Birkiskógurinn á Skeiðarársandi

0
257

Þeir sem fara reglulega um Skeiðarársand hafa líklegast tekið þar eftir töluverðum breytingum. Mest áberandi eru birkitrén sem mynda nú nær samfellda breiðu um miðbik sandsins. Frá 2009 hefur verið farið með nemendahópa á sandinn til að fylgjast með framvindu gróðursins og framkvæma ýmsar mælingar en FAS vaktar þar fimm gróðurreiti. Það eru staðnemendur í áfanganum „Inngangur að náttúruvísindum“ sem fara í þessa ferð. Í ár fóru tólf nemendur ásamt kennara og vísindamanni frá Náttúrustofu Suðausturlands til vöktunar þann 1. september.
Í ferðinni fá allir nemendur hlutverk við athuganir og skráningu á náttúrunni. Meðal þess sem er skoðað er gróðurþekja innan hvers reits, hæð trjáa og ársvöxtur. Þá er horft eftir ummerkjum um beit og ágangi skordýra.
Í ár voru nokkuð sérstakar aðstæður á sandinum en oft höfum við séð meiri grósku. Þannig voru allmörg tré innan reitanna sem að hluta voru ekki með nein laufblöð. Þá voru líka nokkur tré sem höfðu drepist frá því í fyrra. Ekki er víst hvað veldur þessu en vísindamenn sem vinna að rannsóknum á sandinum hafa verið látnir vita. Þrátt fyrir þetta sáust nýjar trjáplöntur sem gægðust upp úr jarðveginum en til að verða mældar sérstaklega í vöktuninni þurfa þær að hafa náð 10 sentimetra hæð. Nú verður tíminn að leiða í ljós hvort að þessir nýnemar nái að vaxa og dafna.
Þegar farið er á milli reitanna má sjá mörg tré sem eru hærri en þau sem eru innan reita FAS. Eitt þeirra er t.d. staðsett ofan í jökulkeri og hefur einhvern tímann brotnað að hluta. Frá því í fyrra hefur það orðið fyrir meira hnjaski og nokkrar greinar hafa brotnað af að hluta í tæplega tveggja metra hæð. Mögulega hamlar skemmdin vexti því tréð hækkar lítið sem ekkert á milli ára.
Eftir ferðina vinna nemendur skýrslu. Vinnan felst m.a. í því að skoða tölulegar upplýsingar á milli ára og velta fyrir sér líklegum skýringum á breytingum. Líkt og fyrri ár verða niðurstöður ferðarinnar birtar á http://nattura.fas.is/
Ferðin gekk í alla staði ljómandi vel og voru nemendur og leiðbeinendur ánægðir og lærðu margt nýtt. Ekki spillti fyrir að veður var eindæma gott; logn, sól og hiti 11 gráður.

Hjördís Skírnisdóttir
Lilja Jóhannesdóttir