Ár í lífi fuglaskoðara

0
1297

Snemma árs 2019 tók ég þá ákvörðun að leyfa mér að eltast við sjaldséða fugla af enn meira þunga en hingað til, sem hefur nú samt þótt töluverður fram að þessu. Þetta þýddi að ég ætlaði mér að fara hvert á land sem er ef það fyndist fuglategund sem ég hafði ekki séð hér á landi. Ég reiknaði svo sem ekki með að þetta yrðu svo margar ferðir enda búinn að sjá nokkuð yfir 300 tegundir, En ég einn af fimm íslenskum fuglaskoðurum sem hefur náð þeim árangri.
Það má nú samt segja að ferðirnar fóru algjörlega úr böndunum og þeyttist ég þúsundir kílómetra eftir þessum fiðruðu vinum mínum, oft einn, en Bjössi, Björn Gísli Arnarson, fékk að koma með í stöku ferðir. Hér á landi verpa rúmlega 70 tegundir fugla og nokkrar fara hér svo um, þegar þetta er skrifað hef ég séð yfir 170 tegundir á árinu, bætt við mig átta og svo eru tvær tegundir í viðbót sem ég hef ekki séð áður sem getur orðið erfitt að staðfesta, en í báðum tilfellum hefði verið gott að ná í sýni til að geta sent í DNA rannsókn því svo líkar geta fuglategundir verið. Árið byrjaði mjög vel og fljótlega fóru að týnast inn nýjar tegundir ásamt tegundum sem ég hafði séð mjög sjaldan, jafnvel bara einu sinni. Hér kemur svo létt yfirlit um það helsta og myndir af nokkrum af þeim fuglum sem ég sá, en nánar má sjá á vefsíðunni okkar www.fuglar.is.


7. janúar
Bláhegri fannst í Landbroti þann 6. janúar, en þar voru fuglaskoðarar að telja fugla vegna vetrarfuglatalningar. Bláhegri er amerískur fugl mjög líkur gráhegra en áberandi stærri. Því miður náði ég ekki birtingarhæfri mynd af fuglinum.

4. febrúar
Sefþvari hafði fundist við Hlíðarhúsakvísl í Fljótsdal, hér er um að ræða tegund sem ég hafði ekki séð en hafði gert tvær tilraunir áður til að sjá en „dippað“ þ.e. ekki séð. Á leiðinni í Fljótsdalinn kom ég við á Fáskrúðsfirði og sá þar þistilfinku sem hafði verið þar frá hausti, ein fallegasta finka sem hingað hefur komið. Sefþvarinn var einstaklega þægilegur, beið bara rólegur eftir mér í Fljótsdalnum.

13. maí
Apríl og maí eru oft góðir flækingsfugla mánuðir, en ekkert gerðist þó fyrr en brandsvala fannst við Stokkseyri 12. maí. Það var þá ekkert um annað að ræða en skjótast til Stokkseyrar og sjá fuglinn sem var svo almennilegur að vera þar þegar ég kom.

Brandsvala

10. júlí
Eins og flestir aðrir fór ég í smá sumarfrí og var förinni heitið til Húsavíkur en á leiðinni þangað kom ég við á Stokkseyri og sá þar tígulþernu. Í sömu ferð kom ég við á tjörn við bæinn Hólkot í Reykjadal en þar var glitbrúsi, hann er náskyldur himbrima og má sjá þá saman á myndinni, fleiri fuglar voru að sjálfsögðu skoðaðir í sömu ferð m.a. kolþerna og fjallkjóar.

13. júlí
Ég var að leggja af stað heim þegar féttir bárust af glitlóu í Garði, svo ég tók stefnuna aftur suður og sá þessa gullfallegu glitlóu í fullum sumarbúningi. Ég fann eina glitlóu fyrir nokkrum árum við golfvöllinn á Höfn, það var ungfugl að hausti. Glitlóa er náskyld heiðlóu og kemur frá Asíu.

22. júlí
Rétt rúmri viku eftir heimkomuna frá Húsavík vorum við Bjössi roknir af stað og var stefnan sett á Reykjanes. Við Hvalsnes hafði fundist auðnalóa en það var í fyrsta sinn sem þessi tegund finnst hér á landi, einu sinni áður hafði einn fugl komið um borð í fiskibát fyrir norðan land. Auðnalóa er skyld sandlóu og kemur frá Asíu.

28. júlí
Víxlnefir fundust á Höfn en nokkrum dögum áður höfðu nokkrir fuglar fundist í vestur-sýslunni og biðum við bara rólegir eftir að þeir sæjust hér. Víxlnefur er náskyldur krossnef og eiga þessar tegundir til að fara á flakk í fæðuleit og var ein svoleiðis ganga á norðurlöndunum og í vestur Evrópu. Fyrstu fuglarnir á Höfn sáust 28. júlí við Hagatún og Miðtún en svo áttu eftir að sjást fuglar fram eftir ágúst. Einn kom í net í Einarslundi og fékk merki en þetta er fyrsti og eini víxlnefurinn sem hefur verið merktur á Íslandi. Þetta var að vísu ekki ný tegund fyrir mig en einungis höfðu sést þrír fuglar áður og það bara einn af Evrósku deilitegundinni en hinir tveir voru af þeirri amerísku.

20. ágúst
Bláþyrill fannst við Mógilsá, og fórum við Bjössi að sjálfsögðu, skutumst bara fram og til baka um 1000 km á 14 tímum, hvað gerir maður ekki fyrir fugl eins og bláþyril. Þetta er einn af þeim fuglum sem maður hefur vonast eftir að sjá en taldi samt ekki mjög líklegt að myndi gerast, ég á því miður enga mynd af honum.

27. ágúst
Einungis viku eftir að beltaþyrillinn fannst var ég rokin aftur af stað og aftur var það í Garðinn en þar höfðu fundist klettasvölur, amerískar svölur og eins og í öll hin skiptin voru þetta mjög þægilegir fuglar sem sýndu sig fljótlega eftir að ég kom á staðinn svo það var bara hægt að keyra beint aftur heim, 1100 km þann daginn. Í þessari ferð sáust samt fleiri fuglar, en í Garði var líka bjarthegri og svo sá ég annan bjarthegra við Selfoss.

9. september
Vá! rólegt í 12 daga, en þá fannst amerískur spörfugl, ormskríkja við Reykjanesvita. Nú var ég svo heppinn að vera á leið í Kópavoginn svo þennan var hægt að skoða í leiðinni. Ormskríkju hafði ég aldrei séð áður en það voru fleiri amerískir fuglar á Suðvesturlandi, gulllóa í Garði og trjámáfur á Reykjavíkurtjörn og voru þeir að sjálfsögðu líka skoðaðir. Ég fór svo aftur að Mógilsá og sá þá bláþyrilinn skjótast um og svo sá ég bjarthegrann aftur við Selfoss, góð ferð.

24. september
Þann 23. september fannst Skopsöngvari á Eyrarbakka. Þetta er í annað skipti sem þessi tegund finnst hér á landi, Bjössi fann þann fyrsta árið 1987 á Reynivöllum. Það var því ekkert um að gera en skjótast á Eyrarbakka og sá ég fuglinn eftir nokkra leit og svo var bara haldið heim á ný.

8. október
Tígultáti, amerískur spörfugl fannst í Sólbrekku á Suðurnesjum. Tígultátinn fannst daginn áður og var svo í nokkra daga, ég á því miður enga mynd af honum en þarna fóru 1100 km í viðbót.

9. október
Loksins, loksins, ný tegund sem ég fann og það bara í Lóninu, nánar tiltekið á Reyðará. Ég taldi mig vera búinn að finna spörfuglategund sem heitir runnaskvetta og hefur einu sinni áður sést hér á landi. Ég náði nokkrum myndum, en þegar íslenskir og erlendir fuglaskoðarar sáu myndirnar kom babb í bátinn, það er nefnilega búið að skipta runnaskvettuni í einar 5 deilitegundir og það koma tvær þeirra til greina þ.e. er runnaskvetta og steinskvetta (mín nafnagift) en steinskvettan kemur frá austurhelmingi Síberíu en runnaskvetta frá vesturhlutanum. Það þarf því DNA til að greina þessar tegundir í sundur þar sem sérstaklega ungfuglar, eins og þessi var, geta verið svo líkir að nær ómögulegt er að greina þá í sundur.

11. október
Við Bjössi vorum að skoða fugla við Efri-Fjörð í Lóni, þegar Bjössi finnur „svarra“. Hann nær mjög döprum myndum af fuglinum og teljum við að þetta sé fölsvarri, ný tegund á Íslandi. Enn eru vandræði, því að fölsvarri og bleiksvarri voru einu sinn sama tegundin en bara mismundandi deilitegundir og nú er búið að skipta þeim og vandamálið er að það getur verið mjög erfitt að greina þessar tegundir í sundur sérstakleg ungfugla svo enn væri gott að hafa DNA.
Þetta er því búið að vera tegundamargt ár fyrir mig, en ég og Fiestan mín höfum ekið þúsundir km á árinu að eltast við fugla og enn er eftir rúmlega vika af árinu svo það er aldrei að vita hvað á eftir að gerast.

Ég óska öllum Hornfirðingum gleðilegra jóla.
Binni, Brynjúlfur Brynjólfsson.