Vöktun trjáreita FAS á Skeiðarársandi

0
330

Síðasta dag ágústmánaðar var farið í árlega ferð á Skeiðarársand til að skoða gróðurreiti sem nemendur í áfanganum „Inngangur að náttúruvísindum“ taka þátt í.
Ferðin krefst nokkurs undirbúnings. Nemendur þurfa að kunna skil á nokkrum grunnhugtökum sem þarf að skilja og geta notað. Þar má t.d. nefna hugtök s.s. gróðurþekja, skófir, rekklar og ágangur skordýra. Nemendum er skipt í hópa og fá allir hlutverk við athuganir og mælingar. Þá er mikilvægt að vandvirkni við skráningar sé gætt. Meðal þess sem er skoðað er gróðurþekja innan hvers reits og fjöldi plantna í hverjum reit. Þá þarf að tilgreina hvað er að finna í reitnum, t.d. skófir, mosi, blómplöntur og sveppir. Allar trjáplöntur innan reitsins eru taldar en þær minnstu eru stundum bara tvö eða þrjú laufblöð. Ef planta hefur náð 10 cm þá er plantan merkt með númeri, hæðin mæld sérstaklega sem og ársvöxtur. Síðast en ekki síst er horft eftir ummerkjum um beit og ágang skordýra.
Veður var gott þegar var farið á sandinn, hiti um 10 gráður, hæg gjóla og skýjað. Við byrjum alltaf á því að fara í reit 3 og þar er farið yfir það hvernig er best að framkvæma athuganir og mælingar. Þaðan fara svo hóparnir til að skoða aðra reiti en í heild eru reitirnir fimm sem eru vaktaðir. Að auki er sérstaklega fylgst með tveimur trjám utan reita og eru þau bæði vel yfir þrjá metra og eru smám saman að hækka.
Við sem förum með nemendur árlega á haustin erum orðin vön því að töluverðar breytingar geti verið á gróðri á milli ára. Þannig getur mikill vindur sem þyrlar af stað sandi haft áhrif á gróðurþekju í nokkurn tíma. Sandurinn leggst þá yfir svæði sem getur kæft litlar trjáplöntur sem hafa nýlega skotið rótum. Á sama hátt getur sandur lagst yfir lautir í mosa og hulið þær sandi, jafnvel í nokkur ár.
Þá höfum við líka séð að trjáplöntur þrífast misvel. Sumar vaxa jafnt og þétt og hækka smám saman eins og sést á meðfylgjandi línuriti en sú planta hefur stækkað um 90 sentimetra frá því að byrjað var fylgjast með henni. Á mynd 1 er búið að setja saman mynd af sömu birkiplöntu annars vegar frá árinu 2014 og svo frá 2023 og sést glögglega að hún hefur hækkað töluvert.

Línurit 1 – Vöxtur birkiplöntu 2, sem vex í reit nr. 3 á Skeiðarársandi, yfir það 15 ára tímabil sem vöktun FAS hefur staðið yfir.


Stundum hafa hlutar af merktum plöntum drepist og trjágreinar brotnað af. Þannig getur merkt trjáplanta jafnvel lækkað á milli ára. Við tókum sérstaklega eftir þessu í fyrra og þetta heldur greinilega áfram. Að þessu sinni var töluvert um slíkar plöntur eins og sjá má dæmi um á mynd 2. Þá getur það líka gerst að merkt planta hefur öll drepist og eftir standa berar trjágreinar.
Eftir ferðina vinna nemendur skýrslu. Vinnan við skýrslugerðina felst m.a. í því að skoða tölulegar upplýsingar á milli ára, skrifa um hvað var gert í ferðinni og velta fyrir sér líklegum skýringum á breytingum. Í ár töldum við tvær skýringar líklegar á miklum breytingum á milli ára; annars vegar að síðasta sumar var óvenju þurrt og það hefur vantað raka í jarðveginn. Hins vegar að þegar gróður var að fara af stað í vor gerði mikið suðvestan hvassviðri á sunnanverðu landinu sem þyrlaði söltum sjó langt upp á land og hafði víða áhrif á trjágróður langt fram eftir sumri.
Það er ekki nokkur vafi á því að nemendur læra mikið á því að fara í ferðir sem þessar. Yfirleitt eru með okkur einhverjir sem eru að taka eftir trjánum á Skeiðarársandi í fyrsta skipti. Margir eru að læra og skilja ný hugtök, nemendur læra að beita nákvæmum og öguðum vinnubrögðum og vinna úr gögnunum og koma þeim upplýsingum skýrt og skilmerkilega frá sér. Síðast en ekki síst að þá eru ferðir sem þessar mikilvægar til að njóta útiveru og kynnast um leið ferlum í náttúrunni, m.ö.o. að læra að lesa í náttúruna.
Líkt og frá upphafi ferðanna á Skeiðarársand kom starfsfólk frá Náttúrustofu Suðausturlands með í ferðina og þökkum þeim fyrir samstarfið.

Hjördís Skírnisdóttir
Lilja Jóhannesdóttir