Nýheimar fögnuðu 20 ára afmæli

0
458

Laugardaginn 27. ágúst sl. var 20 ára afmæli Nýheima haldið hátíðlegt. Haldin voru nokkur erindi af tilefninu, Gísli Sverrir Árnason, fyrrv. formaður byggingarnefndar Nýheima tók til máls ásamt Eyjólfi Guðmundssyni fyrrv. skólameista FAS og einnig bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Sigurjón Andrésson. Kynnir var Ragnhildur Jónsdóttir. Mikið var um að vera í húsinu, Náttúrustofa Suðausturlands sýndi frá starfi sínum ásamt því að hafa til sýnis áhugaverðar höfuðkúpur og skordýr. Vöruhúsið var með til sýnis ýmis verkefni og tæki úr Fab-Lab smiðjunni. Vatnajökulsþjóðgarður var með náttúrubingó fyrir gesti og bauð Menningarmiðstöðin upp á listasmiðjur í bókasafninu. Góð mæting var á hátíðina og var boðið upp á glæsilegar veitingar gerðar af Kvennakór Hornafjarðar. Fjölmörg hornfirsk tónlistaratriði voru flutt á meðan hátíðinni stóð. Þar á meðal flutti hljómsveitin Fókus nokkur lög og Björg Blöndal og Þorkell Ragnar spiluðu nokkur djass lög. Einnig komu feðginin Luiz og Amylee fram, ásamt nemendum úr Tónskóla A-Skaft.
Við þetta tækifæri afhenti Menningarmiðstöðin verðlaun í lestraátaki sínu. Lestrarátakið stóð yfir frá 10. júni til 19. ágúst og tóku alls 12 börn þátt, þar af níu í 1.-4. bekk og þrjú í 5.-10. bekk og samtals lásu þau yfir 300 bækur. Yngri börnin fengu að gjöf bókina Prumpuskógur eftir Nadia Shireen og eldri börnin fengu bókina HVA David Williams.
Lestrahestur MMH 2022 var Theodór Árni Stefánsson.
Hér má sjá nokkrar myndir frá hátíðinni.