Komið er út Eystrahorn í nafni Björgunarfélags Hornafjarðar
og Slysavarnadeildarinnar
Framtíðarinnar. Blaðið er gefið út í fjáröflunarskyni fyrir nýrri björgunarmiðstöð á Hornafirði og líka til að kynna okkar starf í þessum tveimur félögum.
Bæði félögin eiga sér langa sögu en Slysavarnadeildin Framtíðin var stofnuð 7.febrúar 1954 og verður því 70 ára á næsta ári.
Á 20 ára afmælisári
Slysavarnadeildarinnar, 1974, var mikið framfaraskref stigið þegar lokið var við byggingu Slysavarnahússins við Álaugarveg 9. Þetta hús var byggt af mikilli alúð félaga í deildunum og hjálpuðust allir að sem vettlingi gátu valdið.
Árið 1984 var farið af stað með að byggja við húsið og þá er bætt við tækjageymslu fyrir tæki Björgunarfélagsins á þeim tíma. Þetta var tæplega 100 fm salur með 2 stórum hurðum fyrir bíl og bát félagsins og þótti mikil bylting þá.
Umfang félaganna hélt áfram að stækka og aftur var tekin ákvörðun um að byggja við. Árið 1993 er svo nýjasti áfangi Slysavarnahússins byggður og er þá komið í þá mynd sem við þekkjum í dag. Þessi hluti hússins var byggður í samstarfi við Frumherja, sem hefur starfrækt skoðunarstöð í húsinu allar götur síðan.
Núverandi húsnæði félaganna er samtals 390 fm að stærð, og hefur þörfin á stærra húsnæði blasað lengi við. Endanlega má segja að húsið hafi sprungið þegar Björgunarfélagið fjárfesti í nýjum slöngubát, Björgvin, fyrir um 10 árum síðan. Síðustu ár hefur hann verið í geymslu hjá Skinney-Þinganes vegna plássleysis.
Það er svo árið 2018 sem vinna innan félaganna hefst við að gera þarfagreiningu svo hægt væri að átta sig á í hvernig framkvæmdir þurfti að ráðast. Þegar þvi verkefni var lokið sofnaði verkefnið værum blundi og var tekið upp aftur á vormánuðum í fyrra.
Í dag er hægt að segja að við sjáum fyrir endann á verkefninu, en það er óhætt að segja að það hafi fengið byr undir báða vængi þegar Skinney-Þinganes ákvað, í tilefni af 80 ára afmæli félagsins, að veita styrk að upphæð 200 milljónum í verkefnið.
Í framhaldi af því var ákveðið að taka fyrstu skóflustungu að nýju húsi um sjómannadagshelgina síðustu. Í kjölfarið var ætlunin að hefja jarðvegsframkvæmdir í sumar, en af ýmsum ástæðum þá hefur það dregist aðeins á langinn. En í dag ættu teikningar fyrir grunni að vera tilbúnar og jarðvegsframkvæmdir geta því farið að hefjast.
Búið er að semja við Límtré-Vírnet um húsið og ætti það að fara í framleiðslu í Janúar/Febrúar og er ætlunin að reisa húsið í byrjun næsta sumars ef áætlanir standast. Verklok eru svo áætluð á vormánuðum árið 2025 og er ætlunin að halda kaffi á sumardaginn fyrsta það ár!
Þrátt fyrir veglegan styrk Skinneyjar-Þinganess þá hljóðar kostnaðaráætlun fyrir verkið uppá 448 milljónir og því höfum við ötullega að því að funda með fyrirtækjum í samfélaginu og er staðan sú að við teljum okkur vera búin að fjármagna 72% af verkefninu.
Þess vegna leitum við í dag til allra Hornfirðinga til að hjálpa okkur að fjármagna það sem útaf stendur því að við lítum svo á að þetta hús eigi eftir að þjóna samfélaginu á Hornafirði til fjölmargra ára, líkt og hið gamla hefur gert frá upphafi.
Fyrir hönd Björgunarfélags
Hornafjarðar og
Slysavarnadeildarinnar
Framtíðarinnar viljum við fyrirfram þakka góðar móttökur,
Finnur Smári Torfason, formaður Björgunarfélags Hornafjarðar
Fjóla Jóhannsdóttir, formaður Slysavarnadeildarinnar Framtíðar