Dagana 28. og 29. nóvember heimsóttu barnabókahöfundarnir Yrsa Þöll Gylfadóttir, Gunnar Theodór Eggertsson og Bergrún Íris Sævarsdóttir nemendur á grunn- og gagnfræðaskólastigi.
Höfundarnir eru allir með nýjar bækur þessi jól, Bergrún Íris með Töfralandið og Kennarann sem hvarf sporlaust, Gunnar Theodór með þriðju bókina um Galdra-Dísu og Yrsa Þöll með fyrstu tvær bækurnar í seríunni Bekkurinn minn. Heimsóknin var í boði Menningarmiðstöðvarinnar en framkvæmdin í höndum starfsfólks skólanna. Vegna sérstakra aðstæðna fór lesturinn fram í Sindrabæ og kunnum við húsráðendum þar allar bestu þakkir.
Lesið var fyrir þrjá hópa og var húsfyllir á hverjum lestri.