veitingum á vægu verði og umræðu­stjórar verða sem fyr segir: Soffía Auður Birgisdóttir og bókavörður Menningarmiðstöðvarinnar.