„Fall er fararheill“ var fyrirsögn á frétt í Eystrahorni á haustdögum 1985. Fjallaði fréttin um slys sem nýkjörinn formaður Unglingadeildarinnar Brands varð fyrir á Fláajökli 15. september 1985. Þessi fyrirsögn kom upp í hugann þegar ég var beðinn að rifja þennan atburð upp.
Þetta var fyrsta ferðin á dagskrá vetrarins eftir að ég var kjörinn formaður unglingadeildarinnar, ákveðið var að fara með hóp af nýliðum í jöklagöngu á Fláajökli og setja upp smá æfingu í sigi og ísklifri. En þessi litla æfing átti nú aðeins eftir að vinda uppá sig. Ég man ekki nákvæmlega hve margir við vorum en eitthvað í kringum 10 strákar á aldrinum 14 – 16 ára og svo var einn umsjónarmaður með okkur. Við vorum nokkrir með smá reynslu en flestir voru í sinni fyrstu jöklaferð.
Lagt var af stað að morgni frá björgunarsveitarhúsi, tíndur var til búnaður til jöklagöngu, broddar, axir, línur, hjálmar og það sem til þurfti en sitthvað varð þó eftir sem kom í ljós að hefði verið gott að hafa þegar aðstæður breyttust. Búnaðinum og mannskapnum var komið fyrir í Benz Unimog bíl sveitarinnar og brunað af stað vestur á Mýrar, kannski ekki alveg brunað hann fór nú ekki sérstaklega hratt yfir blessaður Unimoginn, en ferðin sóttist samt vel áfram. Þegar við komum að jökulsporðinum var búnaður gerður klár og menn græjuðu sig. Síðan var gengið í halarófu upp skriðjökulinn. Við vorum komnir u.þ.b. 1,5 kílómetra upp jökulinn þegar við fundum ákjósanlegan stað til að setja upp æfingu. Þetta var víð jökulsprunga með bröttum vegg öðru megin og aflíðandi halla upp hinu megin. Jökulveggurinn var um 10 metra hár þar sem hann var hæstur en lægri sunnar í sprungunni þar sem við komum okkur fyrir. Þar settum við upp tryggingar og festingar fyrir sig og klifur og æfðum okkur þar og kynntum búnaðinn fyrir nýliðunum. Þetta gekk allt ljómandi vel og skemmtum við okkur þarna. Þeir sem þekktu mig á þessum tíma kemur ekkert á óvart það sem síðan gerðist, ég átti nefnilega til að fara aðeins fram úr sjálfum mér. Í dag heitir þetta allt einhverjum fræðiheitum en fyrir 34 árum var þetta kallað glannaskapur en allavega fannst mér þjóðráð að reyna við vegginn þar sem hann var hæstur. Ég veit ekki af mér fyrr en ég er kominn langleiðina upp vegginn ótryggður í frjálsu klifri og hugsaði nú ert þú kominn í vandræði en áfram hélt ég og var kominn alveg upp að brún þegar það brotnaði undan broddunum og ég féll niður. Vinstri öxin var enn föst og þegar tók í ólina á henni þá brotnaði á mér framhandleggurinn áður en hún losnaði og ég rann niður vegginn. Ég man enn það eina sem fór í gegnum hugann þessar sekúndur “þetta verður vont”. Neðst hallaði veggurinn út og dró úr fallinu og bjargaði sennilega því að ekki færi verr. Ég lenti með broddana á vinstri fæti utan í vegginn á leiðinni niður og við það brotnaði ökklinn og svo var maður víða lemstraður eftir lendinguna en samt með fullri meðvitund.
Jæja hvað gerum við nú ?
Ég hef oft hugsað um það í seinni tíð og sérstaklega eftir að ég byrjaði aftur í björgunarsveit hvernig við óharnaðir unglingarnir og einn umsjónarmaður sem hafði reyndar mikla reynslu af allskonar aðstæðum brugðumst við og gæti þetta verið æfing á Wilderness námskeiði.
Það fyrsta sem ég man var að við héldum allir ró okkar og að ekki skapaðist panic ástand. Ég gat sagt strákunum hvernig ástandið á mér var, að ég væri illa brotinn á ökkla og handleggsbrotinn, annars væri ég tiltölulega hress. Við fórum strax í að meta aðstæður og hvað væri mögulegt í stöðunni.
Við vorum staddir 1,5 kílómetra uppi á skriðjökli með illa brotinn sjúkling án alls sjúkrabúnaðar og ekki með sjúkrabörur til að hífa mig upp, einnig vorum við fjarskiptalausir. Þetta er allt svolítið súrrealískt í minningunni því sjúklingurinn tók fullan þátt í undirbúningi og ákvörðunum varðandi björgun.
Árið 1985 voru enn í notkun gömlu björgunarsveitarstakkarnir sem ekki rifnuðu á saumum. Við ákváðum að nota tvo stakka og tvo broddstafi og búa til börur og reyna þannig að hífa mig upp úr sprungunni. Mér var komið fyrir í börunum og svo hófst alvöru sprungubjörgun. Við höfðum sem betur fer nóg af línum og blökkum til græja okkur. Þetta gekk allt vel og þegar ég var kominn upp úr sprungunni hófst burðurinn niður af jöklinum. Ýmislegt sást okkur yfir en þetta gekk nú samt sæmilega, eitt var að styðja betur við brotna ökklann en hann dinglaði hálflaus á leiðinni niður og fer enn um mig hrollur þegar ég hugsa um það. Annað var að ég var farinn að kólna svolítið , þó strákarnir hafi dúðað mig vel með auka fatnaði þá gleymdum við að setja undir mig þegar ég lá í sprungunni og eins þegar ég var settur niður á leiðinni þegar þeir hvíldu sig, kuldinn átti þá greiða leið beint úr jöklinum upp í bakið á mér. Þegar við vorum komnir fram á jökulsporðinn var bíllinn sóttur. Ekki voru þó æfingarnar á okkur búnar því Unimoginn pikkfestist í sandbleytu og stóð þar óhagganlegur. Voru þá tveir sendir af stað hlaupandi í átt að Flatey að sækja hjálp, svo heppilega vildi til að þeir hittu fljótlega mann á bíl sem keyrði þá að bænum þar sem hringt var á sjúkrabíl.
Á meðan við biðum eftir hjálp lá ég á jöklinum og fékk kuldann beint upp í hrygginn og var farinn að skjálfa allhressilega þegar sjúkrabíllinn kom. Ég man að ég var enn skjálfandi 12 tímum seinna þá dúðaður uppi í rúmi á spítalanum. Þegar í sjúkrabílinn var komið leið ekki á löngu þar til ég var kominn undir læknishendur, og fór svo með flugi á spítala.
Enn í dag skýtur minningin um þennan atburð upp kollinum og þá sérstaklega þegar maður er á leið í útkall eða á æfingum þar sem æfður er flutningur og meðferð á sjúkling. Ég á nefnilega nokkuð auðvelt að setja mig í þeirra spor en kann þó betur við mig í hlutverki björgunarmanns. Einnig hugsa ég oft um hve mikil reynsla þetta var fyrir okkur strákana og kannski heldur mikil svona á einu bretti, en klárlega tókum við með okkur ýmislegt úr þessari ferð sem nýttist okkur seinna á lífsleiðinni þótt undirritaður ætti eftir að fara fram úr sér aftur, allavega nokkrum sinnum.
Í dag er Unglingadeildin Brandur í fullu fjöri og starfsemin þar með blóma. Sonur minn Birgir gekk í Unglingadeildina Brand og þaðan í Björgunarfélag Hornafjarðar þar sem hann er orðinn fullgildur félagi. Ég hef bent honum góðlátlega á að það sé ýmislegt sem ekki þurfi að prófa aftur, það sé nóg að einn fjölskyldumeðlimur sé tilraunadýr.
Sigurður Ægir Birgisson,
félagi í Björgunarfélagi Hornafjarðar