Af hverju gervigras?

0
345
Framkvæmdir á Sindravöllum árið 2006

Mikið hefur verið rætt um þann sterka vilja okkar í knattspyrnudeild Sindra að fá gervigras á Sindravelli. Sitt sýnist hverjum varðandi þá kröfu og langar mig að leggja fram rök og staðreyndir um af hverju það sé algjörlega nauðsynlegt fyrir heilsueflandi samfélagið Höfn að lagt verði gervigras á Sindravelli sem allra fyrst.

Núverandi aðstaða

Í dag höfum við fimm mismunandi svæði til æfinga og keppni fyrir yngri- og meistaraflokkana.
Báran er frábær, yfirbyggður hálfur gervigrasvöllur, en vandamálið við Báruna er að hún er ekki í fullri keppnisstærð og því ekki hægt að keppa eða æfa til keppni.
Sindravöllur er okkar keppnisvöllur og var grasið lagt árið 2006. Eins fallegur og völlurinn er í fjarska þá er hann ónýtur. Hann drenar ekki sem gerir það að verkum að ef það rignir þá er hann óleikfær og því langt frá því að þola æfinga- og keppnisálag félagsins. Vegna þessa hefur knattspyrnudeildin þurft að færa leiki hjá meistaraflokkum og yngri flokkum, inn á Nesjavöll, Mánagarð í sumar vegna ástands Sindravallar.
Æfingasvæði við Sindravöll er ónýtt. Svæðið drenar illa og yfirborðið er hart, hólótt og hættulegt fyrir iðkendur.
Grassvæði austan Víkurbrautar er æfingarsvæði fyrir yngstu iðkendur okkar. Það er ágætis æfingavöllur sem hentar fyrir þann hóp.
Nesjavöllur, Mánagarður er áratuga gamall völlur sem er ekki viðhaldið. Aðstaða fyrir lið til keppni og dómara er óviðundandi og engin umgjörð er í kringum hann líkt og vallarklukka og áhorfendasvæði svo eitthvað sé nefnt. Þá er ekki hægt að vökva völlinn nema með aðstoð slökkviliðs þar sem vatnsból Nesjahverfis annar ekki vatnsþörf vallarins.

Enginn keppnisvöllur sjö mánuði ársins

Margir halda að fótbolti sé bara sumaríþrótt en það er úrelt form knattspyrnunnar. Frá því fyrir aldamót hefur verið æft og keppt allt árið um kring, hjá öllum félögum á landinu. Stefna KSÍ er að lengja Íslandsmótin til þess að auka leikjum yfir árið og með því erum við að nálgast knattspyrnumenningu nágrannaþjóða okkar. Þá má nefna sem dæmi að Færeyingar byrja sitt landsmót í mars. Það er ekki möguleiki að spila vetrarleiki á öllu suðausturlandi eins og staðan er í dag. Næstu gervigrasvellir við okkur eru á Reyðarfirði í aðra áttina og Selfoss í hina. Síðasta vetur spilaði meistaraflokkur karla til að mynda 6 heimaleiki að heiman og 3. flokkar karla og kvenna byrjuðu sitt Íslandsmót 1. mars. Þar sem Sindri getur ekki spilað heimaleiki frá október til maí þá voru fyrstu þrír til fjórir heimaleikirnir í báðum flokkum spilaðir í Reykjavík, nánar tiltekið á Leiknisvelli í Breiðholti. Þar þarf Sindri að leigja völl og borga dómurum ofan á venjulegan ferðakostnað sem fylgir útileikjum. Hvert ferðalag til Reykjavíkur kostar fjölskyldur og félagið mikið fjármagn. Þessir aukaleikir eru líklega að kosta hverja fjölskyldu vel yfir 100.000 kr. á ári.
Keppnisvöllurinn okkar er það illa á sig kominn að erfitt er að bjóða upp á æfingaraðstöðu í keppnisaðstæðum. Þetta var veruleiki okkar í sumar en tólf til fjórtán ára krakkar fengu til að mynda aðeins þjár æfingar á Sindravöllum í ár. Völlurinn hreinlega þolir ekki meira æfingaálag og því fengu krakkarnir aðeins þessar þrjár æfingar á fullum keppnisvelli. Ég efa að nokkurt annað félag á Íslandi hafi boðið krökkum sem æfa knattspyrnu uppá það að æfa einungis þrjár æfingar allt árið við keppnisaðstæður.

Aðstaðan eins og hún er í dag er óboðleg

Knattspyrnudeild Sindra hefur síðustu tvö til þrjú ár farið í mikla vinnu við það að endurskipuleggja starfið sitt. Félagið hefur fjárfest í innra starfi sem er sýnilega að skila sér. Unga fólkið okkar er að vekja athygli hjá félögum í efstu deildum á landinu, þau eru að fara til útlanda á skólastyrkjum og við erum að sjá þau stíga sín fyrstu skref með yngri landsliðum. Við erum ákaflega stolt af þeirri vinnu sem við höfum lagt í okkar starf og erum rétt að byrja mjög metnaðarfullt ferðalag þar sem við sinnum okkar iðkendum vel. Okkar einlæga ósk er að iðkendur fái sömu tækifæri og jafnaldrar þeirra annarsstaðar á landinu. Að þrátt fyrir landfræðilega áskorun nái þau að iðka sína íþrótt og áhugamál á jafnréttisgrundvelli við aðra iðkendur á landinu.
Eins og aðstaða okkar er í dag þá er hún langt frá því að vera boðleg okkar iðkendum. Að geta ekki spilað heimaleiki á Íslandmóti er óboðlegt. Að geta ekki æft við þær aðstæður sem við keppum á er óboðlegt. Að þurfa að ferðast auka 2.664-3.552 km vegna þess að við getum ekki spilað heimaleikina okkar heima, er óboðlegt. Að mínu mati er þetta á skjön við það heilsueflandi sveitarfélag sem við gefum okkur út fyrir að vera þar sem álagið við auka ferðalög iðkenda yfir vetrartímann hefur áhrif á líkamlega heilsu þeirra sem og andlega heilsu.

Hvað gerir gervisgras fyrir okkur?

Með gervigrasi mun nýting Sindravallar stóraukast. Notkunin undanfarin ár hefur verið um 160-170 klst. á ári. Við erum að sjá það í ár hversu ástandið er virkilega slæmt þar sem notkunin fór undir 100 klst. Með tilkomu gervigras myndi nýting vallarins verða hátt í 2500 klst. á ári. Völlurinn yrði aðgengilegur allt árið um kring í skipulagðar æfingar og keppnir fyrir knattspyrnudeildina en einnig fyrir almenna bæjarbúa. Möguleikarnir opna einnig á starf fyrir eldri borgara, frjálsan leik hjá börnum í sveitarfélaginu sem og heilsueflandi svæði fyrir fólk á öllum aldri.
Verið er að skoða möguleika um að byggja íþróttahús á æfingasvæði okkar. Ef svo verður myndi það gera slæmt ástand enn verra. Um leið og byrjað verður á nýju íþróttahúsi missum við það litla æfingasvæði sem við höfum núna. Gervigras myndi leysa það. Allir flokkar gætu æft og spilað á vellinum án vandræða.

Að lokum

Fyrirsögn greinarinnar er „Af hverju gervigras?“. Það er einfalt. Gervigras færir félaginu okkar það sem þarf til að fylgja framþróun knattspyrnuhreyfingar á Íslandi. Iðkendur okkar fá möguleika að keppa á jafnréttis grundvelli með því að æfa á keppnisvelli oftar en þrisvar sinnum yfir árið. Ferðalög minnka, kostnaður á fjölskyldur minnkar og sá mikli kostnaður félagsins sem fer í ferðalög minnkar. Gervigras gefur okkur 2500 klst. ástundun í keppnisaðstæðum á móti 100 klst. sem voru á Sindravöllum í sumar. Þó að við værum með besta grasið á landinu þá myndi það ekki anna þeirri notkun sem knattspyrnudeildin kallar eftir. Öll rök renna því stoðum undir þá skoðun mína að gervigras á Sindravöll sé algjört forgangsmál sem þolir enga bið. Þetta á að vera krafa allra fjölskyldna þeirra 150 iðkenda sem stunda knattspyrnu hér í bæ.

Óli Stefán Flóventsson
UEFA Pro þjálfari.
Þjálfari meistaraflokks & yngri flokka Sindra