Minniháttar breytingar á sorphirðudagatali- Dreifbýli

0
644

Smávægilegar breytingar hafa verið gerðar á sorphirðudagatali sveitarfélagsins sem varða sérstakar söfnunarferðir í dreifbýli á heyrúlluplasti, brotajárni og spilliefnum, smáum raftækjum og textíl.
Söfnun á spilliefnum og smáum raftækjum sem átti að fara fram í febrúar hefur verið seinkað fram í miðjan mars. Í þeirri söfnun verður einnig tekið við fötum og textíl sem tilraunaverkefni. Öllum fötum og textíl sem berst á söfnunarstöðina á Höfn er komið til Rauða krossins.
Brotajárnshreinsuninni sem átti að fara fram í mars seinkar einnig og verður nú í lok apríl.
Að lokum hefur verið brugðist við athugasemdum um söfnun á heyrúlluplasti sem átti að fara fram um mánaðarmótin maí – júní og henni seinkað fram í þriðju vikuna í júní.
Þessar safnanir verða auglýstar sérstaklega en til þess að nýta þjónustuna er nauðsynlegt að óska eftir henni með því að skrá sig hjá sveitarfélaginu.
Sorphirðudagatalið stendur annars óbreytt og hafa engar breytingar verið gerðar á hirðutíðni hefðbundinna úrgangsflokka. Úrgangur er sóttur á þriggja vikna fresti í þéttbýli en á fjögurra til fimm vikna fresti í dreifbýli. Ólík hirðutíðni stafar einkum af því að matarleifum er safnað sérstaklega í þéttbýli auk þess sem ílát undir endurvinnsluefni í dreifbýli er nærri þrefalt stærra en ílát undir endurvinnsluefni í þéttbýli.
Sorphirðan mun þó taka breytingum á þessu ári og mun sorphirðudagatalið breytast í kjölfarið. Á þessu ári ber sveitarfélögum að safna fjórum aðgreindum úrgangsflokkum við heimili í þéttbýli. Í tengslum við breytingarnar hefur sveitarfélagið verið að skoða möguleika á söfnun matarleifa í dreifbýli auk söfnunar á málmumbúðum og gleri.
Þessi atriði, auk annarra, eru enn til skoðunar en sveitarfélagið vinnur nú að gerð útboðsgagna fyrir sorphirðu og meðhöndlun úrgangs. Breytt söfnunarfyrirkomulag á því eftir að koma endanlega í ljós en verður kynnt sérstaklega þegar það liggur fyrir.