Aðventan – tími örlætis og kærleika

0
159

Nú er aðventan gengin í garð. Fyrir flest okkar eru jólin tími fyrir fjölskyldu vini og hefðir. Fallegar skreytingar, eftirvænting og tilhlökkun. En jólin eru líka erfiður tími fyrir marga. Sumir finna fyrir einmanaleika, enda hafa ekki allir nána vini eða fjölskyldu til að eyða jólunum með. Þá er einnig algengt að fólk finni meira fyrir sorginni á jólunum. Hátíðartímabilið getur aukið á tilfinningar sorgar fyrir þá sem misst hafa ástvin eða lent í áfalli.
Þrýstingur á að kaupa og gefa gjafir, skreyta í kringum sig og taka þátt í hátíðarviðburðum, getur leitt til fjárhagslegrar streitu fyrir fjölmarga einstaklinga og fjölskyldur. Sumt fólk finnur líka fyrir spennu sem gerir hátíðina að uppsprettu streitu frekar en gleði. Þá geta einstaklingar sem takast á við geðheilbrigðisvandamál fundist jólahátíðin mjög krefjandi tími.
Það er mikilvægt fyrir okkur öll að hafa í huga að ekki allir upplifa jólahátíðina á sama hátt. Við eigum að mæta jólunum með opnum huga og vera tilbúin að sýna stuðning, skilning og samkennd – það getur skipt verulegu máli fyrir þá sem finnst hátíðarnar erfiðar.
Við finnum öll fyrir því, á þessum skrýtnu tímum sem við lifum, hversu heppin við erum að lifa við þann frið og velmegun, sem við njótum hér á Íslandi. Stríð, ofbeldi og óvissa er veruleiki allt of margra í heiminum. Það er í raun auðmýkjandi áminning um þær miklu blessanir sem við tökum oft sem sjálfsögðum hlut, að búa við öryggi og frið.
En innan um tindrandi ljós og hátíðargleði, er ekki hægt annað en að minnast á hina raunverulegu merkingu jólanna – vonina og kærleikann. Von, sem skín skært, jafnvel á dimmustu tímum, og kærleikann sem bindur okkur saman. Mér finnst gott að eiga trú. Mín trú er ákvörðun, ákvörðun sem ég tók á mínum fullorðins árum. Ég ofhugsa ekki mína trú, né reyni að útskýra hana sérstaklega. Og þó ég hafi ekki mikla þörf fyrir að tala um hana, er mín trú í raun hornsteinn að því hver ég er og hvernig ég nálgast lífið. Hún minnir mig á að vera þakklátur og auðmjúkur fyrir mínum forréttindum sem ekki eru sjálfsögð.
Hér í Hornafirði er staðan góð. Mikil fjárfesting er fram undan í atvinnulífinu, og þegar atvinnulífið blómstrar – blómstar mannlífið með. Nýtt hverfi á Höfn fer í auglýsingu fljótlega og við finnum fyrir miklum áhuga á lóðum, sem er okkur gleðiefni.
Okkur er að fjölga nokkuð hratt. Við erum orðin 2.650 í dag og það er athyglisvert að sjá, að núna er meira en 30% íbúa sveitarfélagsins, með erlent ríkisfang. Þetta er áskorun og minnir okkur á það sem kom fram fyrr í þessum texta, nefnilega skilning og samkennd. Samfélagið okkar er að breytast og við eigum vinna með breytingunni, líta á hana sem tækifæri og horfa björtum augum fram á veginn.
Ég þreytist ekki á að dásama náttúrufegurðina sem er hérna allt í kringum okkur, fegurð sem á sér engan líka. Á laugardaginn var ég svo heppinn að fá að slást í för með ferðaþjónustufyrirtæki hér á svæðinu. Við fórum út á fjörur og upp að jökli. Það er alltaf jafn skemmtilegt að fylgjast með hrifnæmu ferðafólkinu sem sýpur hveljur yfir stórbrotnum fjöllum, jöklum og dýralífinu í Hornafirði – allt saman hérna steinsnar frá okkur, mögnuð lífsgæði!
Nú þegar aðventan gengur í garð er gott staldra við. Staldra við og muna hvaðan við komum og hversu langt við sem þjóð, erum komin á skömmum tíma. Eiginkonan mín les Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson á hverjum jólum, en bókin gerist fyrir aðeins tæpum eitt hundrað árum. Sagan segir frá eftir-leitum Benedikts um snævi þakin öræfi norður í landi. Þar er hann með hundi sínum Leó og forystusauðnum Eitli. Sagan minnir okkur á þrautseigju þeirra sem á undan okkur komu, og nauðsyn þess að viðurkenna gildi og reisn allra manna og málleysingja sem á vegi okkar verða. Þannig getum við, hvert og eitt, skapað áhrif góðvildar og kærleika sem nær lengra en við sjálf gerum okkur oft grein fyrir. Gleðilega aðventu.

Sigurjón Andrésson bæjarstjóri