Listamaður vikunnar er að þessu sinni Hanna Dís Whitehead, en hún er Hornfirðingum vel kunn, listaverk hennar prýða marga veggi hér og hefur hún sett sitt mark á menningarlífið. Meðal þess sem er á döfinni hjá henni er að stofna krakkaklúbb fyrir skapandi ungmenni á Hornafirði sem verður með aðsetur sitt í Svavarssafni og mun hittast reglulega á næsta ári. Hanna kom fyrst á Hornafjörð sem leiðsögumaður á Jökulsárlóni fyrir tæpum 20 árum, tók í kjölfarið eina sláturvertíð og vann síðan sem næturvörður á Hótel Höfn um veturinn. Hún flutti svo alfarið í Nesin fyrir fimm árum.
Innblástur sinn sækir Hanna í bækur og sýningar. Hún segist fara tvisvar á ári á Þjóðminjasafnið, en lítur líka til síns nánasta umhverfis, steinana sem hún gengur á, litina í himninum, grasinu og kindunum.
„Ég er alltaf á litaveiðum, safna alls konar litasamsetningum, t.d. bara þegar ég horfi á sjónvarpið.“
Undanfarið hefur Hanna Dís haldið námskeið fyrir börn og ungmenni en nýverið fékk hún styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands og í samstarfi með Menningarmiðstöðinni hyggst hún bjóða upp á námskeið frítt þetta vor.
„Ég hef alltaf haft áhuga á að vera með skipulagt listnám fyrir ungmenni á Höfn sem mér finnst hafa vantað sem valkost. Smiðjurnar verða á Svavarssafni og vafalaust stundum tengdar sýningum, en líka bara æfingar og þjálfun sem krakkarnir geta haldið áfram heima. Alveg frá því ég flutti hingað hef ég dáðst að því hversu vel er staðið að listnáminu í grunnskólanum, virkilega vönduð verkefni og frábærir hlutir sem börnin mín hafa komið með heim. Slíkt vandað nám kveikir neista og áhuga og ég er því viss um að margir krakkar hafa áhuga á að koma og vinna sjálfstætt að einhverju skapandi utan skólans líka.“
Fátt kveikir jafn mikla ástríðu hjá Hönnu og þegar talið berst að Byggðasafninu, sem hefur um nokkuð skeið verið á hrakhólum.
„Bjössi þáverandi safnvörður kveikti áhuga minn á hlutunum þar fyrir mörgum árum þar sem hann sagði listalega vel frá þeim þegar ég heimsótti safnið sem var í Gömlubúð þá. Það sem er svo sérstaklega áhugavert er að þar geymast margir hlutir sem voru búnir til hér. Hornfirsk hönnun og listhandverk. Hlutir búnir til úr einhverju sem hreinlega rak hér á land. Einstakir og merkilegir hlutir frá Kvískerjum. T.d er algjör veisla að lesa upp öll nöfnin á fiðrildunum. Auðvitað þarf samt að vanda við að setja upp svona sýningu. Það er ekki alveg jafn auðvelt og það lítur út fyrir að vera. Safnið þarf að uppfylla allskyns staðla, vera með raka og hitastýringu, öflugt brunakerfi og brunaútganga. Það má ekki koma of mikil birta á munina og þeir þurfa að vera varðir fyrir ágangi. Svo þyrfti sýningin líka að vera nútímavædd og vera þannig að það sé hægt að uppfæra hana. Það er mikilvægt að það sé lifandi sýning sem heimamenn sæki reglulega. Ég er hrædd um að ég geti endalaust talað um þetta svo svarið er sennilegast ópólitískt hlaðið já, mig dreymir um að sjá safnið verði sýnilegra.“