LÍFIÐ Á SJÓNUM: SJÓFERÐ REYNIS ÓLASONAR

0
144

Reyni Ólasyni er sjómennskan í blóð borin, hann stundaði sjóinn í tugi ára og hefur upplifað hæðir og lægðir lífsins á höfum úti. Í tilefni þess að sjómannadagurinn er framundan settist Eystrahorn niður með Reyni í spjall um lífið á sjónum. Reynir kom til Hornafjarðar árið 1978 í sumarfrí sem hann er enn í segir hann léttilega. Hann lét til leiðast að taka einn túr á bátnum Þóri, sem endaði í mörgum túrum yfir 9 ára tímabil. Reynir var þar með alfluttur til Hornafjarðar og endaði sjómennsku sína á Hvanney árið 1999. Í gegnum árin lenti Reynir í fjölmörgum eftirminnilegum atvikum sem hann rifjaði upp með glöðu geði, þar á meðal vísu sem skipsfélagi samdi til Reynis og félaga hans þegar þeim gekk illa að gera við bilaða lensu. Lensan ekki lensaði

þeir unnu í henni tveir.

Eysteinn spurði Reyni

en hann bara vissi ekki meir.

Lensuna löguðu þeir á endanum og allt fór vel, en vísan sat eftir sem góð minning. En það segir Reynir hafa verið það besta við sjómennskuna, samböndin og tengslin sem mynduðust í áhöfnunum. Sameiginleg upplifun og þessi langi tími sem menn eyddu saman um borð tengja menn einstökum böndum sem eru Reyni mjög kær enn þann dag í dag. Hann segir að það hafi aldrei komið neitt annað til greina en að stunda sjóinn, hann hafi ekki fundið sig eins vel í landi, þar mynduðust ekki þessi tengsl í starfi sem Reynir segir vera einstök. Hann segir sjómannasamfélagið í heild sinni einnig vera mjög gott. Þar séu menn miklir vinir og alltaf gaman að hittast, hvort sem þeir voru saman á bát eða ekki, það samanstendur af góðu neti einstaklinga sem skilja erfiðleikana og sigrana sem fylgja lífinu á sjó.

Reynir segir fátt betra en að vera í góðu veðri á rekneti, „það var bara svo skemmtilegt“ segir hann glaðlega. Hann rifjar upp eftirminnilegt atvik þegar hann og skipsfélagar voru á trolli í Berufirði. Þeir hafi verið nýbúnir að kasta út þegar heyrðist af fiskeríi á öðrum stað, þeir létu ekki segja sér það tvisvar og drifu sig af stað. Þegar á staðinn var komið fengu þeir nokkra þorska og eina stærðarinnar lúðu, sem vó um 200 kg. Reynir ákvað að demba sér í málið og blóðga lúðuna, hann stakk hendinni upp í hana og ætlaði að hefjast handa þegar lúðan smellti saman skoltinum og neitaði að sleppa. Skipsfélagar hans reyndu hvað þeir gátu til þess að frelsa Reyni en allt kom fyrir ekki og lúðan hélt honum í 1,5 klukkustund. Honum var ekki meint af en lærði þó af reynslunni og hefur ekki stungið hendi í skolt lúðu síðan.

Reynir segist vissulega sakna sjómennskunnar, en þó minna en áður. Honum hafi þótt erfitt fyrst um sinn eftir að hann lagði sjóhattinn á hilluna árið 1999. Honum þótti tímabært að hætta til þess að gefa sér meiri tíma fyrir aðra hluti lífsins, enda er sjómannslífið eins og við flest vitum erfitt og slítandi og ber dýrmætan fórnarkostnað, að vera í burtu frá heimilislífinu og fjölskyldu, sem Reynir segir að hafi vissulega tekið sinn toll. En líf hans hafði verið samofið hafinu svo lengi að aðskilnaðurinn var erfiður. Hann tók þó einstaka túra á humartrolli sem hann hafði gaman af.

Reynir segir að hann hefði engu viljað breyta í lífinu, hann búi að dýrmætri vináttu og tengslum við fólkið sem fylgdi honum í vegferðinni og hann sendir að lokum öllum sjómönnnum hugheilar óskir í tilefni dagsins.

Eystrahorn tekur heilshugar undir þá kveðju og þakkar Reyni fyrir skemmtilegt spjall