Hlaupahópur Hornafjarðar byrjar sitt annað hlaupaár

0
374

Hlaupahópur Hornafjarðar nálgast ársafmælið, en fyrsta æfing hópsins fór fram 5. september fyrir tæpu ári síðan. Hópurinn er starfræktur í samstarfi við frjálsíþróttadeild Umf Sindra. Við stofnun setti hópurinn sér það meginmarkmið að efla og fjölga hlaupurum á Hornafirði og bæta lífsgæði einstaklinga með því að geta hlaupið sér til gleði og heilsubótar. Það er ekki annað hægt að segja en að hópurinn hafi heldur betur eflst á þessu eina ári og voru iðkendur í vor vel yfir fjörutíu. Þjálfari getur ekki annað en haldið því á lofti líka að gleðin í hópnum sé með eindæmum góð og hópeflið vel nýtt. Án skemmtilegra hlaupara er enginn hlaupahópur!
Í sumar uppskáru hlauparar eftir æfingar vetrarins með þátttöku í hinum ýmsu almenningshlaupum, eins og Puffin Run, Mýrdalshlaupinu, Hengil Ultra, Gullsprettinum, Hlaupið fyrir Horn, Þorvaldsdalsskokkinu, Akureyrarhlaupi, Laugarvegs­maraþoni, Austur Ultra og Fimmvörðuhálshlaupinu. Yfir 30 hlauparar hlupu í Mýrdalnum í maí, í júní voru það um 20 hlauparar sem fóru fyrir Horn og í Austur Ultra hlaupinu í Lóni hlupu yfir 24 undir merkjum Hlaupahóps Hornafjarðar. Sannkölluð veisla fór svo fram í Reykjavíkurmaraþoninu um nýliðna helgi þar sem margir meðlimir hlupu og styrktu í leiðinni hin ýmsu góðgerðarsamtök. Ber það hæst að nefna stuðning við “Team Heiðrún og Laufey” sem hlupu fyrir Ljósið og safnaði hópurinn yfir 600.000 kr. Vert er einnig að taka fram að hlaupahópurinn stóð fyrir svokölluðum vetrarhlaupum síðasta vetur, hvar hlaupin var 5 km hringur, 1 x í mánuði frá október fram í mars. Vetrarhlaupin verða aftur á dagskrá í vetur. Einnig tók hópurinn þátt í Humarhátíð í júní með því að aðstoða við Sindraleikana sem og að halda utan um 9 km utanvegahlaup fyrir Horn.
Reglubundnar æfingar Hlaupahóps Hornafjarðar byrja á ný þriðjudaginn 29. ágúst. Fyrstu tvær vikurnar verða opnar öllum til kynningar en að sjálfsögðu er öllum velkomið að kíkja á okkur hvenær sem er og taka stöðuna. Gert er ráð fyrir að byrjendanámskeið hefjist einnig 29. ágúst. Námskeið miðar að þeim sem hafa lítinn hlaupabakgrunn og markmiðið í lok 12 vikna námskeiðsins er að geta hlaupið 5 km samfellt án þess að stoppa.
Þjálfari hópsins, Helga Árnadóttir, nýtti vorið og sumarið til að afla sér meiri þekkingar á sviði hlaupaþjálfunar. Í vor sótti hún 2ja daga námskeið hjá Langhlaupanefnd FRÍ. Leiðbeinandi var Daninn Max Boderskov, cand.scient í íþróttum og sérfræðingur í hlaupum og hlaupaþjálfun. Max er höfundur að námskeiðum varðandi hlaupaþjálfun í Danmörku, reynslumikill hlaupari, fyrirlesari og hlaupaþjálfari. Einnig er Helga þessa dagana á lokametrunum við að klára 1. stig þjálfaramenntunar hjá ÍSÍ. Þau sem vilja upplýsingar um hópinn geta haft samband við Helgu í síma 888 5979, í gegnum facebook síðu hlaupahópsins eða netfangið hlaupahopurhornafjardar@gmail.com

Hlökkum til að sjá þig á hlaupum í vetur!