Bjartar vonir og vonbrigði

0
2329
Clyne Castle árið 1923

“Guð gefi að ef þetta skip skyldi nú stranda, að það strandi hér„

Haft er fyrir satt að þetta hafi dottið hugsunarlaust upp úr konu nokkurri sem bjó í Öræfasveit á síðustu öld.
Var hún þá að horfa á skip sigla skammt undan ströndinni. Oft rættist þessi spá því að ströndin við Suðausturlandið er viðsjál og víða miklar grynningar skammt frá fengsælum fiskimiðum. Til eru um það heimildir að á versta stað hafi skollið á óveður og skip hrakið af leið. Mörg þessara skipa voru hlaðin dýrmætum varningi og var það fengur fyrir Öræfinga sem liðu vöruskort öldum saman. Fjöldamörg skip hefur borið upp á fjörur Suðurlands, nú eru flest þeirra horfin í sandinn og sjást þeirra engin merki. En rétt fyrir ofan sandrifið við Kvíá í Öræfum sést ennþá flak botnvörpungsins Clyne Castle, stendur stefnið upp úr sandinum og snýr að jökli.

Clyne Castle

Botnvörpungurinn Clyne Castle frá Grimsby, strandaði þann 17.apríl 1919 á Bakkafjöru, framundan bænum Kvískerjum í Öræfum. Kvísker er austasti bærinn í Öræfum, vestan Breiðamerkursands. Clyne Castle strandaði á háflóði, þegar fjaraði undan trollaranum gátu skipbrotsmennirnir 13, því gengið þurrum fótum á land eftir sandrifi.
Í bókaflokknum Þrautgóðir á raunastund fyrir árið 1919 er sagt frá þessu strandi og er þess þar getið að Öræfingar hafi komið á vettvang og verið tilbúnir að aðstoða mennina sem voru fluttir til bæja. Þegar sýnt var að togaranum yrði ekki bjargað voru skipbrotsmennirnir fyrst fluttir til Hornafjarðar, síðan sjóleiðis til Seyðisfjarðar en þaðan hélt hver til síns heima. Skipstjóri Clyne Castle mun hafa talið vonlaust að bjarga skipinu. Í Morgunblaðinu þann 09.09.1919 er sagt frá þessu strandi og þar kemur fram að reynt var að bjarga togaranum eins og þar segir
“tilraun var gerð, af björgunarskipinu Geir að ná hinu strandaða skipi út en heppnaðist eigi„9
Ari Hálfdánarson frá Efra-Bæ á Fagurhólsmýri hélt dagbók í tengslum við veðurathugastöð á Ingólfshöfða og minnist á strandið í dagbók sinni og getur einnig um tilraunir björgunarskipsins Geirs við að koma “trollaranum„ á flot. Í dagbókinni kemur einnig fram að Hinrik læknir hafi skoðað skipbrotsmennina 21.apríl og að öllum líkindum úrskurðað þá ferðafæra því í framhaldi af því skráir Ari að þeir hafi verið fluttir austur en ekki allir í einu “25.apríl, 7 strandmenn fluttir austur„ og aftur skrifar hann þann “2.maí, 6 strandmenn fluttir austur á Höfn frá Kvískerjum„ 10 Þann 5.maí minnist Ari á í dagbók sinni að Jóhann Hansson hafi komið á strandstað, Jóhanni virðist hafa litist svo á aðstæður og einnig á Clyne Castle að þetta verk væri þess vert að takast á við og hefur séð í þessu verkefni hagnaðarvon.
Í framhaldi af þessari ferð, kaupa þeir Jóhann Hansson, sem rak vélsmiðju á Seyðisfirði og Valdór Bóasson, kaupmaður og útgerðarmaður frá Hrúteyri við Reyðarfjörð, trollarann á strandstað og töldu þeir sig þar eiga auðvelt verk fyrir höndum við að koma honum á flot.

Jóhann Hansson

Mennirnir sem létu verkin tala

Jóhann var kunnur vélsmíðameistari á sinni tíð og stofnaði árið 1906 vélsmiðju á Seyðisfirði. Jóhann smíðaði margar vatnstúrbínur fyrir rafstöðvar og einnig byggði hann dráttarbraut fyrir allt að 100 smálesta skip. Hann fæddist á Djúpavogi þ.21. maí 1884 – l.14. ágúst 1956, sonur þeirra hjóna, Hans Lúðvíkssonar á Djúpavogi og Þórunnar Jónsdóttur frá Hærukollsnesi í Álftafirði.
Valdór Bóasson fæddist 26.06.1885-l.22.04.1927, að Borgargerði í Reyðarfirði og var einn af hinum fjölmörgu systkinum frá Stuðlum sem komu talsvert við sögu útgerðar og atvinnumála við Reyðarfjörð.
Valdór var fjórði elstur af 11 systkinum, sonur þeirra hjóna Sigurbjargar Halldórsdóttur ( fædd 6.apríl 1856 – l. 1.júní 1949) frá Grenjaðarstað í S-Þingeyjarsýslu og Bóasar Bóassonar, ( fæddur 17.ágúst 1885– l. 21.júlí 1915) frá Stuðlum við Reyðarfjörð.

Valdór Bóasson

Vogun vinnur vogun tapar

Nú hófst ævintýri sem byrjaði strax við kaup á skipinu en lauk ekki fyrr en í ágústlok árið 1923. Valdór og Jóhann munu fljótlega hafa hafist handa við það verk að koma trollaranum á flot. Eitthvað var unnið að undirbúningi strax það sumar en þá tóku örlögin í taumana svo um munaði. Valdór Bóasson var þarna með nýkeyptan bát sinn, Jenný, á strandstað til að flytja menn og ýmislegt sem til þurfti við björgunina og meðal annarra sem störfuðu við björgunina var Gissur Filippusson, f. 31.júlí 1883, vélsmiður úr Reykjavík sem átti eftir að koma talsvert við sögu. Gissur var frá Kálfafellskoti í Vestur-Skaftafellssýslu en flutti ungur með foreldrum í Brúnuvík í Norður-Múlasýslu. Gissur mun talsvert hafa fengist við að bjarga verðmætum úr strönduðum skipum,eins og kemur fram í þessari tilvitnun
“Þann 25. september 1918 gerir hann samning við Öræfinga um björgun úr strandaða skipinu Friðriki Albert. Þrem dögum síðar er hann kominn að Teigingalæk í Fljótshverfi, þar sem hann gerir samning um togarann Marconi, sem strandaður var á Hofsnesfjöru„1
Björgunarmennirnir dvöldu um borð í Clyne Castle og virðist vistin þar hafa verið þægileg enda var ekki vanþörf á, því mikið var unnið og vinnudagar langir og strangir. Í bréfi sem Gissur ritaði konu sinni þann 06.júlí 1919 segir m.a.
“…Nú erum við búnir að vera um borð í togaranum í 12 daga og líður okkur ágætlega. Við sofum í hásetaklefanum en borðum í káetunni og höfum það stórfínt. Okkur er fært allt sem við þurfum um borð, mjólk, smjör, skyr, kjet, kartöflur og yfirleitt allt sem við þurfum„1
Seinna í sama bréfi lýsir Gissur vinnunni við að grafa frá skipinu og öðrum undirbúningi,
“.. Ekki get ég sagt þér hvernig muni ganga að ná skipinu út. Það er alveg upp á kampi. Nú erum við búnir að grafa í 4 daga og erum komnir 10 fet niður í sandinn með annarri hliðinni en þurfum að grafa 14 fet og geri ég ráð fyrir því að það verði eins erfitt að grafa þessi 4ur fet sem eftir eru eins og þau 10 sem búin eru og er það vegna vatns sem fleytir sandinum að. Við notum trollspilið til að moka svo erfiðið er ekki mikið hjá okkur. Við erum allir vongóðir að okkur takist að ná skipinu út. Skipið er stórt og vandað og því mikils virði ef það næst„1
Eins og getið er um í bréfi Gissurar til konu sinnar saknaði hann fjölskyldunnar og fór því að huga að heimferð. Til þeirrar farar fékk hann Valdór til að lána sér bát hans Jenný með áhöfn og var meiningin að Jenný sigldi með hann vestur á Síðufjörur en Valdór var sjálfur ekki með í þeirri ferð.
Nokkrar skráðar heimildir eru um það sem síðan fór í hönd og ber þeim heimildum ekki saman og hefur ekki tekist enn sem komið er að fá áreiðanlegar sannanir hvað er rétt í þeim.

Ferð Jennýjar með Gissur upp á Síðufjörur

Þegar Jenný var komin að Síðufjörum var nokkur brimsúgur við landið og töldu bátverjar hið mesta óráð að lenda við þær aðstæður. Var það því ákveðið að Gissur tæki lítinn árabát (jullu) sem dreginn hafði verið með Jenný og færi einn á honum í land. Þær lyktir urðu á þeirri ferð að Gissur náði landi heill á húfi og komst til byggða og hélt þaðan til Reykjavíkur í faðm fjölskyldu sinnar. Jenný hélt að þessu loknu áleiðis austur með ströndinni að strandstað Clyne Castle en sú sjóferð tók þá óvænta stefnu, veður versnaði og útlit varð ekki gott fyrir bát af þessari stærð. Endalokin urðu sú að á leið þeirra varð breskur togari sem tók þá um borð en sögum ber ekki saman um ástæður þess að þeir fóru um borð. Ein útgáfan er sú að þeir hafi verið neyddir um borð í togarann og ekki átt annarra kosta völ en að fara með. Jóhann Valdórsson, (f.20.febr.1920-l.25.10.2000), bóndi á Þrándarstöðum í Eiðaþinghá, yngsti sonur Valdórs sagðist hafa heyrt þá útgáfu og hafði það eftir föður sínum að þeim hafi ekki verið nein hætta búin. Sönnunarmerki um að frásögn Jóhanns sé rétta útgáfan var sú að þegar Jenný fannst, reyndist hún nær óskemmd með öllu eftir að hafa strandað á Fossfjörum. Hin útgáfan er sú að togarinn hafi siglt fram á bátinn í vonskuveðri og Jenný verið við það að sökkva eða skipstjóranum hafi ekki litist á að þessir menn kæmust óhultir á Jenný til lands í sortanum og tekið þá um borð.

Bátur Valdórs, Jenný SU 327

En öllum skráðum heimildum og munnmælum ber saman um að með togaranum fóru þeir til Englands og ekkert heyrðist frá þeim fyrr en eftir einhvern tíma og voru þeir þá löngu taldir af.
Valdóri hafði orðið það á að gleyma að tryggja bát sinn Jenný og skipshöfnina og var því skiljanlega í öngum sínum. Fékk hann því ekki neinar bætur greiddar frá tryggingunum og var skaðinn alfarið hans og ekki bætandi. Valdór var því illa staddur án Jennýjar sem var atvinnutæki hans og aflaði honum lífsviðurværis fyrir hans stóru fjölskyldu.

Óþrjótandi bjartsýni og áræðni

Víkur nú aftur að björgunaraðgerðum á Clyne Castle, hinum strandaða breska togara á Bakkafjöru sem fól í sér von um mikil verðmæti við sölu ef að vel tækist.
Þeir Jóhann og Valdór munu all lengi hafa haldið í þá von að ná togaranum á flot. Hér var til mikils að vinna því víst var hann freistandi, togarinn, þar sem hann stóð á sandinum heill og óskemmdur og hefði skapað mikið verðmæti ef hann hefði náðst á flot. Hér voru miklir dugandismenn á ferð, Valdór með óþrjótandi bjartsýni og áræðni en Jóhann með sína miklu þekkingu frá rekstri dráttarbrauta.
Í bréfi sem er varðveitt í Skjala-og myndasafni Norðfjarðar dags. 22.des.1922, frá Valdóri til Sigfúsar Sveinssonar kaupmanns minnist Valdór á togarann og er langt því frá að telja þetta verk óframkvæmanlegt
“Jeg hef ætíð sagt að við næðum út trollaranum og mjer finnst jeg hafi fullt leyfi til að segja að það leit svartara út með að við næðum út mótorbátnum mínum sem lenti upp á sandana. En það kom fram við náðum út bátnum, og eins náum við trollaranum út„5
Í janúar árið 1921 er áðurnefndur Gissur Filippusson að búast til farar á ný suður á Breiðamerkursanda til að vinna við björgun togarans. Hann hafði flutt austur á Seyðisfjörð og hafið vinnu í vélsmiðju Jóhanns Hanssonar. Aðalstarf hans virðist hafa verið að undirbúa björgunina en hann hafði samið við þá Valdór og Jóhann um að fá í sinn hlut sjötta hlut í hagnaðinum. En þennan dag hverfur Gissur á leiðinni frá Vélsmiðjunni yfir á Vestdalseyri þar sem biðu hans ófrísk kona og ungur sonur.
Bátur hans fannst laskaður í fjörunni daginn eftir, en ekki er vitað með vissu hver urðu örlög Gissurar, en talið er líklegt að hann hafi lent í slysi í fjörunni eða á leiðinni yfir fjörðinn. Lík hans fannst aldrei og voru á kreiki allskyns sögur um hvarf hans, jafnvel talið að hann hafi látið sig hverfa til útlanda.
Ekki er ólíklegt að þetta slys ofan á allt annað hafi einhvern þátt átt í því að lítið var unnið við trollarann þetta ár en samt mun eitthvað hafa verið gert.
Þeir félagar munu eitthvað hafa undirbúið björgunina á hverju ári frá því að togarinn strandaði, nema árið 1922 samkv. heimildum frá Sigurði Björnssyni á Kvískerjum. Að sögn Sigurðar mun ekkert hafa verið unnið við skipið það ár og er ef til vill orsökin sú að Valdór hafði ekki tök á því vegna fjárhagserfiðleika eftir strand Jennýjar.

Lokaatrennan með innilegri sannfæringu

Þann 23 maí árið 1923 er svo byrjað að vinna lokaundirbúninginn við að koma hinum strandaða “trollara„ á flot. Samkvæmt dagbók Þorsteins Guðmundssonar frá Reynivöllum í Öræfum var nú allt sett á fullt. Þorsteinn heldur dagbók allan þann tíma sem verkið stendur yfir frá lok maí þar til upp úr miðjum ágúst.
Hann byrjar dagbókina þann 23.maí á hálfgildis heitstrengingu
“Byrja að vinna við skipið Clyne Castle með þeirri innilegu sannfæringu að þetta verk, sem sagt að koma skipinu á flot aftur muni takast þrátt fyrir það þó raddir hafi heyrst í þá átt að öll fyrirhöfn því viðvíkjandi verði árangurlaus.
Í öðru lagi óska ég af öllu hjarta að verkið heppnist og að hluteigandi komist menn megi halda verkinu til sigurs. Í öðru lagi lofa ég að vinna svo trúlega og samviskulega sem mér er framast unnt, lofa að sína í verki að í huga og trú eru ríkjandi í orði og athöfn.
Lofa að skiljast ekki við þetta málefni og verkefni fyrr en það er komið í viðunanlegt horf, sem sagt sigurinn unnið, verkið fullkomnað„8

Þorsteinn hefur fulla trú á því að þetta mikla verk takist og vill leggja sig allan fram til að það takist og svo virðist hafa verið með alla þá sem komu að þessu björgunarstarfi.
Víkur nú sögunni að björgunarstarfinu sjálfu, gekk það upp og ofan, suma daga miðaði verkinu vel en svo komu dagar þar sem allt fór forgörðum. Eins og föstudaginn 8. júní,
“austan stormur og rigning og sjógangur, eyðilagt heilt dagsverk fyrir okkur„8

Trollarinn fer sjálfur af stað og svo er reynt að mjaka honum áfram og gengur það misvel, Þorsteinn heldur nákvæma dagbók yfir árangurinn,
“hann gengur upp um 20 fet á 3 klukkutímum, Trollarinn gekk 2 fet,…. Trollarinn gekk 12 fet,…. gekk 12 fet, ..ekið skipinu 10 fet„8
Svona gengur þetta dag eftir dag. En allir verða að slaka á og taka sér frí inn á milli, svo björgunarmennirnir taka sér frí á þjóhátíðardaginn sem ber auk þess upp á sunnudag. Þeir nota daginn til að gera ýmislegt sér til gamans, En eftir skemmtunina tekur alvaran við, vinnan byrjar aftur, veðrið versnar, stormur og sjógangur gera það að verkum að öll vinna síðustu viku rennur út í sandinn í orðsins fyllstu merkingu.
“18. júní, mánudagur, þoka og sullaregn framan af degi og sveif upp af vestri með storm og sandroki og sjógang, algjört verkfall, eyðilagt viku verk. Keyrt um 4 fet„ 8
En inn á milli koma dagar þar sem allt virðist ganga að óskum, sólin fer að skína, það lygnir og þá birtir yfir öllum og bjartsýnin tekur völdin á ný.
“23. júní, laugardagur, sólskin, hægur vestanvindur, keyrt allan daginn, fram á nótt til kl. 2. Trollarinn byrjaði 2 lengdir sínar í dag, gangur 25 fet. Helgi fór heim og Benjamín með honum„ 8
Sigurður á Kvískerjum man eftir því að björgunarmennirnir hafi höggvið tré uppi í Kvískerjalandi og með því stíflað Kvíána og myndað lón fyrir trollarann.
Aftur og aftur gera máttarvöldin margra klukkutímaverk að engu og eins og sjá má í dagbókarfærslu fyrir þann 14. júlí.
“stórflóð og stórstraumur, braut niður búkka undir Dúnkraft um nóttina og eyðilagði dagsverk„8
Þröngt er orðið í búi bæði um borð í togaranum og einnig í sveitinni, allur sykur, mjöl og hveiti er uppurið og allir bíða eftir mótorbátnum Skaftfellingi sem færir björg í bú.
Björn bóndi í Kvískerjum færir björgunarmönnum birgðir af því sem vantar.
Nú er komið svo að áliti björgunarmanna, að aðgerðir séu það langt komnar, að það fari að styttast í “trollarinn„ verði settur á flot. Sent er eftir mönnum um alla sveit til hjálpar. En veðurguðirnir halda áfram að setja strik í reikninginn dag eftir dag og breyta dæminu.
“19. júlí, fimmtudagur, sofið til kl. 9, regn og skúrir. Komu tveir menn til okkar í vinnu, byrjað kl. 10, höfðum 10 aðkomumenn, hreinsaður sandur frá, sliskja byrjuð að keyra, hljóp hart á stað, slitnaði 2-var vír komst Trollarinn 25 fet, stoppaði algjörl. hætt kl. 6 e.m. fóru menn heim til sín, gerði stórsjó og braut upp sandkassa, hélt vöku fyrir fólki við að bjarga trjám, ruggaði mikið til klukkan 11 þá að sofa.
“20. júlí, föstudagur, suðvestan rok og brim, ekkert unnið. Valdór fór út í sveit í liðsbón. Ég og Benjamín fórum í skemmtigöngu uppá Kvíárjökul. Ég stóð vakt um nóttina„8
Og nú er svo komið að dagsetning fyrir úrslita atlöguna er ákveðinn.

Forsjónin lofuð

Ekki fór þó sem skyldi því um nóttina skall á austan stormur og hætt var við atlöguna, mennirnir sendir heim og beðið eftir öðru færi. Björgunaraðgerðir höfðu nú staðið yfir í rúma tvo mánuði og má vænta þess að það hafi verið farið að gæta að óþolinmæði í liðinu. Eins má ætla að það hafi ekki verið átakalaust að eyða tímanum við þessa kostnaðarsömu aðgerð og sjá ekki árangur erfiðisins, fjárhagurinn verið farinn að versna og engar tekjur að hafa á meðan unnið er við Clyne Castle. Alltaf er reynt að halda í bjartsýni og treyst á árangur allrar þessara miklu vinnu.
Trúað er því að nú sé forsjónin þessum aðgerðum hliðholl og næst takist björgunaraðgerðin. Komið er fram í ágúst og allir eru sammála að heppnin hafi verið þeim hliðholl síðustu viku. Nú er annaðhvort að hrökkva eða stökkva. Þorsteinn og allir björgunarmennirnir eru á því að næsta tilraun fari betur og nú takist að koma Clyne Castle á sjó út. Aftur er safnað saman liði til björgunaraðgerða, menn og hestar, fengnir úr sveitinni og næsta nágrenni, nú skal tjaldað því sem tiltækt er.
Nú virðist forsjónin hafa öðrum verkefnum að sinna og vera búin að yfirgefa staðinn, því að það eykur brimið og skipinu hallar. Björgunarmennirnir fara á fætur um nóttina til að vinna við að halda í horfinu og tekst það að lokum. Einn sunnudaginn fer útlitið versnandi þegar líða fer á daginn og það skall á með stormi og brimi og máttu menn þakka fyrir að komast um borð í “trollarann„
“5. ágúst sunnudagur, regn fór vaxandi er leið á dag með stormi og brimi í sjó. Fórum á stað aftur heim kl 3 e.m. Fórum mjög hratt því útlit var hið versta, náðum Clyne Castle kl.8 sluppum með naumindum um borð, skipið flaut í löðrinu, réðum ekki við að halda í horfi fyrir stormi og brimi, stóðum uppi alla nóttina, slitnuðu tó og vírar og skipið lagðist á hlið flatt að sundi, braut botninn eitthvað svo leki kom að skipinu, óvíst hvað skemmdir urðu miklar„8
Næsta dag er ekkert hægt að hafast að fyrir brimi og skipið rak lengra upp á sandinn, togvírar sem héldu skipinu slitnuðu og sjór gekk yfir skipið og inn í káetugólf og vélarrúmið. Veður lægir daginn eftir og byrjað er að pumpa sjó úr skipinu og gengur það vel þann dag. Þá er ákveðið að fá björgunarskipið “Þór„ til að toga Clyne Castle út og fer Jóhann austur að Hólum til að síma eftir Þór. Æðri máttarvöldin sem Valdór trúði á og batt alla von sína við, gripu fram fyrir hendurnar á þreyttum og slæptum björgunarmönnunum. Aftur skall brim á skipinu og skemmdir ágerðust og ekki hafðist við að dæla. Sendir eru menn með þau skilaboð til Þórs að bíða átekta og nokkrir mannanna vinna áfram um borð en sumir taka sér helgarfrí. Þegar þeir koma til baka er búið að rétta Clyne Castle, stoppa leka og hita upp vélina. Þú er komið að örlagastundinni en það virðist nú vera ákveðið að leggja nú allt í sölurnar til að koma “trollaranum„ út og til hjálpar var kallaður björgunarskipið Þór til að toga í Clyne Castle. En ekki fór allt sem skyldi. Þorsteinn skrifar allt samviskusamlega niður í dagbók sína.
“13. ágúst, mánudagur, suddi og regn, Skarphéðinn kom með símskeyti frá Björgunarskipinu Þór um að það væri á leið til okkar. Kom Björgunarskipið Þór kl. 8 f.m. sjór var úfinn, rerum um borð, fengum 2 uppslætti, höfðum út í þriðja sinn, fengum 2 brot, fylltum bátinn af sjó, stóðum við í Þór 2 kl.tíma, slörkuðum í land aftur með streng til að draga á vír frá Þór til að festa í Clyne Castle, fengum 2 brot á bátinn, rétt hvolft. Björgunarskipið byrjaði að toga kl. 3 e.m. en þá á flóði. Við spiluðum á okkar vír og höfðum vél í gangi, drógum vestur lónið um 1 ½ lengd á móts við sundið í rifinu, skipið rétt fyrir, útlit fyrir hið besta en ekki meira að gera á þessu flóði, hætt„8
Ekki skyldi gefist upp baráttulaust og enn var togað og togað, því eftir tveggja mánaða vinnu skyldi reynt til fullnustu að koma “trollaranum„ á flot. En eigi skyldi lofa dag fyrr en að kvöldi og reyndist það svo sannarlega rætast í þessu tilfelli.
“14. ágúst, þriðjudagur, sólskin, vestan vindur, ófær sjór sandinn, byrjað að toga kl. 3 f.m. á flóði. Clyne Castle hafði vél í gangi og rótaði skrúfan sandi frá skipinu, Þór hafði einnig fullan kraft á vél og vírum, Clyne Castle gekk út ½ lengd sína þegar það óhapp vildi til að anker og keðja fór í skrúfuna og stöðvaði gang svo ekki var meira að gert, skipið varð hliðflatt og rak undan öldunni, varð að hætta. Byrjað aftur að toga kl. 4 e.m. færðar festar úr afturenda í framenda enda þetta gert í samráði við skipstjórann á Þór, síðasta tilraun er reyndist með öllu árangurslaus. Björgunarskipið Þór sleit sinn vír eftir að hafa togað í 4 klst. Kvaddi og fór kl. 9 um kvöldið„8

Clyne Castle árið 2005(t.v) og árið 1930 (t.h)

Góðir drengir,uppgjöf og heimferð

Nú var öllum orðin ljós hin kaldhæðnislega staðreynd að Clyne Castle yrði um aldur og eilífð þarna á sandinum og yrði ekki hreyfður þaðan sem hann var.
Gerðu björgunarmennirnir sér fyllilega grein fyrir þessari staðreynd og nú var ákveðið að gera sér fé úr því sem verðmætt var í skipinu, rífa innan úr skipinu allt sem nothæft var og var Þorsteinn fenginn til þess verks. Hann tók þó ekki að sér þetta niðurrifsverkefni með glöðu geði. Því lýsir hann í lokakafla dagbókar sinnar frá hinum viðburðaríku dögum um borð í Clyne Castle.
“15. ágúst, miðvikudagur, það var öllum ljóst orðið að skipið yrði ekki tekið út og var byrjað að skipa upp dóti og keyra upp á sand og ganga frá því yfir veturinn þar sem því yrði óhætt fyrir sjógangi. Var verið að því fram á föstudaginn þ. 16. Þá var farið út í sveit að smala hestum til austurferðar, fóru þeir Jóhann og Benjamín til þess og er gert ráð fyrir gert að leggja á stað á föstudaginn austur á Höfn„8

Menn komnir til að rífa innan úr togaranum árið 1923

En fyrst þurfti að huga að heimferð fyrir þá sem lengra áttu að og fylgdi Þorsteinn þeim Jóhanni og Valdóri austur að Höfn ásamt hinum. Þorsteinn virðist hafa kunnað mjög vel við samvistir við þessa menn og var honum óljúft að verða einn eftir á sandinum. Honum segist svo í dagbók sinni.
“Ég er kjörinn til að fylgja þeim austur sem er einkar ljúft því ég hefði viljað gera allt sem í mínu valdi hefur staðið til að verða þeim að liði, því hér hefi ég fyrir hitt svo góða drengi að leit er á öðrum eins„8
En Þorsteinn er þakklátur yfir því að hafa kynnst þessum góðu drengjum og telur sig hafa gert allt sem var á hans valdi að verkið tækist en ekki verður við allt ráðið. En sumarið 1923 verður honum ógleymanlegt og fast í huga um aldur og ævi. Hann kvíðir fyrir komandi verkefni en er ekki einn því til samstarfs við sig hefur hann valið Helga Arason frá Efra-bæ í Fagurhólsmýri. Þeir munu njóta til helminga á við eigendur þess sem verðmætt reyndist og hefur það eflaust verið smá sárabót þótt það væri ekki nema brot af því mikla verðmæti sem búist var við ef verkið hefði tekist..
“Ég hef tekið að mér að rífa innan úr skipinu allt fémætt, trjáverk, járn, stál, kopar o.fl.og bjarga því og ganga frá því undir veturinn. Helgi á Fagurhólsmýri verður með mér og fáum við helming af öllu tré og svo járn og annað eftir vild. Ég ber hálfgerðan kvíðboga fyrir þessu hugaða verki því mig langar svo að losna sem fyrst úr því að svona illa tókst til með skipið. Ég hef bæði góðar og vondar minningar héðan. En aldrei get ég gleymt sumrinu 1923 á Clyne Castle„8
Og heim skal haldið og hefur eflaust hugur þeirra Valdórs og Jóhanns verið við allt það erfiði sem er að baki til þess eins að eyða kröftum, fjármunum og tíma. En enginn veit sína ævi fyrr en öll er og ekki er vafi um að allir þeir sem komu að verkinu lögðu sig heilshugar fram við að þetta erfiða verkefni tækist, en Guð og forsjónin voru ekki í liði með þeim í þetta sinn þrátt fyrir alla von og bænir.
Ferðin austur á Hornafjörð gekk eins vel og búist var við, gist var á Hala í Suðursveit og heima hjá Skarphéðni Gíslasyni á Vagnsstöðum. Bendir það til þess að hann hafi verið einn af þeim sem unnu við hið strandaða skip. Þorsteinn hefur hér skrifað lokaorðin í dagbók sína og skulum við eftirláta honum orðið.
“19. ágúst sunnudagur, sólskin og logn, dvöldum á Höfn fram eftir degi að bíða eftir Esju sem kom kl 5 síðdegis. Þá skildi með okkur félögum á bryggjunni og voru allir hattar og húfur á lofti svo lengi sem ég sá til þeirra. Nú sit ég upp á hól (uppá Þórhallstindi) og skrifa þennan síðasta kafla í þessa sögu eða hvað má kalla það enda er ég í þungum þönkum eins oft á sér stað á skilnaðarstund, því ég hefði helst óskað geta farið austur eða eitthvað annað því mér er óljúft að vitja aftur á þessar ömurlegu slóðir sem hafa verið okkur hættur og hugangur„8

Ólafía Herborg Jóhannsdóttir tók saman og skrifaði þessa grein um þessa áhugaverðu sögu um strandið á Clyne Castle og mennina sem freistuðu gæfunnar við að koma skipinu aftur á flot. Hún er sonardóttir Valdórs Bóassonar.
„Faðir minn Jóhann Valdórsson var einungis liðlega sjö ára gamall þegar faðir hans deyr svo að hann mundi hann ekki svo gjörla. Hann sagði mér að sér hefði verið sagt frá því, að dauða föður síns hefði borið að með þeim hætti að Valdór hefði rispað sig á hendinni á ryðguðum nagla og fengið blóðeitrun og dáið eftir stutta legu. Aðrar heimildir herma að hann hafi aldrei náð sér eftir að hafa lagt sig allan fram og alla sína fjármuni við að freista örlaganna, við að berjast við æðri máttarvöldin og tapað í þeirri baráttu.
Föðuramma mín Herborg dvaldi inn á heimili foreldra minna fram á andlátið þann 22. ágúst 1964. Hún talaði oft um Valdór afa minn og hans mörgu tilraunir til að verða ríkur og endalausa baráttu við það. Sé ég nú mikið eftir því að hafa ekki skráð niður betri heimildir og hlustað betur á frásagnir hennar.“