Samtímaljósmyndun á Humarhátíð

0
1595

FÍSL2017 nefnist stór ljósmyndsýning á vegum Félags Íslenskra samtímaljósmyndara sem opnuð verður í Miklagarði um Humarhátíðarhelgina. Sýningin verður í 4-5 rýmum hússins og þar sýna 22 listamenn nýleg verk ásamt verkum í vinnslu. FÍSL2017 verður opnuð föstudaginn 23. júní kl. 16:00. Á opnuninni munu Biggi Hilmars og María Kjartans flytja nokkur lög af plötu sinni sem væntanleg er seinna í sumar en María á auk þess verk á sýningunni.

Einn Hornfirðingur, Sigurður Mar, er meðal sýnenda á FÍSL. Þar sýnir hann myndir sem eru hluti af verki í vinnslu sem hann kallar Ær. Í þessu verki veltir hann fyrir sér samskiptum mannsins og sauðkindarinnar og þeim sess sem þessi skepna hefur haft hjá Íslendingum í gegn um aldirnar. Sigurður sækir áhrif og viðfangsefni djúpt í menningu og sögu þjóðarinnar og síðasta verkefni hans, Sögur er byggt á sama grunni.

Það eru fleiri tengingar við Hornafjörð á FÍSL2017 því Hallgerður Hallgrímsdóttir og Inga Sólveig Friðjónsdóttir hafa báðar átt heima á Höfn um tíma og eru í hópi þeirra listamanna sem eiga verk á sýningunni. FÍSL2017 verður opin til 13. ágúst.