Af hverju er gott að fara til fótaaðgerðafræðings ?

0
877

Í fætinum einum saman eru 26 bein og 33 liðir og er þetta bundið saman með 214 liðböndum og 38 sinum og vöðvum. Góð umhirða á fótum er því heilsuvernd þar sem fótamein ýmisskonar geta valdið vanlíðan og eru þau oft á tíðum algerlega óháð aldri. Okkur ber að hugsa vel um fætur okkar því við fáum jú bara þetta eina par til að nýtast okkur út ævina. Því miður er því svo farið að allt of margir hirða ekki næginlega vel um fætur sína og þeim er oft stungið ofan í allt of litla og þrönga skó, allt eftir því hvernig tískan er hverju sinni. Í einhverjum tilfellum hefur eigandi fótanna ekki heilsu til að sjá um að hirða um þá sjálfur. Allar breytingar sem verða í uppbyggingu og starfssemi fótanna valda breytingum á líkamsstöðu og göngulagi, sem getur svo leitt til verkja í fótum, herðum, höfði og jafnvel í æðakerfinu okkar.
Löggiltur fótaaðgerðafræðingur veitir heilbrigðisþjónustu sem miðar að því að viðhalda heilbrigði fótanna. Starf okkar felst m.a. í því:
Meta ástand fóta, greina fótamein og meðhöndla þau fótamein sem ekki krefjast sérstakrar læknisfræðilegrar meðferðar.
Ráðleggja um heilbrigði fóta, meðferð og forvarnir ýmissa fótameina sem og þau úrræði sem finnast í heilbrigðiskerfinu þar að lútandi.
Skipuleggja, framkvæma og meta eigin vinnu í samræmi við viðurkennda gæðastaðla og halda sjúkraskrár samkvæmt lögum þar um.
Fótaaðgerðafræðingar beita margvíslegri meðferð svo sem hreinsun á siggi og nöglum, líkþornameðferð, vörtumeðferð og hlífðarmeðferð.
Þeir ráðleggja einstaklingum um fótaumhirðu í þeim tilgangi að minnka verki, dreifa álagi og bæta göngulag. Þeir útbúa spangir, hlífar, leppa og innleggssóla.
Sjálf lauk ég námi frá Keili í janúar síðastliðinn sem löggiltur fótaaðgerðafræðingur og starfa sem slíkur á Fótaaðgerðastofu Mosfellsbæjar. Mér hafa alla tíð verið afar hugleikin þau fræði sem snúa að heilsu fóta okkar og vil hvetja Hornfirðinga sem og aðra að hugsa vel um fæturnar sínar. Til að styðja að slíkri heilsubót langar mig að heimsækja Hornafjörðinn sem mér þykir svo vænt um reglulega og bjóða heimamönnum upp á þjónustu mína sem fótaaðgerðafræðings. Ég hef fengið aðstöðu í Sporthöllinni og mun vera á Höfn dagana 28. október – 1.nóvember og svo aftur 29.nóvember – 3.desember. Ef vel gengur hef ég svo hug á að koma ca 7-8 vikna fresti þannig að Hornfirðingar sem á reglulegri þjónustu þurfa halda geti fengið slíka. Tímapantanir fara í gegnum síma 896-7685.
Að gefnu tilefni langar mig til að skora á bæjaryfirvöld, heilbrigðisstofnunina, félag eldri borgara og/eða önnur félagasamtök að bæta aðstöðu fyrir komu fótaaðgerðafræðinga á Höfn. Það er hægt að gera með betri aðbúnaði með þar til gerðum stól svo vel fari um skjólstæðinga ásamt betri vinnuaðstöðu fyrir fótaaðgerðafræðinginn. Þjónusta sem þessi er lýðheilsumál sem snerti alla íbúa bæjarins og ef aðstaðan er góð mun ávalt vera auðveldara að fá þjónustuna á staðinn.

Anna Vilborg Sölmundardóttir
Lögggiltur fótaaðgerðafræðingur