Ályktun um flugvelli á Suðurlandi og öryggi ferðamanna og íbúa á svæðinu

0
629

“Undanfarin ár hafa orðið alvarleg bílslys í Sveitarfélaginu Hornafirði og Skaftárhreppi samhliða auknum ferðamannastraumi. Fjöldi ferðamanna sem heimsækja t.a.m. Skaftafell og Jökulsárlón voru um 850 þúsund árið 2019.
Nýlega fór smárúta út af veginum á Skeiðarársandi með unglingsstráka á vegum Ungmennafélagsins Sindra. Sem betur fer slösuðust þeir minna en talið var í fyrstu og eru drengirnir á batavegi. Að slysinu komu fjölmargir viðbragðsaðilar og heilbrigðisstarfsfólk og voru drengirnir allir fluttir á Landspítalann til aðhlynningar með þyrlu en sjúkravél gat ekki lent í Öræfum þar sem vellirnir þar eru ekki með bundnu slitlagi.
Í Öræfunum eru tveir flugvellir; í Skaftafelli og á Fagurhólsmýri. Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar leggur áherslu á að tryggja þarf öryggi á svæðinu með viðunandi hætti og beinir því til alþingismanna, ráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og ISAVIA að láta meta kostnað þess að byggja upp aðra hvora flugbrautina í Öræfum og jafnframt að leggja mat á hvor þeirra henti betur til lendinga að teknu tilliti til öryggissjónarmiða. Það er nauðsynlegt að hafa flugvöll sem getur þjónað neyðar- og sjúkraþjónustu á þessu fjölsótta og víðfeðma landsvæði.”