Tvö námskeið í menntaverkefninu ADVENT (Adventure Tourism in Vocational Education and Training) hafa verið prufukeyrð frá því síðast var sagt frá verkefninu hér á síðum Eystrahorns. Þetta voru námskeiðin Túlkun strandsvæða sem fram fór í Skotlandi í september sl. og Vöruþróun sem fram fór í Finnlandi í nóvember. Þátttakendurnir í þessum námskeiðum komu líkt og í fyrri prufukeyrslum frá skólum og fyrirtækjum í samstarfslöndum ADVENT; Finnlandi, Skotlandi og Íslandi.
Bæði þessi námskeið byggðu á náttúru og menningu landanna þar sem fræðin voru aðeins skoðuð í kennslustofunni en þó aðallega úti á vettvangi. Námskeiðin sjálf voru þó ólík vegna mismunandi viðfangsefna hvors um sig.
Námskeiðið í Skotlandi fjallaði um ströndina, þ.e. hafið og fjöruna, og leiðir til að njóta og nýta þennan hluta náttúrunnar í tengslum við ævintýraferðir og almenna útivist. Fyrir Íslands hönd tóku Tryggvi V. Tryggvason nemandi í FAS og Vigfús Ásbjörnsson frá Artick Guide þátt í að prufukeyra þetta námskeið. Viðfangsefnin voru m.a. lífríki fjöru og sjávar, menning og saga ásamt þróun ferðamennsku á slíkum svæðum. Þátttakendur tóku m.a. þátt í sjókajak ferð og öflun sjávar- og fjörufangs sem þeir síðan matreiddu og neyttu í fjörunni.
Finnska námskeiðið fjallaði um leiðir til að þróa vöru sem ferðamenn gætu haft áhuga á að kaupa. Íslensku þáttakendurnir í þessu námskeið voru Olga Ingólfsdóttir frá Ríki Vatnajökuls og Hulda L. Hauksdóttir frá Höfn Staðarleiðsögn og verkefnastjóri ADVENT. Í þessu námskeiði unnu Finnarnir með menningararf sinn, gufuböðin (sánuna), skóginn og hefðbundin finnskan mat. Á námskeiðinu var farið yfir leiðir til að gefa ferðamönnum færi á að upplifa hluti úr daglegu lífi fólksins í Finnlandi um leið og mikil áhersla var lögð á að skoða hvernig hægt væri um leið að standa vörð um þennan hluta menningararfs þjóðarinnar svo ekki hlytist skaði af við að gera hann að söluvöru. Þátttakendur prófuðu m.a. mismunandi gerðir gufubaða, böð í ísvökum og snjó, göngu á snjóþrúgum í þjóðgarðinum Hiidenportti og þeir elduðu fjölbreytta hefðbundna finnska rétti undir stjórn matreiðslumeistara.
Níunda og síðasta námskeið ADVENT verkefnisins verður prufukeyrt hér heima í lok janúar. Viðfangsefni þess námskeiðs verður myndataka með snjallsímum og leiðir til að birta afraksturinn á áhrifaríkan hátt á samfélagsmiðlum. Sólveig V. Sveinbjörnsdóttir og Guillaume M. Kollibay hjá Local Icelander munu hafa yfirumsjón með því námskeiði.
Nánar má fræðast um ADVENT á heimasíðu verkefnisins: https://adventureedu.eu
Hulda L. Hauksdóttir verkefnastjóri ADVENT