Gamanleikur í Svavarssafni

0
294

Guðrún vaknar í kistu í eigin jarðarför en kann ekki við að trufla athöfnina. Um það hverfist sagan í kolsvarta gaman[1]einleiknum Guðrúnarkviða eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur. Við höfum kannski öll einhvern tímann velt fyrir okkur hvernig væri að fylgjast með okkar eigin jarðarför en í þessu verki tekst Eyrún á við þær vangaveltur, kurteisi og meðvirkni, og ýmis önnur mál, á gamansaman hátt. Einleikurinn verður sýndur í Svavarssafni næsta föstudag (9.júní) klukkan átta, og er ókeypis inn. Eyrún Ósk Jónsdóttir hefur getið sér gott orð sem ljóð- og leikritaskáld, en hún er búsett og uppalin í Hafnarfirði. Einleikurinn á sér langa sögu, hann var fyrst settur upp í leikstjórn Hildar Kristínar Thorstensen og tónlist Ólafs Torfasonar rétt fyrir Covid-faraldurinn. Faraldurinn frestaði útförinni og ýmsum öðrum listviðburðum um skeið þar sem leiklistarhátíðirnar sem áttu að taka við henni voru ekki haldnar. Það mætti því segja að jarðarfarar[1]gamanleikurinn sé núna uppvakningur, því verkið var sett upp í Gaflaraleikhúsinu nýlega, að þessu sinni í samstarfi með Björk Jakobsdóttur og er farinn aftur að túra. Þessu erum við sem fáum að njóta fegin, og ekki síst eiginmaður Eyrúnar, en hann hefur þurft að þola að hafa líkkistuna heima hjá sér síðastliðin þrjú ár meðan sýningarhléið stóð yfir. Einnig mun Eyrún lesa upp í hádeginu á bókasafni Hornafjarðar klukkan 12:30 á föstudaginn, ásamt Eygló Jónsdóttur.