Ætlar amma að vera endalaust í skóla?

0
622

Guðleif Kristbjörg Bragadóttir fór með eftirfarandi ræðu í útskrift hjá Fræðsluneti Suðurlands þann 31. maí síðastliðinn:

Kæru verkefnastjórar, starfsfólk, nemendur og aðrir gestir.
Ég heiti Guðleif Kristbjörg Bragadóttir og útskrifast af Leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú. Ég stend hér fyrir hönd nema Fræðslunets Suðurlands á Hornafirði og vil nýta tækifærið til þess að þakka fyrir okkur. Árin hjá fræðslunetinu hafa verið mjög ánægjuleg. Við þökkum kennurum og öðru starfsfólki Fræðslunetsins kærlega fyrir samveruna og samvinnuna síðustu ár. Við höfum lært mikið og þroskast í okkar fögum, en einnig sem einstaklingar. Þið eigið stóran þátt í því og við erum afar þakklát.
Dagurinn í dag markar þáttaskil í lífi okkar nú er við útskrifumst. Sum okkar ætla í frekara nám, aðrir eru komnir með vinnu eða í vinnu. Okkur býðst nýtt upphaf og ný tækifæri. Þá er mikilvægt að setja sér ný markmið, staldra við og hugsa.
Ég hef einmitt verið að hugsa aðeins til baka og rifja upp minningar frá síðastliðnum árum. Það eru bara 5 ár síðan ég byrjaði hjá Fræðslunetinu. Hófst þessi ganga haustið 2017 á Fagnám í umönnun fatlaðra og útskrift vorið 2018. Þá var búið að kveikja í mér námsáhugann aftur, eftir mörg ár og ekki aftur snúið, hvatning frá fyrrum yfirmanni og kynning frá Fræðslunetinu kom mér á bragðið og hélt ég ótrauð áfram, um haustið 2018 byrjaði ég í Félagsliðanámi og útskrifaðist ásamt fleirum sem Félagsliði vorið 2020. Útskrift verður alltaf minnistæð, því hún var engin, einkunnir sendar í pósti, því eins og við flest vitum var Covid ástand. Lét ég ekki staðar numið þarna, skellti mér á Leikskólaliða- og Stuðningsfulltrúabrú haustið 2020.
Síðustu 2 ár höfum við þegið mikið, nú er komið að okkur að gefa af okkur. Við höfum lært af vel menntuðum og lausnarmiðuðum kennurum. Hvað eiga bestu kennararnir sameiginlegt? Þeir gefa mikið af sér. Að vera gagnlegur er frískandi andsvar við sjálfselskum hugsunarhætti. Í stað þess að eyða orkunni í að hugsa allt út frá okkur sjálfum, þurfum við að víkka sjóndeildarhringinn. Horfa út fyrir okkar kassa og sjá fólkið og tækifærin í kringum okkur.
Ekki ætla ég að telja hér upp þau námskeið sem ég hef tekið aukalega hjá Fræðslunetinu. Ef það væri ekki til, stæði ég ekki hér. Þökk sé því.
Það er aldrei of seint að mennta sig, eða eins og eitt barnabarnið mitt sagði við foreldra sína: “Ætlar amma að vera endalaust í skóla? “ Hver veit.
Ég hlakka til að takast á við næstu verkefni, vinna að nýjum markmiðum og sjá hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég þakka ykkur öllum fyrir samferðina í gegnum námið. Gangi ykkur sem allra best og enn og aftur… til hamingju með daginn!