Björgunarfélag Hornafjarðar og Slysavarnardeildin Framtíðin – Takk!

0
395

Í Hornafirði er landslagið stórkostlegt og sannkallað heimili náttúruperla. Með háum fjöllum, djúpum giljum og tignarlegum Vatnajökli í norðri og hrikalegri strandlengju fyrir opnu hafi í suðri – sannkölluð náttúruparadís. Slíkri fegurð fylgir mikið aðdráttarafl og til okkar flykkjast nú ferðamenn sem aldrei fyrr.
Hér í Hornafirði erum við með stórkostlega innviði þegar kemur að allskonar afþreyingu og gistingu í boði fyrir ferðafólk. En það sem við höfum áhyggjur af eru öryggis innviðirnir. Á okkur hvílir sú ábyrgð að tryggja öryggi bæði íbúa og þeirra fjölmörgu ferðamanna sem flykkjast til okkar.
Nú hafa Björgunarfélag Hornafjarðar og Slysavarnardeildin Framtíðin ákveðið að reisa nýja og glæsilega björgunarmiðstöð hér á Höfn. Þessi metnaðarfulla uppbygging er til marks um þann stórhug og trú á framtíðina sem á svæðinu ríkir. Fjármögnun á verkefninu er langt komin en enn þá vantar fjármagn til að fullfjármagna þetta mikilvæga verkefni.
Skinney – Þinganes hf. samþykkti á aðalfundi sínum í vor, að félagið legði fram 200 milljónir króna til byggingar nýrrar björgunarmiðstöðvar. Ég vil lýsa tærri aðdáun minni á þessu framlagi. Það er ekki sjálfsagt mál að við skulum eiga fyrirtæki sem er tilbúið að sýna slíka samfélagsábyrgð í verki. Ég vil, fyrir hönd okkar allra, þakka okkar öflugasta fyrirtæki fyrir gjöfina.
Sveitarfélagið hefur einnig styrkt Björgunarfélag Hornafjarðar veglega vegna uppbyggingarinnar og var nýr samstarfssamningur á milli aðila undirritaður nýlega. Í samningnum er árlegur styrkur til Björgunarfélagsins frá sveitarfélaginu bæði hækkaður og vísitölutengdur. Þá er í samningnum sérstakt ákvæði um styrk sveitarfélagsins vegna nýrrar björgunarmiðstöðvar upp á um 20 milljónir króna. Það er okkur bæði ljúft og skylt að stuðla þannig að framgangi verkefnisins. Ég vil einnig nefna að í síðustu viku endurnýjuðum við styrktar- og samstarfssamning við hina mögnuðu björgunarsveit, Kára í Öræfum.

Fyrir hönd bæjarstjórnar Hornafjarðar vil ég þakka liðsmönnum í Björgunarfélagi Hornafjarðar og Slysavarnadeildinni Framtíðinni. Ykkar starf er ómetanlegt fyrir samfélagið hér í Hornafirði. Bygging nýrrar björgunarmiðstöðvar mun stórbæta aðstöðu ykkar og vera hvatning til nýliðunar og eðlilegrar framþróunar og endurmenntunar sem þarf alltaf að eiga sér stað. Þá mun verkefnið einnig vera skref í átt að betri öryggis innviðum í sveitarfélaginu þó að margt fleira þurfi að koma þar til – ekki síst frá hendi ríkisins.
Björgunarsveitir okkar ásamt Slysavarnardeildinni hafa lengi verið hryggjarstykkið í öryggisneti okkar og órjúfanlegur hluti af samfélaginu. Í mínum huga er ekki hægt að ofmeta mikilvægi þessara aðila og skylda okkar allra að styðja við þeirra starf. Hjálp og aðstoð þeirra er aldrei langt undan, jafnvel við erfiðustu aðstæður.
Ég efast ekki um að nú sem fyrr muni Hornfirðingar snúa bökum saman og tryggja það sem vantar upp á í fjármögnun nýrrar björgunarmiðstöðvar – Björgunarfélag Hornafjarðar og Slysavarnardeildin Framtíðin, takk.

Sigurjón Andrésson bæjarstjóri