Á haustin smölum við öllum í fjallgöngu!

0
328
Nestispása og frábært útsýni yfir jökulinn

Það er hefð í Grunnskóla Hornafjarðar að fara í gönguferð að hausti með alla nemendur í 5.-10. bekk. Þá geta nemendur valið sér 2-3 mismunandi leiðir, allt frá léttri göngu til frekar krefjandi fjallgöngu, allt eftir getu og áhuga.
Í ár var stefnan tekin á Bergárdalinn og valið stóð á milli þriggja leiða á Bergárdalssvæðinu. Það vildi nú samt svo til að veðurguðirnir voru ekki alveg í liði með okkur þennan daginn. Það var búið að spá mjög góðu gönguveðri en síðan var svarta þoka um morguninn og þá voru góð ráð dýr. Það er ekki beint góður kostur að segja 120 nemendum sem koma vel nestaðir og græjaðir í fjallgöngu að nú ætlum við bara að sleppa því að fara, það sé þoka og við sjáum ekkert. Það er heldur ekki ákjósanlegt að draga allt liðið á fjöll í þoku þannig að þá var plan B virkjað. Þennan morgunn fréttum við af góðu veðri á Mýrunum, þar var engin þoka og ákveðið var að fara í Haukafell og ganga inn að Fláajökli, meðfram Fláfjalli og skoða þær sérkennilegu bergmyndanir sem eru nýkomnar undan jöklinum.
Þessi skóladagur var hreint út sagt frábær, það eru fáir sem geta státað sig af eins flottri útikennslustofu og við á þessu landshorni. Grunnskólinn leggur mikið upp úr því að fara í ferðir bæði að hausti og vori þannig að nemendur kynnist nærumhverfinu og fái tækifæri á að ganga saman í hóp og læra að umgangast náttúruna af virðingu.
Í þetta skiptið þá missti 5. bekkur af hinni árlegu gönguferð, þau voru í námsferð í Suðursveit á sama tíma. Það getur verið flókið að finna daga á haustin þar sem vel viðrar fyrir þessar ferðir.
Hópurinn hafði það aldeilis gott þennan daginn, gangan gekk vel og eftir hana voru grillaðar pylsur í Haukafelli, það var svo hægt að fara í ýmsa leiki, kubb, skotbolta og þeir sem höfðu áhuga á því að hoppa í hylinn gátu aldeilis baðað sig í góða veðrinu. Eftir góðan dag var brunað á Höfn í þokuna og kuldann, allir sáttir og sælir með góðan dag á Mýrunum.