Vortónleikar karlakórsins Jökulls

0
368

Við erum hér í jöklanna skjóli og búum við þau forréttindi að vera umlukin náttúrufegurð hvert sem augað eygir. Náttúran færir okkur aukinn kraft og er okkur hvatning til að gera betur í dag en í gær. Listamenn nútímans sem og til forna hafa notað umhverfið til listsköpunnar, hvort sem þeir hafa málað á striga, tekið á filmu eða ritað á pappír og stuðlað þannig að blómlegu menningarstarfi. Karlakórinn Jökull er á fimmtugasta starfsári núna, en hann var formlega stofnaður í júni 1973. Þó hófust æfingar fyrr á því ári eða í janúar, og var krafturinn slíkur að fyrstu tónleikarnir voru haldnir það vor. Þetta eru því merkileg tímamót í svona félagsskap. Margir hafa komið að og lagt hönd á plóg, en mikil lukka er yfir því að undirleikarinn okkar Guðlaug Hestnes hefur verið með kórnum síðan 1974, og ekki síðri lukka að eingöngu 2 hafa stjórnað kórnum, Sigjón Bjarnason var við stjórnvölinn þar til vorið 1992, en þá tók Jóhann Morávek við sprotanum og heldur á honum enn. Kunnum við þeim miklar þakkir. Flestir kórmenn hafa á einhverjum tíma setið í stjórn kórsins og formennirnir verið fjölmargir, og allir skilað merku og góðu starfi fyrir kórinn. Karlakórinn Jökull hélt síðast vortónleika 2019 en svo komu Covid árin og var starf kórsins mikið litað af þeim hömlum og fjöldatakmörkunum sem voru í gildi hverju sinni. Segja má að við séum ennþá að vinna okkur til baka eftir það bakslag, einhverjir félagar komu ekki aftur til æfinga en nýir hafa komið í staðinn. Í öll þau 50 ár sem Jökull hefur verið starfandi hefur hann alltaf verið í góðu samtali við íbúa og fyrirtæki á starfsvæði hans, og ætíð verið tilbúinn til að taka þátt í allskyns viðburðum, og vil ég nota tækifærið hér að þakka öllum þeim einstaklingum og fyrirtækjum fyrir veittan stuðning. Með bjartsýnina að vopni höldum við áfram inn í sumarið og hlökkum til komandi söngára með Karlakórnum Jökli.

 Sumarkveðja Gauti Árnason formaður Karlakórsins Jökuls