ADVENT námskeið í Finnlandi

0
1062

Þriggja landa menntaverkefnið ADVENT (Adventure Tourism in Vocational Education and Training) heldur áfram af fullum krafti og hafa lesendur Eystrahorns fengið að fylgjast með því á síðum blaðsins síðustu mánuði. Verkefnið lýtur að því að efla menntunarmöguleika fyrir starfandi aðila í ævintýraferðaþjónustu og er styrkt af menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+. Í verkefninu eru þróuð og prufukeyrð níu fjölbreytt námskeið fyrir ævintýraferðaþjónustuaðila og skóla sem kenna fjallamennsku og útvist.

Námskeiðið í Finnlandi

Nú þegar hafa fimm ADVENT námskeið verið prufukeyrð og var það síðasta haldið 12. – 16. maí sl. í Kajaani í Finnlandi. Námskeiðið bar heitið What kind of adventure traveller are you? Customer Knowledge og má þýða sem; Hvernig ferðalangur ert þú? Þekking viðskiptavina. Á námskeiðinu var skoðað hverjar þarfir viðskiptavina í ævintýraferðaþjónustu eru, hvernig þær eru að breytast og út frá því að hanna vörur og framboð sem best geta mætt þeim þörfum.
Þátttakendur sem fóru utan fyrir Íslands hönd voru þau Bjarney Bjarnadóttir frá Ís og Ævintýri og Sigurður Ragnarsson kennari frá FAS en auk þeirra voru þátttakendur frá bæði Finnlandi og Skotlandi.
Líkt og í örðum ADVENT námskeiðum var blandað saman fræðilegri nálgun á viðfangsefnið og vettvangsferðum þar sem tekist var beint á við viðfangsefnin úti í náttúrunni. Alla daga námskeiðsins var reynsla og upplifun þátttakendana rædd og borin saman við það sem fræðin segja um hinn ævintýragjarna ferðalang.
Fyrsti dagur námskeiðsins fór í ferðir og undirbúningsverkefni. Annar dagur hófst á stuttum fyrirlestri um ævintýraferðamennsku þar sem þátttakendur fengju tækifæri til að setja sig í spor viðskiptavina og skoða þannig eigin væntingar til ævintýraferða. Að fyrirlestrinum loknum var lagt af stað á vit ævintýranna þegar þátttakendur fóru um borð í það sem Finnar kalla kirkjubát á Oulujärvi vatni og réri sjö km. leið út í eyjuna Ärjä. Við landtöku í eynni var skógarútilega undirbúin með því að reisa 15 manna tjald, safna eldiviði, kynda bál og elda úti undir berum himni. Um kvöldið var eyjan könnuð og þátttakendur skoðuðu möguleg tækifæri fyrir nýtingu hennar. Lítil umferð hefur verið á eyjunni síðan um miðja síðustu öld þegar pappírsfyrirtæki leigði starfsmönnum sínum aðstöðu þar til sumardvalar, en finnska ríkið sem nú á eyjuna stefnir á að hefja nýtingu hennar til útivistar. Daginn eftir var aftur sest undir árar og róið til Kajaani þar sem unnið var með verkefni sem kölluð eru mjúk og hörð nálgun í ævintýraferðum. Á fjórða degi námskeiðsins var farið í spennandi skógarferð þar sem tekið var þátt í margvíslegum ævintýrum og áskorunum og lokadagurinn var nýttur í samantekt og heimferð. Þátttakendur voru sammála um að námskeiðið hafi verið mjög vel heppnað, lærdómsríkt og skemmtilegt.
Hugmyndafræði ADVENT verkefnisins snýst að miklu leyti um að þátttakendur á námskeiðunum leggi þekkingu sína og reynslu saman þannig að í gegnum fræðslu, upplifun, æfingar og samræður þátttakendanna verði til námssamfélag sem nýtist öllum jafnt til að auka þekkingu sína og færni. Þátttakendahópurinn samanstendur sem sagt ekki af nemendum og kennurum heldur eru það svokallaðir leiðandi þátttakendur sem stýra námskeiðinu en allir leggja í púkkið. Þeir aðilar sem leiddu námskeiðið í Kajaani komu frá háskólanum þar í bæ; Kajaani University of Applied Sciences og skiluðu þeir allir mjög áhugaverðri vinnu. Í Kajaani er m.a. kennd útivistar-, íþrótta- og ferðamálafræði á háskólastigi og er mikla reynslu og þekkingu þangað að sækja sem nýtist aðilum í ævintýraferðaþjónustu vel.

Fundur og ráðstefna

Í beinu framhaldi af námskeiðinu var síðan haldinn samstarfsfundur í ADVENT verkefninu þar sem Olga Ingólfsdóttir frá Ríki Vatnajökuls, Eyjólfur Guðmundsson skólameistari FAS og Hulda Laxdal Hauksdóttir verkefnastjóri ADVENT tóku þátt í að leggja línurnar fyrir næstu skref verkefnisins. Heimsókninni til Finnlands lauk svo með ráðstefnu þar sem fjallað var á víðum grunni um ævintýraferðamanninn, breytingar á ferðahegðunar hans síðustu árin og tækifærin sem í því felast.

Næsta námskeið haldið í Sveitarfélaginu Hornafirði

Sjötta ADVENT námskeiðið verður haldið hér heima í júlí. Það námskeið mun snúast um „Hið staðbundna“, vöruvæðingu þess og nýnýtingu. Námskeiðið heitir á ensku Localism; commodification and gentrification. Þátttaka í námskeiðum ADVENT er frábær leið til að efla menntun innan ævintýraferðaþjónustu hér í nærumhverfinu og stendur fyrirtækjum í ævintýraferðaþjónustu innan Ríki Vatnajökuls til boða að senda tvo þátttakendur á júlí námskeiðið. Áhugasamir geta haft samband við Huldu á hulda@fas.is .

Nánar má lesa um ADVENT á heimasíðu verkefnisins: www.adventureedu.eu.

Fyrir hönd Finnlandsfaranna;
Hulda L. Hauksdóttir verkefnastjóri ADVENT