Spjallað við Hrefnu, Kötu og Sverri

0
883

-í Félagi Harmonikkuunnenda í Hornafirði og nágrenni, F.H.U.H

Á sunnudagsmorgni, fallegum haustdegi býður, Hrefna stjórnarmeðlimum heim í stofu í spjall. Harmonikkan hljómar í sveiflandi valsi og í stofunni er morgunverðarhlaðborð hvar þremenningarnir sitja með morgunkaffið og spjalla.

,,Má ég ekki eiginlega kalla ykkur framkvæmdanefndina? Það er nú afrek að setja í gang árlegan menningarviðburð á aðeins fáum árum. Mér skilst að þetta hafi verið viðburðarrík en skemmtileg sex ár sem þið hafið starfað svona ötullega að uppbygginu félagsins?“
Þremenningarnir skiptast á skemmtilegum minningum og skauta yfir það helsta sem á
harmonikkudaga þeirra hefur drifið.
,,Hér stendur í fundargerð“, segir Sverrir, ,,föstudagurinn 20. apríl 2018. Hrefna og Katrín hafa fengið aðstöðu í Litlu Sveitabúðinni, til að taka á móti gestum fyrir fyrsta Hagyrðingamótið, og boðið þar upp á dýrindis súpu og heimabakað brauð. Tekið var á móti 36 gestum að norðan.“ Hrefna og Katrín hlæja: ,,Jú, einmitt, þarna fórum við í kisturnar, sem
voru tæmdar af dýrindis folaldakjöti og buðum í gúllassúpu og brauð sem allir virtust ánægðir með. Þetta var mjög skemmtilegt.“ Katrín hlær við og segir, ,,já, en það kom upp svolítið skondið atvik seinna, það var einhver sem minntist á það síðar að hann borðar aldrei hrossakjöt.“ Þær stöllur skella upp úr og láta fylgja sögunni að þær hafi þá ákveðið að vera
ekkert að auglýsa hvað þær höfðu boðið upp á þarna í móttökuveislunni.

,,Já, var þetta fyrsta Hagyrðingakvöldið? Hafið þið alltaf tekið svona veglega á móti
gestunum ykkar?“
,,Já, þetta var fyrsta Hagyrðingakvöldið sem við héldum. Nei við erum nú ekki lengur að taka á móti gestunum með þessum hætti. Laufey á Smyrlabjörgum hefur blessunarlega tekið við því og býður upp á dýrindis kjötsúpu á föstudagskvöldinu fyrir gesti sem mæta þá.“ Sverrir vitnar í fundargerð að þetta hafi verið hið besta kvöld og allir hafi hlakkað til Hagyrðingakvölds aftur að ári liðnu.
,,Það er greinilegt að hagyrðingakvöldin hjá ykkur festust í sessi strax frá upphafi.“
,,Jú“, segir Hrefna og lítur á félaga sína; ,,það var nú svolítið gaman að þessu, vorum við ekki með fulla vasa af peningum þarna á fyrsta kvöldinu?“ Og þremenningarnir skella upp úr. ,,Jú, jú“, segir Sverrir, ,,við vorum öll með sitt hvert búntið í vasanum“ og það er hlegið dátt. Katrín: ,,Já, félagið átti ekkert af peningum, ég man ekki hvort það var 50 eða 80 þúsund, eftir kleinusöluna.“
Þremenningarnir minnast þess að það hafi verið til einhver smá sjóður, því stöllurnar hafi bakað kleinur í fjáröflun fyrir félagið, t.d. seldu þau kleinur og kaffi á humarhátíðar-bás og einhvern tímann kleinur í pokum: ,,Verkskiptingin var mjög góð hjá okkur, við stelpurnar
steiktum kleinur og Sverrir var svo snöggur að selja kleinupokana að þær runnu alveg út, við höfðum bara varla undan.“ ,,Við erum svo svakalega ánægðar að hafa haft hann Sverri með
okkur“ leggja þær áherslu á ,,því hann gengur svo fljótt og vel í málin og með snarræði sínu hefur hann nú reddað ýmsum uppákomunum í gegnum árin.“
Sverrir minnist þess að hafa verið með 100 þúsund kall í vasanum og að þær hafi haft með sér annað eins, öll tilbúin til að borga úr eigin vasa ef á þyrfti að halda til að láta kvöldið ganga upp. ,,En þetta lukkaðist nú allt mjög vel þó væri svolítið stressandi svona rétt á meðan“ segir hann. ,,Jú, jú, við vorum bara tilbúin að tæma af reikningunum hjá okkur til að láta þetta
ganga upp.“ segja þremenningarnir og skella upp úr. Áfram minnast þau fyrstu verka stjórnar. ,,Það var nú skondið þarna fyrir þetta fyrsta kvöld, því 18. janúar 2018 þá hittum við á fulltrúa frá karlakórnum í fundarhúsinu í Lóni, til að ræða hvort við ættum að halda saman Hagyrðingakvöld þarna á árinu. Þeim fannst hugmyndin heldur glannaleg og stukku ekki á vagninn. Á leiðinni heim af fundi voru þremenningarnir því í þungum þönkum en vildu ekki gefa hugmyndina upp á bátinn. Þau ákváðu því að hafa samband við Sveitahótelið Smyrlabjörg, þar sem var tekið vel í hugmyndina, og þar hefur Hagyrðingakvöldið verið haldið allar götur síðan. ,,Og við þurftum að vera á hlaupum þarna, á síðustu stundu, man ég, að redda hljómsveit á
ballið, því þeir sem höfðu ætlað að spila afbókuðu sig með litlum sem engum fyrirvara og við vorum því á hálfgerðum handahlaupum þarna að redda málum fyrir fyrsta mótið.“ Þremenningarnir brosa út í annað og eru sammála um að þetta sé alltaf jafn gaman þó stundum sé þetta heilmikil vinna og oft einhverjar uppákomur. Það má brosa að þessu eftir á
þó hafi stundum verið svolítill hamagangur í öskjunni meðan á því stóð.

,,Þið hafið verið reynslunni ríkari árið eftir og ekki hikað við að telja í næsta kvöld?“
,,Já, það var engin spurning, og árið eftir fengum við til okkar frábært fólk; Hjálmar Jónsson sem stjórnanda, Ragnar Inga, Andrés frá Borgarfirði eystra og svo auðvitað okkar fólk, Kristínu og Snorra. Það var alveg frábært.“

Það má heyra á þremenningunum að það eru margar skemmtilegar minningar með
skemmtilegu fólki sem standa upp úr eftir þessi fyrstu og kröftugu ár í Félagi
Harmonikkuunnenda og það er ekki ósjaldan sem þau hafa rúntað saman um sveitirnar til að
hitta fólk og fylgja verkefnum eftir.
,,Já við höfum endasenst um sveitirnar eins og þarf. Það var nú eitthvað, að sjá til þeirra
frændsystkinanna, eitt skiptið sem við fórum í Hlíð og skruppum í fjárhúsin, pjattið á þeim“ minnist Katrín. ,,Já, þarna var Katrín komin með ilmvatnið sitt“ minnast Sverrir og Hrefna. ,,I love it“ skýtur Katrín inn í og hlær. ,,Það voru nú opnaðir bílgluggarnir á leiðinni heim.“
bæta þau Sverrir og Hrefna við. ,,Jú, við héldum því fyrsta Hagyrðingakvöldið 2018 og höfum haldið þau á hverju ári síðan, núna árið 2023, í stjötta sinn. Það var reyndar árið 2021 að Hagyrðingakvöldið átti að vera að vori til, en vegna covid þurftum við að fresta því fram á haustið 2021 og síðan þá höfum við haldið þessi kvöld á haustin.“

,,Já, þið hafið s.s. náð að halda Hagyrðingakvöldin árlega þrátt fyrir covid?“
,,Já“ segir Hrefna, og slær sér á lær, ,,Þetta slapp nefnilega til“ og við erum öll sammála um að það sé nú bara afrek út af fyrir sig. ,,En hvernig kemur stofnun félagsins til?“ Hrefna og Katrín rifja upp að Gunnar Kvaran hafi hringt í Hauk Þorvaldsson og lagt til að yrði stofnað félag harmonikkuunnenda fyrir þetta svæði. Katrín snýr sér að Hrefnu; ,,Já,
settum við þetta ekki í gang eftir spilavist í Ekru?“ sem tekur undir það.

Samkvæmt fundargerðarbók má sjá að á þennan fyrsta fund voru mættir 23, og eftir hann voru skráð í undirbúningsnefnd ásamt Katrínu og Hrefnu, þau Óskar og Jóhanna. Formlegur stofnfundur var svo haldinn 22. apríl, 2017, þar sem voru mættir 18 stofnfélagar, og þar bættist Sverrir í hóp stjórnar.
,,Jú, þetta hefur verið ofsalega skemmtilegt, þó stundum liggi í þessu mikil vinna“ og þau eru sammála um og að hafa kynnst fjöldanum af dásamlegu fólki. ,,Þetta eru náttúrulega bara orðnir vinir okkar“ segja þær Hrefna og Katrín ,,eiginlega bara, má segja, eins og ein stór
fjölskylda“. Sverrir tekur undir það og segir þetta heilan hóp í kringum stelpurnar.
,,Já, þetta er bara svo ofsalega gaman og gaman að hitta allt þetta fólk. Við höfum ekkert verið að telja það eftir okkur að keyra landið þvert og endilangt á þessa viðburði, og við reynum að mæta á þá flesta “ segja stelpurnar. ,,Það eru heldur ekki ófá ævintýrin sem við höfum lent í á þessum harmonikkuferðalögum okkar“ halda þær hlæjandi áfram. ,,Eitt sinn vorum við að fara austur á harmonikkuball. Við höfðum oftast verið í tjaldi en í þetta skiptið höfðum við fengið lánaðan tjaldvagn, og bara mjög ánægðar með það. Þegar við vorum komnar í Skriðdalinn sjáum við að það rýkur úr tjaldvagninum.“ Hrefna stekkur út og
sér að það er ekki aðeins sprungið á tjaldvagninum, heldur er bara hreinlega ekki mikið eftir af dekkinu, dekkið er nánast farið, og farið að leka úr einu bíldekkinu líka. Það var náttúrulega hringt í vin og send af stað björgun. Daginn eftir var komið nýtt dekk á tjaldvagninn og við mjög vígalegar höldum með hann af stað í Svartaskóg á ball. Náum að smella upp tjaldvagninum áður en við drífum okkur á ballið, en þegar gleðin var búin og var farið að sofa var alveg agalega kalt og hvorug okkar gat sofnað dúr. Það endaði með því að Hrefna fór inn í bíl og ég í humátt á eftir“, segir Katrín og hlær ,,og þar sátum við saman nóttina. Morguninn eftir kom í ljós að það hafði gleymst að setja svefntjaldið í vagninn og að við höfðum bara legið þarna í einhverju stærðar gímaldi í næturgolunni.“ segja þær sposkar á svip. ,,Það var svo í annarri ferð, og í það skiptið vorum við nú með tjald. Klukkan var orðin eitthvað margt og við rétt náðum að setja upp tjaldið áður en við drifum okkur beint á ballið, við hugsuðum með okkur að græja bara allt annað eftir ball. En þegar við komum út af
ballinu þá er orðið svo kalt að það er nánast hvít jörð af hrími. Við ætlum nú auðvitað að setja hitarann í gang. Nei, heldurðu ekki að ansans rafmagnssnúran sé ónýt. Það er svo kalt að það endar með að við setjumst inn í bíl með koníakspela sem við höfðum með okkur“ segja stöllurnar og veltast um af hlátri. Þær ná að klára söguna ,,og þar sátum við til klukkan 7 um morguninn, þegar sólin fór að skína, því þá var loksins orðið svo heitt og gott að við gátum farið að sofa.“ Segja þær skellihlæjandi. ,,Daginn eftir voru auðvitað allir boðnir og búnir að aðstoða og vinur okkar lánaði okkur rafmagnssnúru fyrir hitarann. Hann hafði ekki lítið gaman af því að láta okkur svo vita að hann þyrfti að taka okkur úr sambandi, segja þær og hlæja dátt.
Jú, eftir þetta vorum við kallaðar Frostrósirnar.“ segja þær og skella upp úr.

,,Þetta er nú bara farið að minna á gamlar útihátíðasögur í ,,den tid“
,,Einhverntímann fórum við einmitt um Kjöl í svona kuldatíð og hrími, þá þurftum við nú einmitt að setjast aðeins að með pelann. Já, það hefur stundum borgað sig að hafa hann með“, segja þær hlæjandi.

,,Þið hafið s.s. keyrt alveg þvers og kruss um landið á sem flesta Harmonikkuviðburði?“
,,Já, algjörlega. Þetta er bara svo skemmtilegt að við höfum aldrei talið það eftir okkur að keyra landshlutanna á milli. Einhvern tímann keyrðum við heim, beint eftir ball, frá Egilsstöðum“ segja þær, ,,Og Hrefna keyrði beint suður í Öræfi því hún átti að vera mætt í vinnu þarna skömmu síðar, klukkan 7.“ bætir Katrín við og þær skella upp úr. ,,Maður yngist bara við þetta, þetta er til að hafa gaman og njóta lífsins“ eru þær sammála um. ,,Það eru til svo margar skemmtilegar sögur frá þessum góða félagsskap“ segja þær hlæjandi, að viðmælandi sér að það endist hvorki sunnudagurinn eða blaðsíðurnar fyrir fleiri í bili, en þakkar kærlega fyrir skemmtilega stund og gott kaffi. Það hlakka allir til næsta Hagyrðingakvölds, 2024.