Áramótapistill bæjarstjóra

0
1029

Ég vil óska öllum Hornafirðingum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir árið sem er nú liðið.
Árið 2020 fer vel af stað hjá mér og minni fjölskyldu en við eyddum jólum og áramótum í sólinni á Tenerife í fyrsta skiptið og höfum því ekki notið veðra og vinda sem hafa gengið um Ísland. Þessi tími er mér alltaf mikilvægur og það er gott að geta eytt tíma saman fjöldskyldu og vinum. Á þessum tímamótum er gott að stilla aðeins miðið, skoða hvað hefur áunnist á síðasta ári bæði persónulega og vinnutengt og setja markmið fyrir nýtt ár. Árið 2019 hefur verið mjög viðburðaríkt og á sama tíma nokkuð erilsamt að vanda.
Vel hefur gengið í rekstri sveitarfélagsins. Stefnumál núverandi meirihluta eru að vinnast samkvæmt áætlun. Eitt af síðustu verkunum fyrir jól var að ljúka við gerð fjárhagsáætlunar þar sem verkefni næsta árs ásamt næstu þriggja ára voru kortlögð. Sveitarfélagið er vel rekið og framkvæmdastigið hefur verið hátt undanfarin ár og það verður ekki breyting á því á næstu árum. Rekstur sviða gengur vel og starfsmannamál eru í góðum farvegi. Mannauður sveitarfélagsins er mikilvægur og starfsfólk stendur sig frábærlega í sínum störfum, vil ég nota tækifærið og þakka fyrir þeirra störf.

Helstu verkefni næsta árs

Helstu verkefni á næsta ári er m.a. bygging nýs hjúkrunarheimilis en hönnun stendur nú yfir og er áætlað að henni ljúki nú í janúar og bygging hjúkrunarheimilisins verði tekin í notkun í byrjun árs 2022. Breytingar munu eiga sér stað í rekstri heilbrigðisstofnunarinnar á árinu en heilbrigðisráðherra tók ákvörðun um að endurnýja ekki samninga við Sveitarfélagið Hornafjörð um rekstur stofnunarinnar. Hef ég ásamt framkvæmdastjóra heilbrigðisstofnunarinnar setið fundi með samráðshópi um reksturinn síðustu vikurnar. Unnið er að samningum við HSU um rekstur sjúkrarýma og heimahjúkrunar en það er ljóst að heilsugæslan og sjúkraflutningar munu flytjast undir rekstur HSU Selfossi.
Á árinu verður haldið áfram með vinnu að frekari samþættingu heimaþjónustu og að samþættingu félags- og fræðsluþjónustu með breytingum á Víkurbraut 24. Unnið er að hönnunarvinnu og áætlað að bjóða út framkvæmdir síðar á þessu ári og stefnt að flutningi snemma á næsta ári inn í húsnæðið. Með flutningi í húsnæðið verður aðstaða starfsmanna og þjónustuþega heimaþjónustudeildar bætt til muna ásamt því að þjónusta í málefnum fjölskyldna og barna verður öll færð á sama stað.
Hafnarbrautin verður tekin til endurbóta á árinu, unnið verður að samþættu deiliskipulagi á miðsvæði við íþróttahús, Báruna og við skólahúsnæði sveitarfélagsins. Markmið skipulagsvinnunnar er að kortleggja framtíðaruppbygginu á svæðinu m.a. staðsetningu nýs íþróttahúss.
Á nýju ári verður farið í stefnumótunarvinnu fyrir sveitarfélagið. Sú vinna hefst nú í febrúar með aðstoð Podium ráðgjafastofu. Að leiðarljósi í stefnumótunarvinnunni verður innleiðing heimsmarkmiðanna en ríkisstjórnin hefur sett sér markmið að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem eru 17 talsins og forgangsraða 65 af 169 undirmarkmiðum þeirra. Þetta verður spennandi vinna sem mun færast niður í aðrar stefnur sveitarfélagsins.

Umhverfismál og hugleiðingar

Umhverfismálin eru mikið í umræðunni og ekki af ástæðulausu. Líklega hafa margir nýtt jólafríið í bókalestur og m.a. lesið bók Andra Snæs Magnasonar; Um tímann og vatnið, þar sem fjallað er um umhverfismálin í víðu samhengi. Það er ljóst að ástandið er alvarlegt og mikilvægt að allar þjóðir heims bregðist við. Hitastig fer hækkandi með aukinni losun kolefnis út í andrúmsloftið með tilheyrandi afleiðingum. Við búum jú í nálægð jöklanna og sjáum hvernig þróunin á sér stað ár frá ári. Nýlega sýndi Þorvarður Árnason í föstudagshádegi í Nýheimum ljósmyndir sem sýna svo greinilega hver þróunin er og eru þær sláandi. Í bókinni fjallar Andri Snær um þessi mál og m.a. um það þegar hann hitti Dalai Lama fyrir margt löngu þegar hann fékk að taka viðtal við hann í heimsókn hans til Íslands. Þessi hluti vakti áhuga minn en hann er áhugaverð persóna. Hann hefur m.a. lengi tamið sér hegðun sem miðar að því að bera virðingu fyrir umhverfinu. Hann er ekki að flækja hlutina, hann temur sér að nota lítið vatn og spara rafmagn hvar sem hann er. Hann er einnig neyslugrannur og vill breiða út boðskap friðar og kærleika. Ég ætla að leyfa mér að setja inn beina tilvitnun úr viðtali sem Andri Snær tók við Dalai Lama:
„Við erum gáfaðar verur, við erum svo skapandi. Og við eigum að nota náðargáfu okkar til að færa heiminum meiri hamingju, meiri frið, færa samfélögum okkar meiri kærleika, stundum finnst mér það vera markmið okkar. Að leggja okkar af mörkum til að skapa samfélag kærleika.“
Þetta er góður boðskapur, að leggja okkar af mörkum til að skapa samfélag kærleika. Á tímum sem við lifum í dag þar sem stríð geysa víða í heiminum, efnishyggjan er mikil og fólk er upptekið þá er mikilvægt að gefa sér tíma og taka eftir umhverfinu í kringum okkur, hægja á okkur og njóta þess sem við höfum í dag. Byggjum upp gott samfélag með jákvæðni að leiðarljósi.
Með þessum orðum lýk ég nýárspistli mínum og óska ykkur öllum gæfu og hamingjuríks árs!

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri.