„Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi“

0
2836

Ég er 28 ára gömul, alin upp í anda sjálfstæðis og jafnréttis ásamt þremur systkinum í gömlu bárujárnshúsi í miðbæ Hafnarfjarðar, þar sem móðir mín ásamt okkur í fjölskyldunni stofnaði árið 2010 og rekur fyrirtækið Urta Islandica. Urta er íslenskt jurtafyrirtæki sem sérhæfir sig í íslenskri matargjafarvöru, en ég hef unnið að uppbyggingu þess frá byrjun, allt frá því að tína jurtir í íslenskri náttúru,  hanna nýjar vörutegundir og umbúðir og að fara á vörusýningar erlendis.
Árið 2016 kynntist ég Þresti Þór Ágústssyni, sem sannfærði mig um að Hornafjörður væri sá staður sem við vildum stofna okkar heimili og fjölskyldu. Ég var ekki lengi að trúa honum þegar ég keyrði fyrst inn í Suðursveitina og inn á Höfn. Fallega fjallasýnin og jöklarnir allt um kring, gerir mig í dag ávallt stolta og lætur mig hugsa: „Hér á ég heima“!
„Af því að það er ekki hægt“ eru orð sem er ekki lengur leyfð í fjölskyldunni og fyrirtækinu en mottóið „allt er hægt“ er tekið við, þá var ekki mikil fyrirstaða þegar ég tilkynnti ákvörðun mína að flytja til Hornafjarðar.  Fyrsta verkefni mitt eftir að ég flutti til Hafnar var að finna stað fyrir útibú frá Urta Islandica.  Lánið lék við okkur og við fundum og festum kaup á Hafnarbraut 11, Gömlu Sundlauginni,  þar sem ég rek nú verslun og teframleiðslu fyrirtækisins. Ég sé nú um vöruhönnun, sölu og markaðsstörf ásamt rekstri útibús okkar á Höfn og hef í tengslum við starf mitt sérstakan áhuga á skapandi greinum, nýsköpun í atvinnulífi og öllu sem viðkemur ferðamannaiðnaði og umhverfismálum.
Við Þröstur festum síðan kaup á Smárabraut 2 og vorum að eignast okkar fyrsta barn, dreng, og erum við spennt fyrir þessu nýja hlutverki og horfum björtum augum til framtíðarinnar.
Ég hef því einnig mikinn áhuga á öllu sem snýr að fjölskyldu-, mennta- og velferðarmálum og vonast til að geta komið með ferskt sjónarhorn og lagt lóð á vogarskálarnar í þeim málum.
Ég hef skoðanir á öllu og er ávallt reiðubúin til að hlusta á skoðanir annarra.
„Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi“,  er mitt mottó sem ég hlakka til að vinna með Hornfirðingum að.
 Guðbjörg Lára Sigurðardóttir – 2. Sæti Sjálfstæðisflokkurinn