Björgunarskipið Ingibjörg

0
258

Eitt af 13 björgunarskipum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar er í okkar umsjón Björgunarskipið Ingibjörg. Sjáum við um að manna áhöfn þess og rekstur skipsins. Björgunarskipið Ingibjörg kom til Hornafjarðar árið 2005 og er því orðið stutt í að skipið sé búið að vera hér í 20 ár.
Björgunarskipið Ingibjörg er smíðað árið 1985 í Bretlandi og er af Arun Class gerð og er því orðið 38 ára gamalt, ganghraði skipsins er um 13-15 sjómílur. Skipið er engu að síður öflugt og hefur þjónað sínum verkefnum vel í gegnum tíðina og gerir enn. Útköll á björgunarskipið eru að jafnaði á milli 2-6 á ári hverju en svæðið er nokkuð stórt, frá Djúpavogi og vestur fyrir Ingólfshöfða . Von er á nýju björgunarskipi á næstu árum.
Slysavarnafélagið Landsbjörg byrjaði undirbúningsvinnu við kaup á nýjum björgunarskipum árið 2017. Eftir útboð um smíði á þremur nýjum björgunarskipum árið 2021 var samið við finnska skipasmíða fyrirtækið KewaTec í Finnlandi og var fyrsta skipið afhent haustið 2022 í Vestmannaeyjum síðan þá er eitt skip komið á Siglufjörð. Það þriðja er að klárast og mun koma til landsins í haust. Lagði ríkið til um helmings fjármögnun í þessi þrjú skip.
Á Landsþingi Slysavarnarfélagsins Landbjargar í vor var svo skrifað undir samkomulag við ríkið um áframhaldandi aðkomu þeirra að fimm nýjum björgunarskipum til viðbótar. Nýju Björgunarskipin er vel útbúin með öllum þeim helsta búnaði sem prýða þarf svona skip og ganghraði á þeim um 32 hnútar sem er mun meira en á gömlu skipunum sem getur skipt sköpum þegar mikið liggur við.
Að manna áhöfn á Björgunarskip getur verið snúið þar sem jú það þarf skipstjóra og vélstjóra ásamt öðrum áhafnarmeðlimum, en gert er ráð fyrir 4-6 í áhöfn. Ekki er um auðugan garð að gresja af réttinda mönnum hjá okkur og getum við alltaf bætt við okkur skipstjórum, vélstjórum og öðrum vönum sjómönnum. Hvetjum við þá sem hafa áhuga á að starfa á Björgunarskipinu að setja sig í samband við okkur.