Ég hef ekki starfað lengi í Björgunarfélaginu, en þar byrjaði ég haustið 2017 eftir að ég flutti aftur heim á Hornafjörð frá Danmörku. Fyrir þann tíma hafði ég ekki haft mikinn áhuga á að starfa í björgunarsveitum en lét slag standa þarna um haustið 2017 og í dag er ég á þriðja ári sem formaður Björgunarfélagsins.
Að starfa í björgunarfélaginu er gefandi og skemmtilegt, en líka krefjandi og erfitt. Það er hreint ótrúlegt að í flestum samfélögum í kringum landið sé hópur fólks tilbúinn hvenær sem er að hoppa út í aðstæður sem flestir aðrir forðast.
Hér í sveitarfélaginu starfa 2 ótrúlega öflugar sveitir á Höfn og í Öræfum. Lega sveitarfélagsins og stærð gerir það að verkum að við þurfum ótrúlega oft að sinna allskonar verkefnum á sjó, landi og jökli. Fjölbreytileiki verkefnanna á sér fáar, ef nokkrar, hliðstæður á Íslandi.
En starf í björgunarsveit snýst ekki einungis um útköll. Félagslegi hlutinn er jafn mikilvægur. Á þriðjudagskvöldum yfir veturinn hittumst við að jafnaði og þar er ýmislegt brallað. Léttar æfingar, viðhald á tækjum og búnaði eða bara spjall.
Auk hittinga á þriðjudögum eru haldin námskeið reglulega í verkefnum sem snúa að því helsta sem við getum lent í, t.d. skyndihjálp, leitartækni, snjóflóðanámskeið, slöngubátsnámskeið, fjallamennskunámskeið og svo mætti lengi telja. Að lokum er farið í ferðir á vegum félagsins á Ingibjörgu, eða Björgvini, eða á bílunum okkar eða sleðum. Allt eru þetta ferðir sem farið er í til að auka þekkingu okkar á tækjum, búnaði og landinu sem við þurfum að standa í að bjarga fólki seinna meir.
Slysavarnafélagið Landsbjörg heldur síðan nokkra hittinga sem við höfum verið dugleg að sækja og er ótrúlega gaman að mæta á eins og Landsþingin og Björgunarleikana sem haldnir eru annað hvert ár, Tækjamót, Björgun og svo mætti áfram telja.
Þetta er ekki teljandi listi yfir hluti sem eru í boði fyrir þá sem starfa í björgunarsveitum, en eins og sést er þetta fjölbreytt og skemmtilegt starf sem ég, sem tel mig að mörgu leyti enn til nýliða, mæli hiklaust með.
Vetrarstarfið er ekki enn hafið hjá okkur en fer fljótlega af stað og verður auglýst nánar þá og mæli ég hiklaust með að fólk komi og prófi að mæta á þriðjudagskvöldum hjá okkur og kynnist starfinu.
Fyrir hönd Björgunarfélags Hornafjarðar
Finnur Smári Torfason, formaður