Áfram veginn

0
504

Ég er stoltur af þeim árangri sem náðst hefur í samgöngumálum og samstöðu um bættar samgöngur. Öflugir og öruggir innviðir er grunnurinn að betri lífsgæðum. Mikið hefur áunnist en því er ekki að leyna að framkvæmda og viðhaldsþörf er hvergi nærri lokið. Rétti tíminni til að fjárfesta í innviðum núna, slíkt skapar atvinnu og heldur hjólum efnahagslífsins gangandi.
Það er gaman að segja frá því að í sveitarfélaginu Hornafjörður hefur verið farið í ýmsar framkvæmdir og verkefni á kjörtímabilinu til eflingar og styrkingar. Hér er tæpt á nokkrum þeirra.
Vegir og brýr:
Vegaframkvæmdum var hraðað með tilliti til nýframkvæmda og viðhalds. Við forgangsröðun var horft til ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða.

 • Nýr Hringvegur um Hornafjarðarfljót og ný brú sem verður tekið í notkun árið 2024. Nýja leiðin styttir Hringveginn um tæpa 12 km og fækkar einbreiðum brúm á honum um þrjár.
 • Teknar hafa verið í notkun 6 nýjar brýr í stað einbreiðra brúa á Hringvegi í sveitarfélaginu Hornafirði: Morsá (2017), Hólá (2018), Stigá (2018), Steinavötn (2020), Fellsá (2021) og Kvíá (2020). Allar hafa verið teknar í notkun en frágangsvinna er eftir við þrjár síðastnefndu sem lýkur nú í byrjun sumars
 • Ennfremur nýtt bundið slitlag á tengivegum: 34 km á Suðursvæði og 7 km á Austurlandi.

Innsiglingin inn í Hornafjörð:
Í miklum sjógangi eiga skip í vandræðum með að sigla inn í Hornafjörð og rekast stundum niður í sand á leiðinni að innsiglingunni. Framkvæmdir hófust sl. sumar og lauk um haustið.

 • Sandfangari út í Einholtsklett mun bæta ástandið og draga úr sandburði úr vestri inn á Grynnslin utan við Hornafjarðarós.
 • Árleg viðhaldsdýpkun er um 25 þús m3/ári og rannsóknir á Grynnslum halda áfram


Flug:
Unnið hefur verið að því að gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa. Loftbrúin er eitt það stórkostlega byggðamál síðari tíma og jafnar verulega aðstöðumun þeirra sem búa fjarri höfuðborginni.

 • Loftbrúin, veitir 40% afslátt til þeirra sem eiga lögheimili á landsbyggðinni til þess að bæta aðgengi íbúa að miðlægri þjónustu og efla byggðir.
 • Endurnýjun hefur orðið á ljósabúnaði og rafkerfi á Hornafjarðarflugvelli ásamt viðhaldi á byggingum og búnaði.

Vegna hruns í ferðaþjónustu:
Ferðaþjónustan er mikilvæg stoð í Hornafirði og hefur orðið fyrir meiri áhrifum en aðrar atvinnugreinar sem hefur haft sitt að segja fyrir samfélagið.

 • Til að bregðast við hruninu þá fékk sveitarfélagið Hornafjörður 18 m.kr. fjárveitingu árið 2020 til að skapa betri grundvöll fyrir fjölbreyttara atvinnulíf til lengri tíma og styrkja stoðir þeirra og stuðla að nýsköpun.

Vegna ljósleiðaravæðingar:

 • Byggðastyrkur var veittur vegna ljósleiðaravæðingar, samtals að upphæð 17 m.kr. Þar að auki var veittur styrkur úr Fjarskiptasjóði vegna Ísland ljóstengt.

Vegna frístunda- og tómstundaaksturs:

 • Styrkur að upphæð 3,2 m.kr. var veittur í þróun á frístunda- og tómstundaakstri árið 2020 úr samkeppnispotti tengdur byggðaáætlun, Almenningssamgöngur um land allt.

Vegna áætlunarflugs til Hornafjarðar:

 • Þá ákvað undirritaður að verja samtals 10 m.kr. af byggðalið árið 2019 í að styrkja áætlanaflug til Bíldudals, Gjögurs og Hornafjarðar. Það er sú aðgerð sem Loftbrúin góða tengist.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru til marks um kröftugt viðbragð sem skilar sér inn í samfélagið. Á þeim grunni höldum við áfram að byggja öfluga og örugga innviði.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra