Afhverju öndunaræfingar?

0
384

Flest okkar erum að anda of grunt og of hratt, afþví leiðir að við fáum ekki nóg súrefni og losum ekki nógan koltvísýring út úr líkamanum. Hver einasta fruma líkamans þarf súrefni til að geta starfað eðlilega. Grunn öndun þjálfar lungun ekki eins vel og djúp öndun.
Hugur og öndun eru mjög tengd og því stjórnast öndunin oftar en ekki á því hvernig hugarástandi við erum í.
Pranayama þíðir að hafa meiri stjórn á önduninni, öndun verður dýpri og hægari. Með því er hægt að lækka blóðþrýstinginn, slaka á spennu í líkamanum, bæta heilsu hjartans og svo hefur aukið blóðflæði líka góð áhrif á meltingu og á ónæmiskerfið.
Með því að ástunda pranayama öndun sem er stór hluti af ástundun í yoga erum við að bæta lífsgæðin og líðanina mjög mikið. Ávinningurinn er m.a.:

  • Meiri slökun, kyrrð og friður sem endurnærir líkamann.
  • Hugurinn róast.
  • Meira súrefni berst til allra vefja líkamans og á sama tíma losum við meiri eiturefni út úr líkamanum.
  • Lungun auka getu sína.
  • Minni kvíði, streita og aukin ró í taugakerfinu
  • Bæta svefn og svefngæði.
  • Betri einbeiting og minni.
  • Betri melting og ótal margt fleira.

Öndunaræfingar hafa líka góð áhrif á þá sem eru með öndunarfærasjúkdóma og þá sem smitast af kvefpestum eða Covid. En með því að ástunda góða öndun við þær aðstæður er verið að losa slím með markvissum hætti svo hægt sé að hósta því upp og ná stjórn á öndun vegna mæði. Talið er að öndunaræfingar flýti fyrir bata.
Margar frábærar öndunaræfingar eru til en ef ykkur langar að prufa eina þægilega þá er einfaldlega að sitja með hrygginn beinan og anda inn um nef og telja í huganum upp að fjórum og fylla lungun, anda svo frá um nef og telja upp að átta, tæma lungun alveg.
Bestu kveðjur

Ragnheiður, hjúkrunarfræðingur
Yoga Alliance kennari, HafYoga kennari, með diplómu í bandvefslosun.