Fermingarminning Guðbjargar Sigurðardóttur

0
229

Fermingin mín fór fram 17.maí árið 1964 í Kálfafellskirkju í Suðursveit við vorum tvö fermingarsystkini sem fermdumst þennan dag. Ég var í ljósbláum fermingarkjól sem móðir mín saumaði á mig og hælaskóm. Á þeim tíma mátti maður fyrst fara í hælaskó á fermingunni, ég fékk þá nokkrum dögum áður til þess að æfa mig í að ganga á þeim. Ég man að ég fékk úr í fermingargjöf frá foreldrum mínum sem ég var ægilega montin af. Fram að því átti maður ekki úr eins merkilegt og það kann að hljóma núna. Við vorum fyrstu fermingarbörn séra Fjalars Sigurjónssonar sem var þar nýráðinnn prestur. Við vorum heima hjá þeim hjónum fyrir ferminguna að klæða okkur í kyrtlana þegar það uppgötvast að orðið hafi misskilningur um kaup á messuvíni og obblátum, svo hvorugt var til fyrir fermingun og ekki hægt að taka okkur til altaris. Ég var tekin ári seinna og sá sem fermdist með mér var ekki tekin til altaris fyrr en mörgum árum seinna. Fermingarundirbúningurinn var svolítið öðruvísi en hann er núna, þá fórum við öll börnin úr sveitunum til prestsins í 1 viku og lærðum sálmana, það var ekki hægt að dreifa þessu yfir allan veturinn vegalengdirnar voru svo miklar á þeim tíma. Fermingar voru haldnar hátíðlegar í sveitinni. Það mættu allir til kirkju og svo mættu allir í veisluna, það var alltaf öllum boðið. Þetta voru alltaf kaffiboð þar sem boðið var upp á hefðbundnar kökur á þeim tíma eins og rjómatertur með kokteilávöxtum. Það hefur örugglega verið boðið upp á LazyDazy köku í veislunni minni, það var kaka sem var alltaf í öllum veislum hér, ég veit ekki hvaðan hún kom en hún var mjög oft í veislum. Oft var botninn slegin úr veisluhöldunum með harmonikkuleik og dansi. Fermingar[1]veislur sem og aðrar veislur í sveitinni voru alltaf mjög skemmtilegar.